29.10.1968
Neðri deild: 7. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í B-deild Alþingistíðinda. (1017)

21. mál, fjallskil o.fl.

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Aðdragandi þessa frv. er orðinn langur. Í desembermánuði 1958 skipaði þáv. landbrh. nefnd þriggja manna til að endurskoða ákvæði laga um notkun afrétta, upprekstrarrétt, fjallskil, ágang búfjár o.fl. Var n. þessi skipuð samkv. tilmælum Búnaðarþings 1957. Í n. voru skipaðir Ólafur Jóhannesson prófessor, er var formaður hennar, Jón Gauti Pétursson oddviti, Gautlöndum, og Sveinbjörn Jónsson hrl. Samdi sú n. ítarlegt frv., sem síðar var sent Búnaðarþingi til athugunar. Að frumkvæði þess Búnaðarþings, er fékk málið til athugunar, var frv. síðan sent sýslunefndum og bæjarstjórnum til athugunar. Á Búnaðarþingi árið 1966 var málið tekið fyrir aftur, og gerði þá Búnaðarþing ályktun um að fela stjórn Búnaðarfélags Íslands að skipa þrjá menn í n. til þess að endurskoða frv. og sérstaklega með tilliti til þeirra umsagna og aths., er borizt höfðu heiman úr héruðum. Skyldi n. hafa lokið störfum það snemma, að leggja mætti frv. fyrir næsta Búnaðarþing. Samkv. þessari ályktun skipaði stjórn Búnaðarfélags Íslands þrjá menn í n. til þess að endurskoða frv., þá Árna G. Pétursson sauðfjárræktarráðunaut, Reykjavík, Jón Egilsson, bónda á Selalæk, og Gísla Magnússon, bónda í Eyhildarholti, sem var formaður n. N. lauk störfum á tilsettum tíma, og er þetta frv. efnislega eins og síðari n. gekk frá því, en felldar eru inn í það brtt., sem samþykktar voru á Búnaðarþingi 1967 og prentaðar eru aftan við frv. sem fskj. I.

Ef frv. þetta verður að lögum, er það fyrsta heildarlöggjöf, sem sett yrði um þessi málefni á síðari tímum, en allt frá fornu fari hefur stjórn afréttarmálefna og fjallskila að langmestu leyti verið í höndum héraðsstjórna, sem oftast hafa gert um þessi mál sérstakar samþykktir, og helzt sú skipan samkv. frv. Til nýmæla í þessu frv. má telja, að sett eru skýr ákvæði um prentun og útkomu markabóka, og samkv. 67. gr. skulu þær prentaðar samtímis um allt land, en áður hefur engin föst regla gilt um útkomu þeirra, en hver sýsla fyrir sig séð um útkomu og prentun án þess að samræma það útkomu markaskráa í nágrannasýslum, og mjög hefur verið á reiki, hversu oft skrárnar hafa verið prentaðar, en samkv. frv. skulu þær prentaðar eigi sjaldnar en 8. hvert ár.

Þá eru lög um ítölu nr. 39 1959 tekin upp í þetta frv., en allmargar breytingar hefur n. gert á þeim og allar þær, sem máli skipta, í samráði við fulltrúa landgræðslustjóra og sérfræðing Rannsóknastofnunar landbúnaðarins í beitarrannsókn. Í fjallskilareglugerðum hafa ætíð verið skýr ákvæði um göngur og fjallskil að haustinu, en meir hefur verið á reiki um smölun til rúnings á vorin. Í þessu frv. er lögð áherzla á, að fjallskilasamþykktir setji ákveðin fyrirmæli um vorsmalanir. Þá má nefna, að í þessu frv., 40. gr., er ákvæði um, hvernig fara skuli, ef sveitarfélag eða verulegur hluti þess fellur úr byggð. Skal þá viðkomandi sýslunefnd sjá um, að fjallskil séu framkvæmd á eyðilöndum. Kostnaður við þau skiptist þannig, að eigendur bera helming, hreppar þeir, sem fjárvon eiga í löndunum, 1/4, og ríkissjóður 1/4. Búnaðarfélag Íslands skal úrskurða kostnaðarreikninga.

Til viðbótar því, sem nú hefur verið sagt um þetta frv., skal það fram tekið, að það er í 10 köflum, í fyrsta lagi um stjórn fjallskilamála, um afrétti og notkun þeirra, um ítölu, um ágang afréttarpenings o.fl., um göngur og réttir, um hreinsun heimalands eftir réttir, um meðferð ómerkinga og óskilafjár, um mörk og markaskrár, og ýmis ákvæði, m.a. um sektir vegna brota á l. þessum, og upptalning á því, hvaða lagaákvæði falla úr gildi við gildistöku frv.

Frv. er allítarlegt, eins og hv. alþm. hafa sennilega kynnt sér. Grg. er prentuð með frv. ásamt brtt. Búnaðarþings, sem teknar voru inn í frv. Enn fremur er prentuð með frv. ítarleg grg. frá stjórnskipuðu n., sem samdi frv. upphaflega. Í grg. þessum ásamt skýringum, sem frv. fylgja, má glöggt sjá, hvað í frv. felst. Athyglisvert er, að heildarlöggjöf um afréttarmál er ekki fyrir hendi og að ýmis ákvæði Jónsbókar og réttarbót Eiríks konungs frá 1294 eru einu lagaákvæðin, sem stuðzt hefur verið við í meðferð afréttarmála. Sýslu- og héraðssamþykktir hafa verið gerðar til þess að fylgja fram framkvæmd um afréttarmál. Þótt svo hafi verið um aldaraðir og á ýmsan hátt gefizt vel, þykir nauðsynlegt að gera heildarlöggjöf um þessi mál til þess að auðvelda og kveða skýrt á um smölun og notkun afrétta. Eins og áður hefur verið að vikið, hefur frv. verið alllengi í smíðum. Upphaflega var það samið af stjórnskipaðri nefnd og sent Búnaðarþingi til umsagnar. Búnaðarþing skipaði sérstaka nefnd til þess að endurskoða frv., og gerði sú nefnd margar brtt. við það, sem felldar voru inn í frv. Það verður því að álíta, að flest hafi verið tekið til greina, sem eðlilegt er að hafa í lögum um afréttarmál.

Það er von mín, að frv. verði að lögum á þessu þingi. Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til að fjölyrða meira um málið að svo stöddu, en legg til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.