11.03.1968
Efri deild: 68. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1158 í B-deild Alþingistíðinda. (994)

82. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Þegar ég lagði þetta frv. hér fram og gerði grein fyrir því við 1. umr., þá skýrði ég frá því, sem öllum hv. þdm. er kunnugt, að frv. hefði verið samið af Sambandi ísl. sveitarfélaga og væri flutt eftir ósk þess og hefði ég talið sjálfsagt, þar sem ég færi með fjárhagsmál þeirra, að verða við þeirri ósk að flytja þessa till. þeirra hér inn í þingið. Ég tók það hins vegar fram, að þó að frv. væri flutt sem stjfrv., þá væri það ekki með þeim venjulega hætti gert, að stjórnin gerði það endilega í einstökum atriðum að sínu máli, heldur væri málinu komið hér á framfæri, og vitandi um það, að hér á Alþ. hefðu menn vafalaust ríkan skilning á vandamálum sveitarfélaganna, þá ætti ekki að þurfa að óttast um það, að menn tækju ekki með skilningi þessum till. sveitarstjórnasambandsins. En ég tók það fram, að vitanlega væri það algjörlega meinfangalaust frá minni hendi, þó að hv. n., sem fengi málið til meðferðar, gerði á því einhverjar breytingar. Hins vegar vonaðist ég til þess, að þær breytingar yrðu ekki gerðar, án þess að um þær yrði haft samráð við Samband ísl. sveitarfélaga og leitazt við með öllum tiltækilegum ráðum að fá sem víðtækasta samstöðu um þær breytingar. Nú hefur það að vísu gerzt, sem mun vera, að ég hygg, nokkurt einsdæmi hér á Alþ.,n. hefur fjórklofnað. Ég man sannast sagna ekki eftir öðrum dæmum um það, að þingnefnd hafi skilað fjórum nál. en í þessu eina tilfelli hér. Hins vegar kemur það í ljós við nánari athugun málsins, að ágreiningur er e.t.v. ekki eins djúpstæður milli hinna einstöku nefndarhluta og af fjölda nál. mætti ætla, þannig að sem betur fer er þó víðtækari samstaða um málið í meginefnum heldur en virðist í skjótu bragði. Ég vil taka undir þakkir hv. síðasta ræðumanns, 4. þm. Reykn., til 1. minni hl. n. og formanns hennar fyrir það mikla starf, sem lagt hefur verið fram af þeirra hendi til þess að reyna að ná samstöðu í nefndinni. Þó að það hafi ekki tekizt, þá er það ekki fyrir það, að ekki hafi verið lögð áherzla á að reyna að teygja spottana saman, þannig að hægt væri að hnýta nál. meira saman heldur en útkoman hendir til.

Ég skal ekki fara út í umr. um einstök atriði, eins og þau hafa legið hér fyrir í einstökum brtt., en taldi aðeins rétt, að það kæmi hér fram við umr. að ég fyrir mitt leyti get algjörlega fallizt á till. l. minni hl. n. og tel, að það væri vel viðunandi afgreiðsla á málinu, ef hv. þd. gæti fallizt á að afgreiða frv. með þeim breytingum. Breytingar 1. minni hl. eru að vísu nokkrar, en skipta ekki, að því er mér sýnist, því meginmáli, að það haggi þeirri undirstöðu, sem frv. byggist á. Mér kom það ekki á óvart, að ágreiningur yrði um ýmis atriði þess, svo að hugleiðingar kæmu fram um breytingar á þeim, en það sem ég tel aðeins máli skipta, er, að það séu ekki gerðar umfangsmiklar breytingar, sem snerti þann grundvöll, sem tekjustofnakerfi sveitarfélaganna byggist á. Og það má raunar e.t.v. segja, að engin þessara till., þó samþykkt yrði, haggi þeim grundvelli, nema ef segja má sú till., sem hv. 4. þm. Norðurl. e. flytur hér, sem mér skilst fela í sér þá rýmkun, að þó að menn séu ekki búnir að greiða upp fyrir áramót útsvar sitt, þá eigi þeir engu að síður að njóta fríðinda af því, sem þeir hafa greitt. Það tel ég mjög viðurhlutamikið, ef slík till. yrði samþykkt og hlyti að hafa mjög ill áhrif á útsvarsinnheimtu sveitarfélaganna.

Varðandi 1. gr. frv. má auðvitað endalaust um það deila fram og aftur, hvaða sjónarmiði menn eigi að fylgja, þegar slíkt kemur fyrir, að dómstóll kveður svo á, að venja, sem skapazt hefur um framkvæmd tiltekinna laga, sé ekki rétt. Ég held hins vegar, að það séu mjög eðlileg viðbrögð, þegar slíkt ástand skapast, að það sé leitazt við að gera lögin ótvíræð um það, hvað fyrir mönnum hafi vakað. Það getur svo verið spurning út af fyrir sig, hvernig menn vilji bregðast við, hvort menn vilji í meginefnum fallast á dómsniðurstöðu, er segir, að lögin eigi að vera á þann veg skilin, eða hvort menn vilja, að lögin verði færð í það ljósari búning, að þau verði framvegis túlkuð eins og þau hingað til hafa verið túlkuð af öllum þeim aðilum, sem lögin hafa átt að framkvæma. Það, sem fólst í frvgr., var að taka málið þeim tökum að gera það ótvírætt löglegt, sem gert hefur verið að undanförnu af skattyfirvöldum í sambandi við framkvæmd þessarar skattálagningar eða útsvarsálagningar að þessu leyti. Þó að við fellum niður þessa gr. frv., verður vitanlega sú óvissa áfram við lýði, vegna þess að því fer víðs fjarri, að hæstiréttur hafi kveðið upp ótvíræðan dóm um það, hvernig með eigi að fara í öllum þeim mörgu tilvikum, þar sem um blandaðan atvinnurekstur er að ræða, þannig að verði fallizt á það sjónarmið, að það eigi að fella þessa gr. úr l., hlýtur að sjálfsögðu mikil óvissa að verða áfram ríkjandi.

Hv. 1. minni hl. n. hefur reynt að fara hér bil beggja, reynt að gera þessi ákvæði skýr, en taka þó tillit til sjónarmiða þeirra manna, sem segja, að það hafi í rauninni verið sanngjarn og eðlilegur úrskurður sem hæstiréttur kvað upp. Ég mundi fyrir mitt leyti telja þetta viðhorf hv. 1. minni hl. n. rétt og skynsamlegt, því að vitanlega er það grundvallaratriði, hvað sem menn segja um dóma, að reyna að ganga þannig frá málum, að það verði ótvírætt fyrir þá, sem framkvæma eiga l., hvernig þeir eigi að framkvæma þau. Og ég held því, að það séu eðlileg viðbrögð frá Alþ. og í rauninni Alþingis skylda, þegar svona atriði rísa, að það verði reynt að gera það sem ótvíræðast. Hitt er þó auðvitað annað mál, að það er í mörgum greinum svo, að það er erfitt og raunar lítt gerlegt að sjá fyrir öll hugsanleg tilvik, er geta valdið ágreiningi og vafaatriðum, þannig að það er vafalaust rétt, sem hv. 4. þm. Reykn. sagði, að það getur áfram risið ýmiss konar ágreiningur, þó að þessi lagagr. yrði samþ. eins og hv. f. minni hl. leggur til, að hún verði samþ. Engu að síður tel ég nú, að það væri til bóta, að það verði gert og það væri rétt að gera það,úr því að menn telja þó, að það sé í meginefnum veruleg lagfæring eftir sjónarmiðum þeirra, sem telja, að greinin, eins og hún er orðuð í frv., hafi verið óheppileg.

Varðandi það svo, hvort menn telja æskilegt að veita sveitarfélögum aðstöðu til þess að innheimta sín gjöld með þessum eða öðrum hætti eða veita aðhald í sambandi við innheimtu, er það auðvitað rétt, að sjónarmið gjaldandans er alltaf slíkt, að það sé ekki líklegt til vinsælda að stuðla að fastari tökum í þessum efnum. En fram hjá hinu verður auðvitað aldrei komizt, að sveitarfélögin verða að standa undir þeim skuldbindingum, sem löggjafinn ætlar þeim að inna af höndum og sem hlutverk þeirra segir til um, þannig að þetta fé verða þau að fá með einhverjum hætti. Við getum haft mismunandi skoðanir um það, hvort það eigi að nást með þessum eða öðrum hætti, en féð verður að fást; í fyrsta lagi að leggjast á borgarana og í öðru lagi verður að gera ráðstafanir til þess að hægt sé að innheimta það. Fram hjá þessu komumst við held ég ekki með nokkru móti.

Ég skal ekki, herra forseti, eyða fleiri orðum, svo að ekki þurfi að lengja þessar umr., en ég vildi aðeins að lokum víkja að því, sem hv. 4. þm. Norðurl. e. sagði hér áðan, að ríkisstj. hefði ár eftir ár lofað staðgreiðslukerfi skatta. Ég leyfi mér að andmæla mjög þessari fullyrðingu. Það er að vísu svo, að fyrir nokkrum árum síðan mun þáv. fjmrh., sem tók þetta mál upp, hafa talið líklegt, að það væri hægt að innleiða staðgreiðslukerfi skatta jafnvel um næst síðustu áramót, ef mönnum sýndist að það væri rétt að gera það. Það mál var þá algerlega ókannað og alveg óvíst, hvort mönnum að athuguðu máli þætti rétt að innleiða staðgreiðslukerfi skatta. Síðan hefur verið að þessum málum unnið með þeim hætti, að það hefur verið aflað mjög ítarlegra upplýsinga um staðgreiðslukerfið, og jafnframt skoðaðar íslenzkar aðstæður og hvað gera þyrfti til breytinga á íslenzkum skattalögum til að innleiða slíkt kerfi. Og þessar athuganir leiddu það ótvírætt í ljós, að hér væri um miklu flóknari vandamál að ræða en svo, að það væri hægt í fyrsta lagi að lögfesta það, eins og gert hafði verið ráð fyrir á þeim tíma, og í annan stað, að líklegt væri, að menn gætu myndað sér ákveðna skoðun um það, hvort yfirleitt ætti að lögfesta það eða ekki, miðað við okkar aðstæður. Síðan hefur áfram verið unnið að málinu á þeim grundvelli, eftir að allar þessar upplýsingar og skýrslugerðir höfðu verið teknar saman, að kosin var sérstök n. af Alþ. til þess að vinna að málinu, og sú n. hefur nú málið til meðferðar, þannig að ég sé ekki betur en það hafi verið að því unnið með öllum eðlilegum hraða og ég held,að allir þeir, sem um málið hafa fjallað og hafa kynnt sér það hér á Alþ., hafi gert sér grein fyrir því, að þetta mál er miklu umfangsmeira heldur en menn héldu í byrjun og miklu fleiri vafaatriði í því en svo, að það sé hægt að gera sér grein fyrir þeim með skjótum hætti. Enda hefur reynslan orðið þannig í öðrum löndum, þar sem þetta hefur verið innleitt, að það hefur tekið mjög mörg ár frá því að byrjað var að undirbúa málið og þangað til kerfið var lögfest og enn þá liggur í rauninni ekkert fyrir um það hér frá hinu háa Alþ., hvort menn eru afdráttarlaust inni á því, að það skuli innleiða þetta kerfi. Það var að vísu tekin jákvæð afstaða til þess, þegar ákveðið var að skipa þn. eða mþn., en að öðru leyti hygg ég ekki, að þm. hafi bundið sig með það, þegar niðurstöður þeirrar n. liggja fyrir, hvort þeir að athuguðu máli telja rétt að gera það eða ekki. Þetta tel ég aðeins rétt að komi fram í sambandi við þessi ummæli hv. þm.