22.04.1969
Efri deild: 77. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 936 í B-deild Alþingistíðinda. (1007)

160. mál, umboðsþóknun og gengismunur gjaldeyrisbankanna

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta er mjög einfalt í sniðum, og er hv. þm. kunnugt frá umr. um fjárl. En efni málsins er í stuttu máli það, að gert er ráð fyrir að hækka hlutdeild ríkissjóðs í tekjum af umboðsþóknun og gengismun gjaldeyrisbankanna, þannig að hlutur bankanna vaxi ekki að neinu ráði frá því, sem var krónulega séð fyrir gengisbreytinguna. Mér er vel kunnugt um það, að bankakerfið er ekki hrifið af þessu og hefur aldrei verið hrifið af því, að ríkissjóður taki nokkurn hluta af þessu til sinna þarfa. Út í það mál skal ég ekki fara. Þetta er búið að vera í lögum um alllangt skeið, en það þótti eðlilegt með hliðsjón af því, að almennt var út frá því gengið, að enginn tæki til sín hærri fjárhæð, sem beinlínis stafaði af gengisbreytingunni sjálfri og hækkun yfirfærsluupphæða, hér í þessu tilfelli að krónutölu. Það væri ekki eðlilegt, að til bankanna féllu auknar tekjur af þeim ástæðum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja frekar um málið, en tek aðeins fram, að eins og hv. þdm. er kunnugt, þá er gert ráð fyrir þessum tekjustofni í fjárl., þannig að Alþ. tók í rauninni þá ákvörðun um málið, en þessa lagabreytingu þarf að gera, til þess að hægt sé að framkvæma þetta með formlegum hætti gagnvart bankakerfinu.

Ég vil leyfa mér að leggja til, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.