24.03.1969
Neðri deild: 68. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í B-deild Alþingistíðinda. (1055)

189. mál, eyðing refa og minka

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Fyrri gr. þessa frv. er um það að fresta að framkvæma ákvæði 11. gr. l. um eitrun fyrir refi og minka næstu 5 ár.

Jafnframt verði bannað að eitra fyrir þessi dýr á sama tímabili. Með l. nr. 9 19. marz 1964 um breyt. á l. nr. 52 5. júní 1957 um eyðingu refa og minka var svo fyrir mælt, að fresta skyldi að framkvæma ákvæði í 1. gr. l. nr. 52 1957 um eitrun fyrir refi og minka næstu 5 ár. Jafnframt var bannað að eitra fyrir þessi dýr á sama tímabili. Að athuguðu máli þykir rétt að fresta framkvæmd ákvæða í 1. gr. þeirra laga um önnur 5 ár og banna jafnframt að eitra fyrir refi og minka á sama tímabili. Þess vegna er þetta frv. flutt.

Ég sé ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um málið að svo stöddu, en legg til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði því vísað til 2. umr. og hv. landbn.