29.04.1969
Efri deild: 80. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (1011)

160. mál, umboðsþóknun og gengismunur gjaldeyrisbankanna

Pétur Benediktsson:

Herra forseti. Þótt ég sé samþykkur því, að d. sé nauðugur einn kostur að samþ. þetta frv. nú að þessu sinni, þá vil ég ekki, að málið fari í gegnum d., án þess að einhver bendi á, að það er svona heldur frumstæð fjáröflun, þegar ríkissjóður er að skattleggja sjálfan sig, með því að taka þarna gjald af tveimur ríkisbönkum. Með því skapast ekkert nýtt opinbert fé. Eitt af því, sem okkar þjóðfélagi í dag er mjög fundið til foráttu, er lánsfjárskorturinn, og það er verið að skattleggja hina og þessa aðila til að auka lánsfé, svo að þarna er hálfgerður Hrunadans á ferðinni. Jafnframt því, að ég mun greiða þessu frv. atkv. að sinni, vil ég leyfa mér að skora á hæstv. ríkisstjórn að sjá að sér og reyna að finna einhverja skynsamlegri tekjuliði heldur en þennan, þegar á næstu fjárlögum.