03.03.1969
Efri deild: 53. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 973 í B-deild Alþingistíðinda. (1078)

97. mál, brunavarnir og brunamál

Sveinn Guðmundsson:

Herra forseti. Frv. til l. um brunavarnir og brunamál, 97. mál Alþ., sem er hér til 3. umr. í hæstv. Ed., gerir ráð fyrir breyt. á skipan brunavarna og m.a. skipun brunamálastjóra. 2. gr. frv. fjallar um ráðningu brunamálastjóra, sem hafi verkfræðimenntun með sérþekkingu í brunamálum. Á þskj. 305 hef ég borið fram brtt. svo hljóðandi: „Við 2. gr. 3. málsgr. Í stað orðanna „verkfræðingur með sérþekkingu á brunamálum“ komi: maður með sérþekkingu á brunamálum, er sé annaðhvort verkfræðingur eða tæknifræðingur.“ Samkv. þessari breyt. hefur ráðh. frjálst val milli verkfræðinga og tæknifræðinga, enda hafi þeir þá þekkingu ábrunavörnum,sem frv. gerir ráð fyrir. Með bréfi, dags. 15. febr. 1968, skrifaði Tæknifræðingafélag Íslands hæstv. Alþ. sérstaklega um þetta mál. í bréfi félagsins segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Tæknifræðingafélag Íslands bendir á, að sú tilhneiging er æði rík að ákveða í lögum verkfræðings- eða arkitektamenntun til að gegna ýmsum störfum og embættum, sem stofnuð eru í þjóðfélaginu og tæknimenntun þarf til. Telur félagið, að í flestum slíkum tilvikum geti tæknifræðingur jafn vel gegnt slíkum störfum. Menntun þeirra er slík, að jafnvel í sumum tilvikum eru þeir betur færir en verkfræðingar til að gegna ýmsum embættum, sem tæknimenntun þarf til.“

Svipuð mál og hér um ræðir, skipun brunamálastjóra, að það sé verkfræðingur, hafa áður verið til meðferðar hér í Alþ. Að gera greinarmun á því í slíkum tilvikum, hvort maðurinn er verkfræðingur eða tæknifræðingur, er arfur frá eldri tíma, sem ekki tilheyrir nútímanum. Segja má, að mismunurinn á milli verkfræðings og tæknifræðings sé oftast sá, að verkfræðingurinn byrjar nám sitt með því að ganga menntaveginn, en tæknifræðingurinn byrjar námsferil sinn oftast með verklegu námi, t.d. iðnnámi. Á seinna stigi námsstigans er það svo oft undir manninum sjálfum komið, hvor reynist færari til starfa, verkfræðingurinn eða tæknifræðingurinn, verkfræðingur, sem hefur lært meira í bóklegum fræðum og erfiðum útreikningum eða tæknifræðingurinn, sem á að hafa lært meira í hinu praktíska lífi og reynslu. Það sýnir sig sérstaklega eftir að Tækniskólinn var stofnaður hér, að þetta form menntunar hentar vel okkar litlu þjóð, þar sem tilgangurinn er ekki aðallega að mennta vísindamenn, heldur menn til praktískra starfa.

Ég vænti þess, að hv. þingdeild geti verið mér sammála um, að brtt. mín er til góðs og á rétt á sér. Vænti ég, að hún fái samþykki deildarinnar.