11.03.1968
Efri deild: 68. fundur, 88. löggjafarþing.
Sjá dálk 1167 í B-deild Alþingistíðinda. (997)

82. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Frsm. 2. minni hl. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Ég skal ekki tefja tímann lengi, en hv. 3. landsk. þm. benti á það út frá brtt. minni við 34. gr. l., að það væri afar hætt við því, að mörg sveitarfélög mundu fljótlega komast upp í þá útsvarsupphæð, að þau þyrftu á aukatillagi að halda, og hvaðan ættu þá peningarnir að koma, ef jöfnunarsjóður mundi ekki hafa fjármagn til að greiða það, sem þau þyrftu þá á að halda. En ég vil minna á það og lýsa því sem minni skoðun, að það er mikið vafamál, hvort öll borgar-, bæjar- og sveitarfélög landsins eiga að fá jafnt úr jöfnunarsjóði á sína íbúa. Ég held, að það sé eitthvað nálægt því þúsund krónur, sem hvert sveitarfélag fær út á hvern íbúa, sem það hefur, þannig að um helmingur af þeim tekjum, sem jöfnunarsjóður fær, fer í Reykjavík og nánasta nágrenni. Og við vitum það ákaflega vel öll, að Reykjavík hefur algera sérstöðu til tekjuöflunar, og það má segja, að hver einasti þegn í þjóðfélaginu borgi Reykjavíkurborg skatt í gegnum þá aðstöðu, sem Reykjavíkurborg hefur, þar sem svo til allur innflutningur til landsins á sér stað til höfuðborgarinnar og allar stærstu stofnanir landsins, allt ríkisbáknið, tryggingarstofnun o. fl. er staðsett í höfuðborginni og landsmenn allir borga kostnað við allt þetta, auk þess sem mörg fyrirtæki eru hér staðsett, sem allir borga sinn hlut í. Mér hefur því alltaf fundizt það nokkur spurning, hvort borg, sem hefur þessa aðstöðu að ná inn tekjum frá öllum landsmönnum, ætti að fá jafnmikið tillag frá jöfnunarsjóði sveitarfélaga, og ég held, að það væri hægt að gæta meira réttlætis í gegnum jöfnunarsjóð sveitarfélaga, án þess að til komi meira fjármagn, með því að gæta betur en nú er réttlætis landsbyggðarinnar.