25.03.1969
Efri deild: 63. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 948 í B-deild Alþingistíðinda. (1038)

195. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Aðalefni og meginnýmæli þessa frv. er það, að stúdentum eru veitt stóraukin áhrif á stjórn Háskólans, bæði háskólaráðs og deilda, og auk þess núna í fyrsta skipti veitt aðild að rektorskjöri Háskólans. Íslendingar urðu meðal fyrstu þjóða í Evrópu a.m.k., sem veittu stúdentum beina aðild að stjórn ríkisháskóla. Í l. frá 1957 voru sett þau ákvæði, að stúdentar skyldu eiga einn fulltrúa í háskólaráði og einn fulltrúa í hverri af deildum Háskólans. Það mun sannmæli allra, sem til þekkja, að þessi ráðstöfun hafi gefizt sérstaklega vel. Áhrif stúdentanna bæði í háskólaráði og deildum hafa verið til góðs fyrir Háskólann og stúdentum sjálfum tvímælalaust til aukins þroska. Þessi skipan hefur bætt andrúmsloft innan Háskólans og aukið samstarf milli stúdenta og kennara annars vegar og stjórnvalda hins vegar. Á undanförnum árum hafa verið uppi raddir um það að auka þessa hlutdeild hér á landi. Þar sem um slíka hlutdeild er að ræða, svo sem t.d. í Noregi, en Norðmenn urðu litlu á undan Íslendingum til að veita stúdentum hlutdeild í stjórn háskóla hjá sér, hafa verið uppi raddir um að auka hana, og þar sem um enga hlutdeild stúdenta er að ræða í stjórn háskóla, hafa verið uppi mjög háværar raddir um það að taka slíka hlutdeild upp, og hefur í raun og veru verið hér um að ræða einn þátt, mikilvægan þátt, þess óróa stúdenta, sem gætt hefur í borgum Evrópu og Ameríku á undanförnum árum. En af hálfu háskóla og yfirvalda hefur í fjölmörgum löndum verið mikil tregða til þess að viðurkenna rétt stúdenta til þess að fá aukin áhrif á stjórn þeirra háskóla, sem þeir stunda nám við.

Á s.l. hausti sendi stúdentaráð menntmrn. ákveðnar tillögur um aukin áhrif stúdenta á stjórn Háskólans, og átti stúdentaráð viðræður við mig um það mál. Ég lýsti þeirri persónulegu skoðun minni, sem ég taldi einnig, að mundi reynast skoðun ríkisstj. og ég vona einnig skoðun hins háa Alþ., að svo góð reynsla hefði fengizt af þátttöku stúdenta í stjórn Háskólans, að búast mætti við því, að hugmyndum um aukin áhrif yrði vel tekið af löggjafa og ríkisvaldi. En skömmu síðar tilkynnti stjórn stúdentaráðs mér, að hún óskaði ekki eftir því, að ríkisstj. tæki afstöðu til þessara tillagna stúdentaráðs fyrr en háskólaráð hefði um till. fjallað. Ég lýsti strax þeirri skoðun minni við stúdentana og hef raunar látið þá skoðun oft í ljós opinberlega á undanförnum mánuðum, að ég teldi að sjálfsögðu langæskilegast, að um sameiginlega afstöðu háskólaráðs og háskólakennara annars vegar og stúdenta hins vegar yrði að ræða, og lét í ljós þá skoðun, að ég teldi engan vafa á því, að ríkisstj. mundi fús til þess að flytja sameiginlegar till. háskólaráðs og stúdentaráðs um mál eins og þetta, og þættist þess nokkurn veginn viss, að slíkar till. mundu fá hljómgrunn á hinu háa Alþ. Hins vegar tók það háskólaráð talsverðan tíma að taka afstöðu til málsins, og það var ekki fyrr en nú fyrir tiltölulega fáum dögum, að háskólaráð tók endanlega afstöðu til þessa máls. Var hún ekki að öllu leyti í samræmi við óskir stúdentanna. Stúdentaráð hafði gert það að till. sinni, að stúdentar fengju 2 fulltrúa með fullum rétti á deildarfundum og 2 fulltrúa með fullum rétti í háskólaráði, og enn fremur gerði stúdentaráð það að till. sinni, að stúdentar fengju að ráða 25% atkvæða við rektorskjör.

Till. háskólaráðs voru þær, að það féllst á till. stúdentanna um 2 fulltrúa með fullum réttindum á deildarfundum og 2 fulltrúa með fullum réttindum í háskólaráði. Hins vegar féllst háskólaráð ekki á, að stúdentar fengju 25% atkvæða við rektorskjör, en leggur hins vegar til, og á því er þetta frv. byggt, að 10 kjörmenn stúdenta skuli taka þátt í rektorskjöri, 1 fulltrúi stúdenta frá hverri háskóladeild, 2 fulltrúar stúdenta í háskólaráði og auk þess formaður stúdentaráðs, samtals 10. Þegar í ljós kom, að háskólaráð var ekki reiðubúið til þess að gera till. stúdenta að fullu að sínum till. til menntmrn., þá hélt stjórn stúdentaráðs fund um málið og gerði ályktun þess efnis, að þótt stjórn stúdentaráðs væri ekki ánægð með þessa niðurstöðu háskólaráðs, þar sem þeir hefðu óskað meiri íhlutunar en háskólaráð hefði fallizt á fyrir sitt leyti, þá geri stúdentaráð samt ekki þá till. til ráðh. eða Alþ.,till. háskólaráðs verði breytt. Það beri ekki að líta á þær till., sem þetta frv. felur í sér varðandi áhrif stúdenta á stjórn Háskólans, sem sameiginlegar till. háskólaráðs og stúdentaráðs, en hins vegar vilji stúdentar una þessari niðurstöðu háskólaráðs og stjórn stúdentaráðs segir í grg., sem prentuð er sem fylgiskjal með frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Til grundvallar þeirri afstöðu liggur sú skoðun stúdentaráðsmanna, að Háskólinn eigi að vera sem sjálfstæðastur og því beri ríkisvaldinu og Alþ. jafnan að skipa málum Háskólans á þann hátt, sem stjórnendur hans telja réttast á hverjum tíma. Stjórn stúdentaráðs telur því ekki ábyrga stefnu að reyna að hafa áhrif á málefni Háskólans með því að beita fyrir sig valdboði að ofan, heldur vill hún stuðla að því, að stúdentar hafi góð áhrif á stefnu og starf Háskólans með því að taka ábyrgan þátt í stjórn hans innan frá. Markmið tillagna stúdentaráðs um aukna þátttöku stúdenta í stjórn Háskólans er samvinna en ekki sundrung.“

Með sérstakri hliðsjón af þessum niðurlagsorðum grg. stúdentaráðs um þetta vandasama og mikilvæga mál þótti ríkisstj. það ekkert áhorfsmál að gera till. háskólaráðs til menntmrn.till. sínum til hins háa Alþ., og eru því ákvæði þessa lagafrv. um þetta efni að öllu leyti byggð á till. eða ályktun háskólaráðs um þetta. Varðandi þá ályktun, sem stjórn stúdentaráðs hefur látið í ljós um þessa skoðun vil ég ekki láta hjá líða að vekja sérstaka athygli á því, að hér er um að ræða mjög ánægjulega afstöðu af hálfu stjórnar stúdentaráðs, afstöðu, sem ég tel stjórn stúdentaráðsins og stúdentum við Háskóla Íslands til sérstaks sóma. Ég tel ekki of djúpt í ár tekið, þegar ég segi, að hér sé um mjög mikilvægan atburð að ræða, í raun og veru fréttir, sem ættu erindi langt út fyrir íslenzka landsteina, þegar það gerist, að lagt er frv. um aukin áhrif stúdenta á stjórn háskóla fyrir löggjafarstofnun, að það skuli gerast með þeim hætti, að unnt sé að segja, að um það sé í reynd samstaða milli háskólakennara annars vegar og háskólastúdenta hins vegar. Um þessi mál eru alls staðar miklar deilur, mikil fundarhöld, miklar kröfugöngur, mikill spjaldburður, en hér á Íslandi getur það sem betur fer gerzt, að löggjafarsamkoman fái till., sem fjalla um jafn viðkvæm mál og þetta, þannig að um það sé ekki aðeins enginn órói af hálfu nokkurs aðila, heldur málatilbúnaður þannig, að ég vona fastlega, að sú verði niðurstaðan, að þessi ákvæði hljóti einróma samþykki hins háa Alþ. Ég held, að slíkt hafi ekki annars staðar gerzt. Það var að vísu samstaða hér á Alþ. um hlutdeild stúd. og öll þessi mál orðið mjög á dagskrá víða annars staðar og alls staðar verið í hæsta máta umdeild, og mönnum sýnist mjög sitt hvað. Þess vegna er það ánægjulegt, ef hér tekst að ráða jafn viðkvæmu máli til lykta með fullkomlega friðsamlegum hætti og þannig, að allir megi vel við una og telji þær breytingar, sem gerðar eru, til bóta. Í þessu sambandi er rétt að vekja sérstaka athygli á því, og hefði það kannske getað orðið sérstakt deiluefni, að mér er ekki kunnugt um nokkurn háskóla í víðri veröld, þar sem áhrif stúdenta á stjórn háskólans séu jafnmikil og þau verða, ef þetta lagafrv. nær fram að ganga, og það tel ég vera Íslendingum, þeim aðilum, sem að málinu hafa unnið í Háskólanum, til mikils sóma. Og þá vildi ég sérstaklega tilnefna háskólarektor, Ármann Snævarr, sem lagt hefur sig mjög fram um að fá þá niðurstöðu, sem nú hefur fengizt, og svo núverandi stjórn stúdentaráðs. Þá er gert ráð fyrir því í þessu frv. eins og ég gat um áðan, að stúdentar fái aðild að rektorskjöri, en mér er ekki kunnugt um aðild stúdenta að rektorskjöri við aðra háskóla en norsku háskólana 2, en þar er þessi þátttaka þó frekar táknræn en að líklegt sé, að hún skipti máli við úrslit kosninganna. Atkvæðamagn stúdentanna við þessa tvo norsku háskóla er langt innan við 10% á báðum stöðum. Hér munu milli 50–60 kennarar framvegis geta fengið atkvæðisrétt við rektorskjör, og eru því hin 10 atkvæði stúdentanna milli 15–20% af atkvæðum við rektorskjör.

Sú önnur breyting er gerð á gildandi reglum um rektorskjör, að nú kjósa einungis prófessorar rektor, en í þessu frv. er gert ráð fyrir, að auk hinna 10 stúdentafulltrúa skuli aðrir fastir kennarar, þeir kennarar, sem gegna háskólakennslu að aðalstarfi, einnig geta kosið rektor, og sú breyting er gerð á skipan háskólaráðs, auk þess sem fulltrúum stúdenta er fjölgað úr einum í tvo, að þar tekur einnig sæti fulltrúi frá föstum starfsmönnum Háskólans öðrum en prófessorum, og á hann að vera tilnefndur af Félagi háskólakennara. Auk þessara aðalatriða frv., sem fjalla um aukin áhrif stúdenta á stjórn Háskólans eru gerðar á gildandi háskólalögum ýmsar aðrar breytingar, enda eru lögin, sem nú gilda um Háskólann, þegar orðin tæplega 12 ára gömul. Aðalbreytingin, sem gerð er að öðru leyti á háskólal., er sú, að settar eru nánari og betri reglur um stjórnun Háskólans. Er þessi breyting fyrst og fremst fólgin í því, að framvegis er gert ráð fyrir því, að heimilað verði að leysa rektor algjörlega undan kennsluskyldu, þannig að hann geti helgað sig stefnumótun Háskólans, þ.e. áætlunargerð og stefnuna varðandi kennslu og rannsóknarstörf Háskólans, en jafnframt er staða og starf háskólaritara styrkt mjög, þannig að háskólaritari verður í reynd, ef þetta frv. nær fram að ganga, raunverulegur framkvæmdastjóri Háskólans, og er þetta tvímælalaust til bóta, þar sem stjórnun Háskólans verður að teljast hafa verið of veik á undanförum áratugum.

Þá eru gerðar tvær breytingar varðandi háskóladeildir. Í fyrsta lagi er lagt til samkvæmt ósk verkfræðideildar, að heiti hennar sé breytt í verkfræði- og raunvísindadeild, sem er í fullu samræmi við rýmkað starfssvið deildarinnar, því nú fer fram í verkfræðideild kennsla til B.A. prófa í raungreinum, þ.e. eðlisfræði, efnafræði, stærðfræði og náttúrufræði. Hin önnur breyting varðandi deildir er sú, að lagt er til, að stofnuð sé sérstök tannlæknadeild, þegar 3 prófessorar hafa verið skipaðir í tannlækningum. En 3 embætti eru nú við deildina, 3 prófessorsembætti, þó að ekki hafi af sérstökum ástæðum verið skipað nema í eitt þeirra. Þegar í öll hefur verið skipað, verður tannlæknadeildin sjálfkrafa sérstök háskóladeild eins og viðskiptadeildin varð með sama hætti á sínum tíma.

Þá er gerð breyting á starfsheitum háskólakennara, og er nú lagt til, að þeir, sem sinni háskólakennslu sem aðalstarfi, heiti framvegis prófessorar, dósentar og lektorar, en orðin dósent og lektor hafa síðan 1957 verið notuð um háskólakennara, sem ráðnir eru til óákveðins tíma, en hafa annað aðalstarf. Fyrir nokkrum árum var þó tekið upp að skipa lektora, sem gegna fullri kennsluskyldu við Háskólann, og taka þá inn samkvæmt tilteknum launaflokki, og hefur verið talið rétt að halda lektorsheitinu fyrir fasta háskólakennara og taka dósentsheitið upp að nýju fyrir menn, sem hafa háskólakennslu að aðalstarfi, en þannig var dósentsheitið notað fram til ársins 1957. Lausráðnir kennarar eiga eftirleiðis að heita aðjúnktar og stundakennarar. Aðjúnktar verða þeir menn kallaðir, og er það nýtt heiti, sem ráðnir eru til tveggja ára skemmst, og fyrirmyndin sótt til Danmerkur, en starfsheitið stundakennarar verður framvegis notað í sömu merkingu og fram að þessu, og sama gildir um erlenda sendikennara.

Þetta eru meginbreytingarnar, sem frv. gerir ráð fyrir. Ég hirði ekki að rekja ýmsar orðalagsbreytingar og minni háttar breytingar, sem frv. fjallar um og ég hygg að segja megi, að allar horfi til góðs og bóta.

Það er eðlilegt, að menn þurfi að endurskoða gildandi háskólalög, sem ég sagði áðan, að væru orðin 12 ára gömul. Stórkostlegar breytingar hafa orðið á Háskóla Íslands á þessu 12 ára skeiði, nemendatal hefur um það bil tvöfaldazt, fjöldi prófessora hefur nálega tvöfaldazt og tala annarra kennara hefur meira en tvöfaldazt á þessum rúma áratug. Námstilhögun í öllum deildum hefur verið endurskoðuð, og í flestum tilvikum er þegar orðið um algera nýskipun að ræða. Það er sérstök ástæða til að minna á gagngera endurskoðun á kennslu til B.A.-prófa. Nýlega er hafin kennsla í náttúrufræði, og till. hafa verið settar fram um kennslu í félagsfræði, félagssýslu og félagsráðgjöf, og ýmsar fleiri nýjungar um menntunarleiðir við Háskólann eru nú í athugun. Eitt hið merkasta, sem gerzt hefur á undanförnum áratugum í málefnum Háskólans, er tvímælalaust tilkoma tveggja stórra og merkilegra rannsóknastofnana, þ.e.a.s. Handritastofnunar Íslands og Raunvísindastofnunar Háskólans sem og þeirrar áætlunargerðar, sem hófst með kennaraáætluninni frá 1964 og ríkisstj. samþykkti á sínum tíma og hefur gert árlega till. til Alþ. í samræmi við á undanförnum árum, nema hvað embættum var frestað einu sinni í sambandi við sparnaðarfyrirætlanir, sem hv. alþm. rekur án efa minni til.

Loks vil ég nefna skipun háskólanefndar, sem starfað hefur nú í 2 ár og á að ljúka störfum á þessu ári. Þessi n. hefur það verkefni að semja áætlanir um eflingu Háskólans næstu 2 áratugina á sviði kennslu og rannsókna og setja fram sjónarmið um mörkun stefnu varðandi starfssvið Háskólans, enn fremur á n. að huga að nauðsynlegri húsnæðisþörf Háskólans á næstu áratugum, en á því er ekki nokkur vafi, að til þess að unnt sé að veita fullnægjandi menntun hinum stóraukna fjölda, stúdenta, sem vitað er á næstu áratugum að sæki í Háskólann, þá er nauðsyn mikilla byggingarframkvæmda í þágu hans. Tilkoma Árnagarðs næsta haust bætir að vísu úr bráðri þörf á vissum sviðum. Það mun ekki láta fjarri, að kennslurými Háskólans muni tvöfaldast við tilkomu Árnagarðs, en á öðrum sviðum leysir Árnagarður ekki úr þeirri þörf, sem um er að ræða, og á það sérstaklega við um byggingar í þágu læknadeildar og alveg sérstaklega um byggingar í þágu tannlæknakennslu, en vænta má, að háskólanefnd geri till. um þetta efni allt saman, sem þá verða kynntar hinu háa Alþ. næsta haust.

Herra forseti. Ég vil svo ljúka máli mínu með því að endurtaka og undirstrika það, sem ég sagði í upphafi, að ég tel hér vera um merkilegt frv. að ræða, sem að ýmsu leyti hefur fengið alveg óvenjulegan en mjög ánægjulegan undirbúning og mun skipa Íslandi í fremstu röð þjóða, að því er snertir áhrif stúdenta á stjórn háskóla og samvinnu stúdenta, kennara og yfirvalda. Þess vegna vildi ég mega vænta þess og vil leggja á það sérstaka áherzlu, að frv. hljóti afgreiðslu nú á þessu þingi. Ég vona það einarðlega, að hv. alþm. geti sameinazt um afgreiðslu þess, þannig að það verði samþ. með sem mest samhljóða afstöðu og atkv. alþm. Að svo mæltu leyfi ég mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.