29.04.1969
Efri deild: 80. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (1010)

160. mál, umboðsþóknun og gengismunur gjaldeyrisbankanna

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Það er aðalefni þess frv., sem hér liggur fyrir til umr., að ákveðið verði framvegis, að þeir bankar, sem verzli með erlendan gjaldeyri, skuli frá síðustu áramótum greiða ríkissjóði 60% af heildartekjum sínum vegna mismunar sölugengis og kaupgengis gjaldeyris svo og 60% af þeirri þóknun, sem þeir taka af viðskiptamönnum sínum fyrir þjónustu við yfirfærslu fjár til útlanda eða aðrar greiðslur erlendis. Er þetta hlutfall hækkað með frv., ef samþ. verður, úr 50% í 60%. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 570, eru einstakir nm. að vísu ekki alls kostar hrifnir af þeirri auknu skattlagningu bankanna, sem hér er um að ræða, og má vera, að grunur kunni að vakna hjá hv. dm. um það, að nokkur sérhyggjusjónarmið séu þar að verki með tilliti til þess, að meiri hl. n., eða fjórir af sjö nm., eru bankastjórnarmenn, 3 bankastjórar og 1 bankaráðsformaður. Hvað sem því líður — og það er e.t.v. skiljanlegt, að sá grunur vakni — þá er okkur þó a.m.k. kunnugra um það en mörgum öðrum, að það er ekki sá ofsagróði í rekstri bankanna, sem margir hyggja, þannig að því eru að okkar áliti takmörk sett, hvað mikið bankarnir geta þannig mjólkað ríkissjóði og öðrum opinberum aðilum. En hvað sem þessu öllu líður þá er það staðreynd, að Alþ. er í rauninni þegar búið að taka afstöðu til þess máls, sem hér liggur fyrir, með afgreiðslu fjárl. fyrir s.l. áramót, en við þá afgreiðslu var gert ráð fyrir þeim tekjuauka ríkissjóði til handa, sem lögfestur mundi vera með þessu frv. M.a. með tilliti til þessa hefur n., þrátt fyrir það, sem nú hefur verið nefnt um skoðanir einstakra nm. í þessu efni, lagt til, að frv. verði samþ. óbreytt.