05.05.1969
Neðri deild: 88. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 958 í B-deild Alþingistíðinda. (1048)

195. mál, Háskóli Íslands

Magnús Kjartansson:

Herra forseti: Mig langaði með örfáum orðum að mótmæla þeim vinnubrögðum, sem viðhöfð eru í sambandi við þetta frv. í hv. Nd. Alþ. Eins og hv. frsm. menntmn. greindi frá, var aðeins haldinn einn fundur í menntmn. um þetta mál. Ég hafði fjarvistarleyfi þann dag, var ekki í bænum, og hafði talað um það við form. n., að ég hefði hug á því að fjalla um þetta mál í n., þegar það yrði rætt þar. Hann skýrði mér frá því, þegar ég kom í bæinn aftur, að þetta hefði ekki verið unnt vegna þess, hve stuttur tími væri eftir af þingstörfum, og vegna þess, að aðrir nm. þyrftu að fara burt, þannig að það yrði líkt ástatt fyrir þeim eins og hefði verið fyrir mér þennan eina dag. En þetta frv. er ákaflega viðamikið, eins og menn sjá. Í því felst heildarendurskoðun á l. um Háskóla Íslands. Þar eru fjölmörg atriði, sem vafalaust væri vert að leggja niður fyrir sér og ræða ýtarlega. Menntmn. Ed. hefur að sjálfsögðu fjallað gaumgæfilega um málið, en því aðeins erum við með deildaskiptingu á Alþ., að til þess er ætlazt, að mál sé kannað rækilega í báðum deildum. Og svona meðferð á jafnveigamiklu máli og þetta er, að afgreiða það raunar athugunarlaust og umræðulaust á örstuttum fundi í nefnd, er auðvitað ekki nokkur hemja. Ég vil leyfa mér að mótmæla þessum vinnubrögðum alveg án tillits til þess. hvaða skoðanir menn kunna að hafa á efni frv. Svona á ekki að starfa.

Þegar fyrst fréttist af þessu frv., að von væri á því, þá var sagt frá því, að í því ætti aðeins að felast sú breyting, að stúdentar við Háskólann ættu að fá aukin réttindi til þess að taka þátt í stjórn skólans og þar á meðal í kjöri rektors. En þegar málið var borið fram, reyndist felast í því allsherjar endurskoðun á öllum l. um Háskóla Íslands, sem er að sjálfsögðu miklu veigameira mál. Hitt vandamálið um aðild stúdenta hefði auðvitað verið hægt að afgreiða á tiltölulega stuttum tíma, en þessa heildarendurskoðun ber mönnum að rækja af fullri alvöru.

Þegar málið var lagt hér fyrir s.l. þriðjudag, gerði hæstv. menntmrh. grein fyrir því, að ríkisstj. hefði heitið því á sínum tíma að flytja þær till., sem stúdentar og háskólaráð yrðu sammála um, ef um samstöðu væri að ræða, en að öðrum kosti mundi hæstv. ríkisstj. skera úr því sjálf, hvaða till. hún flytti. Nú gerðist það í sambandi við þetta tiltekna atriði, að ekki náðist samkomulag. Stúdentar fengu þarna mun minni rétt en þeir fóru fram á. En hæstv. ríkisstj. hefur ekkert tillit tekið til þessara sjónarmiða stúdenta, og hún flytur einvörðungu till. háskólaráðs. Þetta sjónarmið fæ ég ekki skilið, og mér hefði þótt fróðlegt, ef hæstv. ráðh. hefði gert grein fyrir því, hvers vegna hæstv. ríkisstj. telur sér ekki fært að fallast á sjónarmið stúdenta í þessu efni. Ég held, að fengizt hafi sú reynsla af þátttöku stúdenta í þessum málum. að mjög sé eðlilegt að trúa þeim fyrir þeirri ábyrgð, sem þeir fara fram á sjálfir og það sé algerlega rangt að skammta þann rétt eins og háskólaráð og hæstv. ríkisstj. leggja til.

Í grg., sem fylgir frá stjórn stúdentaráðs, er tekið fram. að hún æski ekki eftir því, að Alþ. geri breytingar á frv. þrátt fyrir þetta, vegna þess að hún hafi ekki umboð stúdentaráðs til þess að fara fram á það við Alþ og auk þess sé það skoðun stúdentaráðsmanna, að Háskólinn eigi að vera sem sjálfstæðastur og því beri ríkisvaldinu og Alþ. jafnan að skipa málum Háskólans á þann hátt, sem stjórnendur hans telja réttast á hverjum tíma. Þetta er sjónarmið, sem mér finnst vera býsna hæpið. Auðvitað er það ákvörðunarvald Alþ.. hvernig lög um háskóla eru höfð, og í rauninni er þetta algerlega úrelt sjónarmið að líta á háskóla sem einhverja stofnun, sem sé utan og ofan við þjóðfélagið að öðru leyti. Þetta var ríkjandi afstaða áður fyrr, þegar háskólanám var forréttindi vissra stétta í þjóðfélaginu, en eins og nú er komið, er háskóli aðeins vinnustaður eins og hver annar vinnustaður, og það ber að skipuleggja störfin í háskólanum á þann hátt, að þannig sé á hann litið. Alþ. ber að sjálfsögðu að fjalla um þau mál eins og hvað annað í samræmi við löggjafarvald þessarar stofnunar.

Engu að síður mun ég ekki flytja neina till. um þetta nú vegna þess, að vinnubrögðin hafa verið þau, sem ég lýsti, og menntmn., sem ég á sæti í, hefur ekki verið gefið tækifæri til að fjalla um þetta mál á eðlilegan hátt.

Þessum vinnubrögðum mun ég mótmæla fyrir mitt leyti með því að taka ekki þátt í afgreiðslu þessa máls.