05.05.1969
Efri deild: 85. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 965 í B-deild Alþingistíðinda. (1068)

189. mál, eyðing refa og minka

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr. og hv. landbn. hefur fjallað um, felur í sér framlengingu á bráðabirgðaákvæði því, sem gilt hefur um 5 ára skeið, og það er um bann við eitrun fyrir refi og minka. Upphaflega kom þessi krafa fram frá þeim áhugamönnum, sem telja sig bæði vera dýravini og mikla náttúruunnendur. Og vegna þess kom ég með till. um það við 1. umr. þessa máls, að frv. þetta yrði látið fara til menntmn., því ég ætla, að það sé menntmrn., en ekki landbrh., sem fjallar um þau mál, sem varða náttúruvernd landsins. En þessi till. var felld, og því kom þetta mál fyrir hv. landbn., sem hefur fjallað um málið, eins og hv. frsm. n. gat hér um áðan, og við nm. áskildum okkur rétt til að flytja eða fylgja brtt., sem fram kæmu.

Hv. 2. þm. Austf. ásamt mér flytur þá brtt., sem er á þskj. 607, en till. þessi er um það, að heimild til eitrunar fyrir refi og minka sé víðtækari en sú heimild, sem frv. felur í sér, eins og það liggur fyrir núna. Það er vitað mál, að staðhættir hér á landi eru allbreytilegir og aðstaða öll til þess að útrýma þeim bitvörgum, sem hér um ræðir, og það eru til heilar sveitir, sem komnar eru í eyði, og því mjög erfitt um vik að fylgja eftir þeim málum eins og hægt er og þægilegra að gera, þar sem sveitir eru enn byggðar. Það hefur komið í ljós, að á vissum svæðum hafa myndazt uppeldisstöðvar fyrir refi og minka, og ég held, að það verði afar erfitt að útrýma þessum bitvörgum á þeim slóðum nema með víðtækari eitrun en frv. sjálft gerir ráð fyrir. Og það eru mikil verðmæti í húfi hér á landi einmitt vegna þess, að eitrun hefur ekki verið viðhöfð. Það er vitað mál, að þessi vargdýr, bæði refir og minkar, hafa valdið stórkostlegum eyðileggingum víða á landinu. Það er kunnara en frá þurfi að segja, t.d. í Breiðafjarðareyjum, að þar má heita, að æðarfuglinn sé flúinn, og þau miklu verðmæti, sem honum fylgja, hafa þar af leiðandi stórum minnkað bæði þeim, er þessi lönd eiga, og þjóðinni allri til mikils skaða, því að hér er um að ræða verðmætan útflutning, þar sem dúnninn er, en eitt kg af hreinsuðum dún mun vera að verðgildi um 6000 kr.

Minkurinn og tófan eiga mikinn þátt í því, að dúnmagnið hefur farið minnkandi ár frá ári nú að undanförnu. En verðgildi þessa útflutningsverðmætis hefur farið vaxandi hin síðari ár, auk þess sem mikil sala fyrir dún er innanlands. Það er heldur ekki hægt að horfa fram hjá þeirri eyðileggingu, sem minkurinn veldur í veiðivötnum og ám. Við teljum okkur mikla ræktunarmenn og höfum þá trú, að veiði í ám og vötnum verði okkur miklu drýgri tekjulind í framtíðinni en verið hefur. Ég efast heldur ekki um, að svo geti orðið, en til þess verðum við að losna við þessi vargdýr, refi og minka, sem annars rífa niður það, sem við ætlum okkur að byggja upp. Ein af þeim leiðum, sem við verðum að nóta, er að eitra fyrir þessi dýr, sem einnig valda miklum skaða í sauðfjáreign bænda. Og það eru mörg dæmi þess, að við greni á vorin eru allt að 20–30 lambsskrokkar við eitt einasta greni, og það gefur að skilja, að á öllu landinu kann þetta að valda allmiklum skaða í sauðfjáreign bænda. Og hv. frsm. n., 5. þm. Sunnl., gat þess, að það væru landssvæði, þar sem væri mjög erfitt að útrýma refum nema með eitri, og það er einmitt á þessum slóðum, sem erfiðast er að útrýma refunum og þar sem þeir valda kannske mestum skaða, og ég held, að það sé óhætt að fullyrða, að hin síðari ár síðan eitrunarbannið gekk í gildi hafi verið mikið meiri brögð að því, að refir hafi ráðizt á sauðfé bænda og ekki sízt á unglömbin á vorin heldur en áður var. Það má vel vera, að þar sé því um að kenna, að það sé ekki nógu vel leitað að grenjum á vorin, en það er klárt mál, að þetta hefur farið vaxandi, og ég hygg, að veiðistjóri sé þeirrar sömu skoðunar.

Hér eru miklir hagsmunir í veði, sem ég hef getið um. En till. okkar er aðeins víðtækari heimild en frv. sjálft gerir ráð fyrir, og ég vil í þessu sambandi minna á það, að á Búnaðarþingi í vetur var samþ. eftirfarandi till. um breytingu á l. um eyðingu refa og minka, með leyfi forseta, þ.e. við 11. gr. l.:

„Stjórnum sveitar- og bæjarfélaga er heimilt að eitra fyrir refi og minka, ef nauðsyn ber til samkv. fyrirmælum veiðistjóra og stjórnar Búnaðarfélags Íslands. Óheimilt er að eitra í hræ og innyfli á víðavangi. Hið eitraða agn skal vel falið í gjótum eða holum, þannig að ekki sjáist úr lofti eða þó gengið sé nærri eiturstaðnum. Grenjaskyttum er heimilt að eitra fyrir yrðlinga á grenjum. Þó skal eigi gripið til þess ráðs fyrr en önnur ráð hafa brugðizt. Oddvitum og bæjarstjórum skal látið eitur í té gegn skriflegri umsókn samþykktri af veiðistjóra. Lyfjaverzlun ríkisins annist sölu og dreifingu eitursins skv. fyrirmælum landbrn. og heilbrmrn. 7. gr. í reglugerð um eyðingu refa og minka breytist í samræmi við ofanritað.“

Í grg. fyrir þessum tillögum segir veiðistjóri, Sveinn Einarsson, að að fenginni 5 ára reynslu, sem eiturbannið hefur staðið, mæli margt á móti því að framlengja eiturbannið eða afnema með öllu eituraðgerðir fyrir refi og minka. Sé fyllstu vandvirkni gætt, sé hægt að framkvæma eitrun fyrir umrædd vargdýr, án þess að öðrum dýrum stafi nokkur veruleg hætta þar af.

Orðrétt segir áfram í greinargerð veiðistjóra:

„Á stærri dýrasvæðum mun vart gerlegt sökum mikils kostnaðar að halda refum í skefjum án notkunar eiturs. Við grenjavinnslu kemur fyrir, að illa gengur að vinna 1–2 síðustu yrðlingana. Þeir geta hafa hvekkzt svo, að langan tíma tekur að vinna þá og getur jafnvel skipt sólarhringum. Þegar slíkt á sér stað langt frá byggð eða bílfærum leiðum, er helzta úrræðið, ef bæði fullorðnu dýrin hafa verið felld, að eitra fyrir yrðlingana, áður en grenið er yfirgefið. Ekki hefur umrætt 5 ára eiturbann sannað álit þeirra, sem töldu, að eituraðgerðir ælu upp bitvarg. Síðustu 2 árin hafa mörg ung bitdýr, sem aldrei hafa nálægt eitri komið, verið unnin. Það skal tekið fram, að í haust bar óvenju mikið á bitvörgum í öllum landshlutum, svo að ekki virðist um neina hugarfarsbreytingu að ræða hjá refum, þó að þeir hafi ekki kynnzt eitrinu.“

Mér finnst þessi grg. veiðistjóra bera því glöggt vitni, að það er þörf frekari eituraðgerða en átt hafa sér stað að undanförnu. Þessar samþykktir Búnaðarþings voru sendar landbrn. fyrir um það bil 6 vikum síðan, og auk þess átti stjórn Búnaðarfélags Íslands og búnaðarmálastjóri samtal um þessi mál við hæstv. landbrh. og ráðh. tók málinu vel, en hefur ekki tekið till. Búnaðarþings alvarlega, því að sennilega hefur örninn eitthvað hrætt hann og ruglað hann í ríminu.

Þar sem hér er lagt til að banna eitrun áfram næstu 5 ár, en veita undanþágu frá því í vissum tilvikum undir ströngu eftirliti, þá vænti ég þess, að hv. þd. samþykki brtt. á þskj. 607, því að hér er um mjög takmarkaða heimild til eitrunar að ræða og aðeins á vissum landssvæðum, að dómi hlutaðeigandi sveitarstjórnar og Búnaðarfélags Íslands ásamt leyfi landbrn. Ég held, að það séu það margir aðilar, sem allir eru þaulkunnugir þessum málum og eiga að gæta laga og réttar á þessu sviði, að við getum ekki annað en treyst þeim til að vega og meta allar aðstæður hverju sinni.

Hér í hv. þd. eru margir loðdýraunnendur, því að d. hefur samþ. 198. mál þingsins, en það er um loðdýrarækt. En 1. gr. þess frv. hljóðar þannig, með leyfi forseta:

„Loðdýr nefnast í lögum þessum öll þau dýr, sem ræktuð eru eða alin vegna verðmætis skinnanna eingöngu eða aðallega. Landbrh. sker úr ágreiningi um, hvort dýrategund skuli teljast til loðdýra eða ekki.“ Benda vil ég á það, að gærur sauðfjár fara mjög hækkandi í verði og dýrmætir pelsar eru búnir til úr þeim, og þótt ekki sé það í dag svo, að gæran af kindinni sé verðmeiri en kjöt kindarinnar, þá kann svo að fara síðar, og öruggt er það með vissar tegundir af gærum, t.d. gráar og flekkóttar, að þær jafnast í verðgildi á við kjöt sauðkindarinnar. Það er von mín og ósk, að þeir hv. þm., sem unna loðdýrarækt, vilji enn fremur auka þau verðmæti, sem frá alda öðli hafa veitt þjóðinni björg í bú, og að þeir fylgi þeim brtt., sem fela víðtækari eitrun í sér, því að því aðeins geta nýjar búgreinar komið til greina og að fullum notum, að þau verðmæti, sem fyrir eru, haldist áfram og eflist til muna. Það er því þjóðarnauðsyn og á að vera metnaðarmál allra að hlúa að æðarfugli, efla veiðar í ám og vötnum og vernda þessi verðmæti ásamt sauðfénu fyrir þeim vargi, sem þar herjar. En brtt. okkar á þskj. 607 stuðlar að því að vernda og auka tekjur af þeim verðmætum, sem þar fjallar um. Ég vænti því þess, að samþykkt verði sú heimild, víðtæka heimild, sem felst í brtt. okkar á þskj. 607, þ.e. að við 1. gr., 2. málsl., bætist: „svo og að eitra fyrir refi og minka á takmörkuðum landsvæðum, ef nauðsyn ber til að dómi hlutaðeigandi sveitarstjórna og stjórnar Búnaðarfélags Íslands.

Ég ætla, að hér sé það vel frá málum gengið, að hættulaust eigi að vera að samþykkja þessa till., því að það margir aðilar fjalla um þessi mál, að þeim ætti að vera treystandi til þess að gæta þess, að því sem við viljum vernda á einu sviði, glötum við ekki um leið og við leggjum inn á nýjar brautir. Eitrun er því nauðsynleg í vissum tilvikum, svo að við getum verndað í framtíðinni verðmæti þau, sem okkur hefur tekizt lengst af að vernda, en því miður ekki alltaf.