29.04.1969
Neðri deild: 89. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (1093)

97. mál, brunavarnir og brunamál

Bragi Sigurjónsson:

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð út af ræðu síðasta ræðumanns. Það er rétt, að það hefur komið fram, bæði í blöðum og málflutningi manna, töluverð gagnrýni á það, að það þurfi að setja hér upp nýja stofnun vegna brunaeftirlitsins og hvort ekki væri hugsanlegt að koma þessu undir Öryggiseftirlit ríkisins. Ég varð áheyrsla að því á stjórnarfundi Sambands ísl. sveitarfélaga, að þessi mál voru nokkuð rædd, og ég heyrði málflutning forstöðumanns Brunabótafélags Íslands um þetta atriði einnig, og þar kom mjög greinilega fram, að enda þótt hann viðurkenndi það sjónarmið, að æskilegt væri, að ýmiss konar öryggiseftirlit væri undir einni stofnun, þá taldi hann, að það væri svo brýnt að koma þessu brunaeftirliti upp sem allra fyrst, að hann lagði á það þunga áherzlu við ýmsa nm., sem fjölluðu um þetta máli bæði í Ed. og Nd. og eins lýsti hann því yfir á þeim vettvangi, sem ég var að nefna áðan, að ekki væri tafið af hálfu þingsins að koma þessu brunaeftirliti á hið allra fyrsta. Og það mundi taka svo langan tíma að samræma eftirlitskerfið, ef það væri sett undir annan hatt en hér er lagt til, að e.t.v. gætu ýmis stórslys gerzt, sem annars yrðu ekki, og einmitt í því tilefni nefndi hann stórbruna, sem hér hafa orðið, bæði í Reykjavík og á Akureyri, fyrir tiltölulega skömmu, sem hann vildi draga í efa, að hefðu komið fyrir, ef jafnstrangt eftirlit og hér er ætlazt til að verði með brunavörnum, hefði verið fyrir hendi.

Fyrst ég er kominn hér upp, er kannske rétt, að ég aðeins svari því, sem hv. þm. í Norðurl. v. var að gefa í skyn, að þetta frv. væri kannske komið fram vegna þess, að einhvern góðan Alþfl.-mann vantaði embætti. Það held ég, að sé ekki af þeim sökum, þm. megi treysta því, en kannske er rétt að rifja það upp fyrir honum, að það hafi setið ýmsar ríkisstj. hér áður en þessi ríkisstj. og ýmsir flokkar verið í ríkisstj. aðrir en Alþfl. og þá haft býsna mikla tilhneigingu til þess að velja sína menn í ýmis störf, sem nú eru kallaðir bitlingar, en þá hétu ekki því nafni.