25.04.1969
Efri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í B-deild Alþingistíðinda. (1040)

195. mál, Háskóli Íslands

Frsm. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Í því frv., sem hér er til umr., felast allmiklar breytingar á núgildandi lögum um Háskóla Íslands. Frv. er samið á vegum Háskólans og hefur verið lagt hér fyrir Alþ. með nokkrum breytingum, sem á því voru gerðar í menntmrn. í samráði við háskólarektor og háskólaritara, eins og segir í athugasemdum. Með frv. er m.a. lagt til, að ýmsar breytingar verði gerðar á stjórnun Háskólans og að aukin verði íhlutun stúdenta um málefni Háskólans, bæði á fundum háskólaráðs og háskóladeilda, og þeim veitt aðild að rektorskjöri, sem óvíða tíðkast. Einnig hefur sú breyting verið gerð varðandi rektorskjör, að kennurum, sem gegna fullu kennslustarfi við Háskólann, skuli veitt þar aðild, en það gildir nú aðeins um prófessora Háskólans. Þá má óhætt segja, að þau tvö atriði, sem ég hef áður nefnt, breytingar á stjórnun Háskólans og aukin íhlutun stúdenta, séu veigamestu atriði frv. og þau, sem e.t.v. útífrá vekja hvað mesta athygli.

Auk þeirra tveggja atriða, sem ég áður nefndi, þá er það nýmæli, að úr hópi kennara og starfsmanna rannsóknastofnana, sem ekki eru kjörgengir til starfa deildarforseta, skuli vera tilnefndur einn maður í háskólaráð af félagi háskólakennara. Þá er ákvæði í frv. um stofnun nýrrar deildar, tannlæknadeildar. Enn fremur eru þar ákvæði um rannsóknastofnanir, sem að jafnaði skuli heyra undir deildir, og með því áréttað það, að saman skuli fara, eftir því sem hægt er, kennsla og rannsóknir.

Þá hafa verið endurskoðuð starfsheiti kennara og svigrúm veitt til að ákveða starfsmönnum rannsóknarstofnana og annarra háskólastofnana sérstök starfsheiti. Varðandi kennaralið er lagt til, að dósentar og lektorar verði framvegis þeir einir, sem hafa kennslu og rannsóknir að aðalstarfi, þ.e. eru ráðnir til fulls kennslustarfs, en svo er ekki samkvæmt núgildandi lögum.

Einnig er lagt til, að rektor megi leysa að öllu leyti undan kennsluskyldu, og ákvæði eru um árlega skrásetningu stúdenta, sem raunar mun vera komin á í Háskólanum.

Þá er lagt til, að lögleidd verði tiltekin ákvæði, sem nú eru í háskólareglugerðinni frá 1958, sem nokkur vafi hefur verið talinn leika á eða það a.m.k. verið stundum vefengt, að þau hefðu stoð í núgildandi háskólalögum, og mun ég koma að því síðar, er ég ræði um brtt., sem n. flytur. Öll þessi atriði og aðrar breytingar, sem í frv. felast, voru ýtarlega skýrð af hæstv. menntmrh., er hann fylgdi frv. hér úr hlaði við 1. umr., og ég sé ekki ástæðu til að endurtaka það, er þá var sagt, nema þá ef tilefni gefst til við umr.

Menntmn. hefur rætt frv. á nokkrum fundum og flytur við það brtt. á þskj. 504, og skal ég víkja nokkuð að þeim brtt.

Fyrsta brtt. er við 4. málsgr. 9. gr. frv. N. taldi eftir atvikum rétt að fella niður heimild til röðunar umsækjenda eftir hæfni þeirra, eins konar einkunnargjafar fyrir umsækjendur, slík heimild er ekki í núgildandi lögum. Samkvæmt þessari málsgrein, sem að öðru leyti er svo til alveg samhljóða núgildandi lögum, þá skal, eins og þar segir, dómnefnd láta uppi rökstutt álit um það, hvort af vísindagildi rita umsækjanda og rannsókna, svo og af námsferli hans og störfum, megi ráða, að hann sé hæfur til að gegna embættinu. Svo virðist sem í slíku rökstuddu áliti ætti að gefast nokkurt svigrúm til stigsmunar í mati á hæfni umsækjenda, ef nauðsynlegt yrði talið, og taldi n. rétt, að við það sæti, eins og samkvæmt núgildandi lögum.

Önnur brtt. n. er við 1. málsgr. 10. gr., um að niður falli orðin „og hafi þar atkvæðisrétt“ í niðurlagi málsgr. N. barst frá Háskólanum svo h]jóðandi bréf, sem er dagsett 18. þ.m.: „Að gefnu tilefni skal það tekið fram, að á fundi háskólaráðs 15. marz 1969 var samþykkt að óska eftir þeirri breytingu á 10. gr. 1. málsgr. ofangreinds frv., að orðin „og hafi þar atkvæðisrétt“ falli niður.“

Miðar breyting þessi að því, að þeir einir kennarar hafi atkvæðisrétt á deildarfundum, sem kennslu hafa við Háskólann að föstu aðalstarfi. N. féllst á að verða við þessari ósk háskólaráðs, og er sem sé 2. brtt. n. á þskj. 504 í samræmi við það.

Þá er að geta 3. brtt., sem er við 2. málsgr. 18. gr. og er um það, að þessi málsgr. orðist svo sem þar segir, sem í raun þýðir það, að niður falli ein setning í þessari málsgrein, eins og hún er í frv. Þessi málsgr., eins og hún er í frv., 2. málsgr. 18. gr., er samhljóða 1. málsgr. 61. gr. háskólareglugerðarinnar frá 1958. Í athugasemdum við 18. gr. frv. segir á bls. 12: „Í háskólareglugerð eru víða ákvæði um hámarkstímalengd í námi í einstökum námshlutum, og í 61. gr. reglugerðar eru ákvæði sama efnis og í 2. og 3. málsgr. þessarar gr. Ákvæði 27. gr. háskólalaga eru stuttorð um þessi efni, og þykir tryggilegra, að um þau séu bein ákvæði í háskólalögum.“ Þetta reglugerðarákvæði er sem sé sett samkv. 27. gr. núgildandi háskólalaga. Þá segir enn fremur um þetta atriði í almennum athugasemdum ofarlega á bls. 7: „Enn er lagt til, að nokkur ákvæði, sem vafa hafa valdið við lögskýringu, verði gerð fyllilega skýr, og varða þau hámarkstíma í námi og heimild til endurtekningar prófa.“

Fyrir háskólaráði vakir það, að lögfest verði sú skipan, sem nú er á í þessum efnum. Upphaf 2. málsgr. 18. gr. er svo hljóðandi: „Nú stenzt stúdent ekki próf, gengur frá því, eftir að hann hefur byrjað próf, eða kemur ekki til prófs og hefur ekki boðað forföll. Er honum þá heimilt að þreyta prófið að nýju innan árs.“ Ákvæði þetta er með eðlilegri gagnályktun skýrt og tvímælalaust. Stúdentum er heimilt að þreyta prófið einu sinni aftur innan árs, lengra nær heimildin ekki. Hins vegar er það svo nú, að stúdent getur innritazt aftur við sömu háskóladeild, en verður þá að hefja sitt nám á ný frá byrjun og taka aftur öll þau próf, sem hann áður kann að hafa staðizt. Þetta hefur verið svo, þrátt fyrir orðalag þeirrar setningar, sem n. leggur nú til, að niður falli í frvgr. og sem stendur í núgildandi reglugerðargrein, en sú setning er svo hljóðandi: „Standist hann enn ekki sama prófið eða gangi frá því, hefur hann fyrirgert réttinum til að ganga oftar undir það.“ Eins og setningin er orðuð, þá stangast hún á við þá staðreynd, að stúdent getur nú eftir endurinnritun átt þess kost að ganga síðar undir sama prófið. N. er þeirrar skoðunar, að þessi setning sé þannig til þess fallin að valda misskilningi um þetta atriði og leggur því til, að hún verði felld niður úr málsgreininni.

Þá er loks að geta 4. og síðustu brtt. menntmn., en hún er við 23. gr. frv., að aftan við síðari málsgr., þar sem ræðir um stofnun nýrra prófessorsembætta, bætist orðin: „þegar fé er veitt til á fjárl.“

Þessi brtt. ætla ég, að þurfi ekki nánari skýringar við. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 503, leggur menntmn. einróma til, að frv. verði samþ. með þeim breytingum, sem nú hefur verið gerð grein fyrir.