08.04.1968
Efri deild: 84. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1121 í B-deild Alþingistíðinda. (967)

179. mál, vegalög

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Þetta frv. til breytinga á vegal., sem hér liggur fyrir og mikið hefur verið rætt og nú afgr. í Nd., er þess eðlis, að það gefur alþm. tilefni til þess að rifja dálítið upp, hvar á vegi við stöndum í fyrsta lagi í vegamálum og í öðru lagi í almennum málum, hvað varðar lífskjör og fjárhag almennings í landinu.

Það er auðvitað deginum ljósara, að þjóðvegakerfi okkar Íslendinga er býsna þungt og erfitt fjárhagslega sökum fámennis þjóðarinnar og lengdar vegakerfisins og þeirra erfiðu leiða, sem nauðsynlegar eru og óhjákvæmilegar. Það er ekki að ástæðulausu, að æðsta stjórn samgöngumálanna í landinu, vegamálastjóri og samgmrh., hafa fengið þungar áhyggjur af ástandi vegakerfisins. Einkum er það ljóst, að sá hluti vegakerfisins, sem liggur undir mestri og þyngstri umferð og ætti að vera byggður upp sem hraðbrautakerfi eins og fyrirhugað er, er í mjög slæmu ásigkomulagi, og miðað við þarfirnar er það reyndar alveg óviðunandi, eins og rifjað hefur verið upp m.a. í þessum umr., að vegasambandið hið næsta höfuðborginni sé svo illa farið — svo óhæft til að sinna þeirri umferð, sem á það hlýtur að leggjast, að þar á verður að ráða bót fyrr en síðar.

Og þetta frv., sem kemur frá samgmrn., miðar að sjálfsögðu að því að efla fjárhag vegakerfisins og þá auðvitað um leið að því að halda því í skaplegra horfi, þ.e. að byggja það upp. Þetta hlýtur hver maður að viðurkenna, að er hin mesta nauðsyn. Og þó að hæstv. samgmrh. hafi hér farið nokkrum orðum um það, að hann telji stjórnarandstöðuna hér á þ. hafa litið vegamálin óraunhæfu auga, þarf það ekki að felast í því, að stjórnarandstaðan viðurkenni ekki, að þörf sé á meira fjármagni til vegakerfisins og betri uppbyggingu þess, enda hefur það einnig komið fram í umr., að svo er ekki. Ég fyrir mitt leyti skal taka sérstaklega fram, að ég tel, að það þurfi að betrumbæta vegakerfið, og mér finnst að ýmsu leyti þær hugleiðingar, sem hér komu fram í ræðu samgmrh. vera á viti byggðar, og hann er auðvitað í þeirri aðstöðu, að á fáum mönnum ef nokkrum í landinu hlýtur að hvína öllu grimmilegar en honum það, sem upp á kann að vanta, að vegakerfið sé starfshæft. Allt er þetta rétt, en þá er á hitt að líta, hvernig þar muni vera búið um hnúta, hvernig möguleikar muni vera á því að láta peningana, sem ráðgert er að fá í vegagerðarfrv. þessu, af hendi hjá þeim aðilum, sem eiga að borga það. Þeirri hlið málsins verður heldur ekki gleymt, svo að vit sé í.

Því hefur mjög verið haldið á lofti af hálfu stjórnarvalda réttilega, að hagur þjóðarinnar hafi farið versnandi á síðustu árum og það hafi orðið mikið verðfall á útfluttum vörum, enda framleiðsla þeirra einnig minnkað, og nú bætist það nýjasta ofan á, að það hefur einnig orðið kaupskerðing miðað við verðlag í landinu hjá öllum launþegum landsins — mismunandi mikil, en hjá verulegum þorra þeirra mjög mikil. Allt þetta ber einnig að hafa í huga, þegar ákveðið er að taka í l. ákvæði, sem skipa svo fyrir, að flytja skuli fjármagn frá einum aðila til annars — ekki aðeins þarf að hafa í huga þörfina hjá þeim, sem á að fá fjármagnið, heldur einnig getuna hjá hinum, sem á að borga það. Þetta er alveg óhjákvæmilegt og hlýtur að koma til álita hverju sinni.

Það hefur verið vitnað hér í það, að verð á benzíni sé eða verði, eftir að frv., sem hér liggur fyrir er orðið að l., því að það efa menn ekki, að muni verða, þrátt fyrir þetta ekki öllu hærra hér á Íslandi en í nágrannalöndum okkar mörgum. Þetta mun rétt vera, en fleira er vert að taka með í þann samanburð, sem hæstv. ráðh. gerði hér á þessum hlutum. Hann sagði réttilega, að við bærum saman lífskjör okkar við lífskjör nágrannaþjóða okkar. Það gerum við. En þó að benzíngjaldið sé álíka hátt hjá okkur og hjá þeim eða verði það eftir lögtöku þessa lagafrv., liggur það augljóslega fyrir, að kostnaður manna við hvern ekinn km verður miklum mun hærri hér en erlendis vegna þess, að vegakerfi okkar er með þeim hætti, sem lýst hefur verið; það er miklu lakara en hjá nágrannaþjóðum okkar. Einnig liggur það fyrir, að verð ökutækja á Íslandi er hærra en hjá nágrannaþjóðum okkar, og reyndar mun það vera eitthvað það hæsta, sem tíðkast í víðri veröld. Hversu miklu hærra það er í prósentutölu miðað við það, sem er hjá nágrannaþjóðunum, get ég ekki fullyrt um, en hér hafa verið nefndar tölur í því sambandi, og þær eru hrollvekjandi, ef réttar væru. Þess vegna er það augljóst, að stofnkostnaður vegna bifreiða á Íslandi er miklu hærri en í nágrannalöndunum og kostnaður við ekinn km er einnig miklu hærri en í nágrannalöndunum, jafnvel þótt benzínverðið sé bara ámóta og ekkert miklu hærra.

Engu að síður kemur vel til álita að leggja aukið fé til bættra vega einkum til hraðbrauta á Íslandi, en þá er vert að athuga það, hvort þetta frv. tryggir það. Ef farið er yfir ákvæði til bráðabirgða í frv., liggja þar fyrir allmargar tölur samtals upp á 109 millj. kr., sem er áætlunartalan um það, hvaða fjármagn muni verða flutt til veganna á yfirstandandi ári, ef frv. verður að l. næstu daga. Þar eru taldar út millj. á millj. ofan. En ef við lítum á það, hvað felst í einstökum liðum þess, kemur í ljós, að engin tala þar bætir úr hraðbrautaþörfinni á þessu ári og gengur ekki einu sinni til þess að undirbúa það, að 14 millj. kr. undanteknum, sem eru í 1. lið bráðabirgðaákvæðisins til undirbúnings hraðbrautaframkvæmda. Þar er talin 21 millj. kr., en við nánari athugun kemur í ljós, að þessi 21 millj. kr. á ekki að fara til undirbúnings nýrra hraðbrauta, heldur á þriðjungur þeirrar upphæðar að fara til þess að borga skuld, sem áður hefur verið stofnað til í sambandi við þær. Skuldir sínar verða menn auðvitað að borga, ekki neita ég því. En af því að hæstv. samgmrh. leggur á það geysimikla áherzlu, að allar þær till., sem fara í bága við frv., séu þar með taldar óraunhæfar, þá vil ég aðeins minna á það, að einhverjir fleiri hafa verið dálítið óraunsæir, en stjórnarandstæðingar, þegar þeir gerðu sínar áætlanir um, hvað þyrfti að renna í Vegasjóð, því að allar upphæðirnar í þessu frv., 109 millj. kr. talsins, eru til komnar vegna þess, að fyrri áætlanir hafa ekki verið raunhæfar og það hjá ráðh. sjálfum, að 14 millj. kr. undanskildum, sem frv. gerir ráð fyrir, að renni til nýrra hraðbrauta.

Þegar haldið er áfram hugleiðingum um frv. og hversu raunhæft það sé til þess að hæta vegakerfið með lagningu nýrra hraðbrauta, eins og öll grg. þess miðar þó að, að sé tilgangur frv., kemur í ljós, að á næsta ári gerir ráðh. ráð fyrir, að þau gjöld, sem lögð eru á samkv. frv., muni nema 190 millj. kr., en hann talar hér um, að kannske geti Vegasjóður lagt til hraðbrautanna á því ári 110 millj. kr. Þá liggur það fyrir, að það er aðeins svo sem rösklega helmingurinn af þeim gjöldum, sem frv. gerir ráð fyrir, sem í framtíðinni gæti komið til með að renna til hraðbrautanna, ef þessi álitsgerð ráðh. væri eitthvað raunhæfari en fyrri áætlanir, sem við höfum hér dæmi um deginum ljósari einmitt í ákvæðum frv. sjálfs, þar sem allur meginþungi gjaldanna, sem á að leggja á samkv. þessu frv. fer til þess að greiða gamlar skuldir, þ.e. til þess að bæta það upp, hversu óraunhæfar áætlanir um fé til Vegasjóðs hafa verið á undanförnu ári.

Það hefur borizt hér í tal, að lagt hafi verið til, að lán yrði tekið til þess að standa undir því, sem eytt hefur verið um of í vegakerfið miðað við fyrri áætlanir. Hvort það er óraunhæft eða ekki, skal ég ekki um segja einkanlega vegna þess, að hér virðist ríkisstj. sem slík leggja dálítið aðra meiningu í orðið óraunhæfur en það, sem ég og mínir líka gera. Við fáum að heyra það við hverja afgreiðslu við hvert frv. á fætur öðru, sem afgr. er í þ., að okkar hugmyndir, sem við gjarnan berum fram í tillöguformi, séu ævinlega óraunhæfar, okkar till. til breytinga á vegal. eru óraunhæfar o.s.frv. En af stjórnarinnar hálfu er aldrei á það minnzt, að það sé neitt óraunhæft við það, þó að svo sem eins eða tveggja mánaða gömul fjárl. séu tekin og þeim umturnað, vegna þess að þau standast ekki. Mér skilst, að ríkisstj. sé búin að löggilda með sjálfri sér þá merkingu í orðinu óraunhæft, að það þýðir á móti stjórninni. Óraunhæf till. þýðir till., sem stjórnin vill ekki samþykkja, en að það eigi eitthvað skylt við þá gömlu merkingu, sem ég og aðrir slíkir höfum lært í okkar heimasveitum um merkingu þessa orðs, virðist vera týnt, gleymt og glatað.

Þó að ráðh. finnist það dálítið óraunhæft að leggja til, að sá aðili, sem vantar fé, af því að hann hefur eytt meira en hann hafði möguleika á að ná til sín með auknum tekjum, taki lán til þess að bjarga við málunum, sem komin eru þannig í óefni hjá honum. þetta er reyndar það, sem margur — og reyndar flestir — verða að bjargast við og haga þannig sínum útgjöldum á næsta ári, að þeir geti komizt yfir þá örðugleika, sem þeir hafa skapað sér, en þetta virðist ekki gilda um ríkisstj. Hún telur það óraunhæft, ef við viljum ekki leggja á landsmenn gjald til að vega upp þessa ofeyðslu, hversu sem á stendur um gjaldþol þeirra, sem eiga að borga.

Ég hef áður rifjað það hér upp, að það hefur hallað undan fæti ekki aðeins hjá þjóðarbúinu sem slíku, ekki aðeins hjá ríkisstj., ekki aðeins hjá Vegasjóði, heldur fyrst og fremst hjá einstaklingunum í landinu. Þeir hafa orðið fyrir öllum hinum sömu skakkaföllum, sem hinir opinberu sjóðir hafa orðið fyrir, en að auki hafa þeir orðið fyrir rýrnandi atvinnu og lækkandi kaupgreiðslum miðað við efni. Það er þess vegna að mínu viti rétt, sem ríkisstj. hefur að undanförnu haldið fram allt fram að þessu, að það verði að fara eins vægt í það og mögulegt er að leggja á nýja skatta, enda gömlu skattarnir býsna drjúgir útgjaldaliðir.

En hér kemur sem sé samgmrh. og sýnir fram á það með fullgildum rökum, að það sé nokkur nauðsyn á því að verja meira fé til þjóðveganna í landinu, og telur síðan alveg óraunhæft að hafa nokkuð á móti því að slíkt gjald sé lagt á hinn almenna skattborgara. Samgmrh. hefur greinilega mikið til síns máls, en hann lítur aðeins á aðra hlið málsins, en þær eru tvær hliðarnar — önnur hliðir snýr að þeim, sem taka móti gjaldinu, en hin að þeim, sem eiga að borga það. Síðan rifjaði hæstv. samgmrh. upp hluti, sem ráðgerðir hafa verið, þ.e. að byggja 300 eða 350 km af hraðbrautum á ýmsum stöðum á landinu, þar sem þeirra er mest þörf, en fyrir liggja nú þegar mælingar á því, hvar umferðin er mest, og það fer ekkert á milli mála, hvar nauðsynlegt er að leggja þessar hraðbrautir og að það verður að gerast. Það er að vísu alveg rétt. En á það að gerast nú, einmitt þegar vitað er, að skattborgararnir eiga erfiðara með það en nokkru sinni fyrr að borga þetta? Ef á að leggja þetta gjald á, hlýtur það að vera gert með það í huga, að fram undan séu batnandi tímar, og það vonum við auðvitað öll, að sé raunverulegt. En ef við eigum að treysta því, að svo verði, er einnig hægt að hugsa sér það, að hægt sé að taka lán til þess að losa sig við þær skuldir, sem þegar hafa myndazt vegna þess, að á batnandi tímum muni gefast færi á því að borga þetta. Höfum við hins vegar ekki trú á því, að batnandi tímar séu fram undan, virðist álíka fjarlægt að láta sér detta það í hug, að hægt sé að leggja gjöldin á skattborgarana eins og hitt, að ríkissjóður geti tekið lán fyrir þessu og borgað það síðar.

Ef ekki eru batnandi tímar fram undan hjá okkur, verðum við að búa áfram við miklu verra vegakerfi en æskilegt væri; því er nú verr og miður. En málin horfa svona við. Þá verða ýmsir að spara við sig á næstunni. Þá verður ríkissjóður — og hinir opinberu sjóðir — að halda áfram á þeirri braut, sem nú er reyndar viðurkennt af hálfu stjórnarvalda, að nauðsyn beri til að gera, þ.e. að draga saman eyðsluna, komast af með minna fjármagn en gert hefur verið hingað til. Það var á sínum tíma talið algjörlega óraunhæft, þegar við — ýmsir stjórnarandstæðingar — lögðum til, að sparað væri á fjárl. ýmislegt það, sem ríkisstj. hefur nú lagt sjálf til, að sparað verði að meira eða minna leyti svo sem lögreglukostnaður og fleira þvíumlíkt.

Við skulum ekki venja okkur á það að rugla svo hugtökum að telja allt það óraunhæft, sem ekki er hugsað í stjórnarráðinu, og það eitt raunhæft, sem þar er hugsað eða á þeim skrifstofum, sem segja stjórnarráðinu fyrir verkum, því að þær skrifstofur eru ýmsar og senda frá sér margháttaða speki, sem reynist þó ekki nema takmörkuð, þegar hún hlýtur sína eldskírn í reynd hins lifanda lífs.

Ég vil ekki taka neina afstöðu til þess á þessu stigi málsins, hvort vert sé að samþykkja einhvern hluta þessa frv. eða máske frv. allt. Ég viðurkenni það, að þörf er vissulega fyrir fé til þjóðveganna, einkum hraðbrautanna á næstunni, en það verður á hverjum tíma að meta það og reyna að meta það raunhæft, hvort grundvöllur er fyrir því, að þau gjöld séu lögð á, sem ýmsir, sem um málin fjalla, telja, að gott væri að hafa og jafnvel nauðsynlegt. Ég tel, að það væri vert að athuga það gaumgæfilega, hvort við getum ekki enn þá gert ýmsa liði í vegagerð landsins og vegaviðhaldi lægri en nú er. Ég er ekki að halda því fram, að þetta sé sukk eða bruðl eða óhóf, en engu að síður gefa þeir tímar, sem við lifum á, stöðugt ástæðu til þess, að við endurskoðum okkar vinnubrögð — endurskoðum það, hvernig við stöndum að hinum ýmsu framkvæmdaliðum með það fyrir augum, hvort ekki sé hægt að vinna að þeim á hagkvæmari og betri hátt. Ég veit, að sumt í vegakerfinu þolir enga bið; það verður að lagfæra það. En það er ekki heldur svo, að við séum tekjulaus með öllu. Það eru geysistórir liðir — fjárhagslegir, sem renna til vegakerfisins nú þegar, þó að engu væri þar við bætt.

Það er ekkert ýkjalangt síðan þau vegalög sem við búum við núna voru lögtekin, og þá gert ráð fyrir, að þjóðvegir landsins hefðu eðlilega tekjustofna. Ég er ekki alveg sannfærður um það, að þetta hljóti allt að vera úrelt nú og engin önnur leið hugsanleg en sú að leggja á ný gjöld, sem nema á 2. hundrað millj. kr. á þessu ári og fara vaxandi á næstu árum, ef samþykkt yrðu og lögtekin. Ég efast ekkert um það, að bæði hæstv. samgmrh. og aðrir stjórnendur vegamála á Íslandi eru auðvitað búnir að leiða hugann að ýmsum þessum liðum og atriðum en þeir hafa að sjálfsögðu eins og liggur í hlutarins eðli, fyrst og fremst hugsað málið út frá því, sem þeim var þægilegast. Því að ég veit, að þeim er þægilegast að fá bara stórar fjárfúlgur í sína sjóði, þá geta þeir gert bæði eitt og annað, sem þá langar til að gera og sem til heilla og hagsbóta horfir; það efast ég ekkert um. En það verður einnig að athuga svona hluti út frá sjónarmiði þeirra, sem eiga að borga og það verður að stilla því í hóf, að ekki sé ofgert gjaldþoli þegnanna.

Við þessa 1. umr. málsins sé ég ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð og þessar hugleiðingar öllu lengri, en málið á að sjálfsögðu eftir að koma fyrir væntanlega í samgmn., og þar verður enn fjallað um það og þá tekin afstaða til málsins í einstökum liðum.