08.05.1969
Efri deild: 88. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 984 í B-deild Alþingistíðinda. (1099)

97. mál, brunavarnir og brunamál

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta var upphaflega flutt hér í Ed. og afgr. héðan til Nd. á miðjum vetri, en við meðferð málsins í Nd. var gerð ein breyting á frv., og þess vegna er það nú komið aftur hingað til Ed. Þessi breyting er við 3. gr. frv., þar sem rætt er um verksvið Brunamálastofnunarinnar og nánar tiltekið við c-lið þessarar 3. gr., en í þessum lið er það talið sem eitt af verkefnum Brunamálastofnunarinnar að yfirfara uppdrætti af nýbyggingum, viðbótum og meiri háttar breytingum á mannvirkjum, töldum í b-lið, til þess að ganga úr skugga um, að l. og reglugerðum um brunamál sé fullnægt. Enn fremur segir í þessum c-lið: „óheimilt er að afgreiða slíka uppdrætti í byggingarnefndum eða hefja framkvæmdir, nema að Brunamálastofnunin hafi áður samþykkt uppdrættina.“ Það er þetta niðurlag c-liðar um að óheimilt sé að afgreiða slíka uppdrætti í byggingarnefndum eða að hefja framkvæmdir, nema að Brunamálastofnun hafi áður samþykkt uppdrættina, sem fellt var niður úr frv. við meðferð þess í Nd., en það var að vel athuguðu máli talið vera alltof þungt í vöfum að þurfa að bíða eftir að hefja framkvæmdir, nema að endanlegt samþykki Brunamálastofnunarinnar lægi fyrir, það yrði hægt að tryggja það með öðrum hætti, og þess vegna breytti Nd. þessu og felldi þetta út úr frv. Heilbr.- og félmn. Ed. hafði þetta frv. til meðferðar á sínum tíma, og n. hefur athugað það nú á nýjan leik, eftir að það kom aftur frá Nd., og mælir n. með því, að þessi brtt.samþ. og frv. afgr. eins og það nú liggur fyrir.