05.05.1969
Neðri deild: 88. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 960 í B-deild Alþingistíðinda. (1050)

195. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af ræðu eða aths. hv. 6. þm. Reykv. Ég vildi láta það koma skýrt fram hér að gefnu tilefni, að þetta frv. var mjög rækilega undirbúið innan Háskólans. Það hefur verið í samningu þar allar götur frá s.l. hausti. Það er rétt, sem hv. þm. sagði, að ég hafði fyrir hönd ríkisstj. lýst því yfir þegar í haust og endurtekið það oft á liðnum vetri, að ríkisstj. væri reiðubúin til þess að flytja till. til breytinga á háskólalögum, sem veittu stúdentum aukna hlutdeild í stjórn Háskólans og þ. á m. í rektorskjöri. En það tók langan tíma að ná þeirri samstöðu innan Háskólans, sem að lokum náðist. Ég tel, að ég hefði fagnað því, ef það hefði ekki þurft að taka svona langan tíma, en það var ekki á mínu valdi. að þar yrði hafður meiri hraði á. En ég hafði alltaf lagt á það mikla áherzlu, að lagasetning um þetta atriði yrði sett áður en rektorskjör færi fram nú á þessu vori.

Það kom einnig í ljós, að fyrst háskólalögin voru opnuð, samkomulag var um að opna þau, ef svo mætti taka til orða, þá óskaði Háskólinn eftir því, að fleiri atriði yrðu tekin inn í þá frv.- gerð heldur en eingöngu þau, sem veita stúdentum hlutdeild í stjórn Háskólans og rektorskjöri, og hafði ég eða ríkisstj. fyrir okkar leyti ekkert við það að athuga. En það mun hafa tafið málið nokkuð enn. En ég vil leggja á það áherzlu, að málið var mjög rækilega undirbúið, bæði af háskólaráði, einstökum deildum og af stúdentaráði. Það var einnig vandlega farið yfir það í menntmrn., áður en það var lagt fram í samráði við Háskólann, og Ed. lagði mikla vinnu í það enn að fara yfir frv. Það hefði að sjálfsögðu verið æskilegt, að meiri tími hefði gefizt til þess hér í hv. Nd. að athuga málið, en málavextir eru nú þeir eins og hv. frsm. n. lýsti, að tími hefur reynzt nokkuð af skornum skammti. Ég hygg þó, að það eigi með engu móti að þurfa að koma að sök og málið hafi fengið fullkomlega nægilegan undirbúning og nægilega skoðun hér á hinu háa Alþ.

Að síðustu vildi ég leggja alveg sérstaka áherzlu á það, að stúdentaráð hefur ekki óskað eftir breytingum á ákvæðum frv. um hlutdeild stúdenta í stjórn Háskólans og rektorskjöri, þó að þetta frv. hafi ekki tekið fullt tillit til allra óska stúdentaráðs í þessum efnum. Hv. þm. lét í ljós nokkra undrun yfir því, að ég eða ríkisstj. skyldum ekki hafa tekið tillit til óska stúdentanna. Það er beinlínis vegna þess, að þeir hafa munnlega og skriflega beðið um það, að frv. yrði ekki breytt, eins og það kom frá háskólaráði, en það mál hefur ekki verið rætt í ríkisstj. og engin afstaða tekin til þess. Við vorum allir sammála um það, það reyndist öll þn. í Ed., og þeir, sem undir nál. hafa skrifað, virðast reynast á sömu skoðun, að það væri eðlilegt að flytja frv. í þessu formi, fyrst háskólaráðið stendur einhuga að því og stúdentaráð hefur einróma tekið fram, að það óski ekki eftir breytingum á frv. hvað þetta snertir. Ég er hins vegar sammála þeirri aths., sem kom fram hjá hv. þm., að rökstuðningurinn, sem beitt er fyrir því eða færður er fram fyrir afstöðu stúdentaráðsins, sá rökstuðningur, að Háskólinn eigi að vera sem sjálfstæðastur, ég tek ekki undir þann rökstuðning frekar en hann gerði. Um það erum við sammála, að í nútíma þjóðfélagi er háskóli að sjálfsögðu ríkisstofnun eins og aðrir skólar og aðrar ríkisstofnanir og verður að lúta almennum stjórnunarreglum um slík atriði sem þessi, en getur ekki orðið ríki í ríkinu, enda er hann það ekki samkv. gildandi háskólalögum, og ég tel, að það verði ekki Háskólanum til gagns, að gerð verði einhver tilraun til þess að gera það. Engin slík tilraun hefur verið gerð af hálfu Háskólans og engar till. um það til stjórnvalda. Háskólinn er ríkisstofnun eins og aðrir íslenzkir ríkisskólar og lýtur lögum, sem Alþ. setur um hann hverju sinni, og þau lög eiga að sjálfsögðu að vera í samræmi við almenna þjóðfélagshætti, eins og þeir eru á hverjum tíma.

En að síðustu vil ég ekki láta hjá líða að taka það fram, að ástæða fyrir tillögugerð ríkisstj. í þessu efni er sú, að um einróma till. Háskólans er að ræða, sem stjórn stúdentaráðs hefur ekki óskað, að breytt yrði.