29.04.1969
Neðri deild: 83. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 987 í B-deild Alþingistíðinda. (1113)

169. mál, lækningaleyfi o.fl.

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Þetta frv. hefur hlotið afgreiðslu í Ed., en aðalbreytingin í því frá lögum um lækningaleyfi frá 1932 er sú að skapa fleiri stig til meðferðar á lækningaleyfum. Það er svo nú, að ef verulegar misfellur eiga sér stað í meðferð lækningaleyfa hjá viðkomandi læknum, sem þau hafa hlotið, þá kann að draga til þess, að viðkomandi verði sviptur lækningaleyfi, og er það mikil og áhrifarík aðgerð gagnvart viðkomandi aðila, en bæði með hliðsjón af reynslu, sem annars staðar hefur fengizt og einnig með hliðsjón af framkvæmd þessara l. hafa þeir sérfræðingar, sem hér um hafa fjallað og undirbúið þetta mál og borið undir forystu landlæknis, talið, að það gæti verið til góðs í sumum tilfellum, að hægt væri að viðhafa aðrar aðgerðir, beita fyrst minni ráðstöfunum, sem kynnu þá að leiða til þeirrar viðvörunar, sem leiða mundi til þess, að viðkomandi sæi sig um hönd og breytti framferði sínu þannig, að síðar þyrfti ekki að koma til þess, að hann yrði sviptur lækningaleyfi, og eru það þá aðallega 3 stig, sem nú er um að ræða. Ef landlæknir telur rökstudda ástæðu til að hafa eftirlit með ávísun lækna á tiltekin ávana- og fíknilyf, þá getur ráðh. eftir tillögu landlæknis lagt fyrir læknana að halda skrár yfir ávísanir og skrá þar með m.a. nafn, aldur og heimilisfang sjúklings, heiti, magn og útgáfudag ávísaðra lyfja og tilefni notkunar þeirra. Síðan mundi, ef það sýnir sig í framkvæmd, að hér hafi ekki verið nóg að gert, koma næsta skrefið, sem gæti fólgizt í því að svipta viðkomandi aðila heimild til þess að gefa yfir höfuð nokkrar ávísanir á ávana- og fíknilyf, nema þá í gegnum annan lækni eða á ábyrgð einhvers annars aðila, og ef svo enn reyndist, að hér væri ekki nóg að gert, þá fyrst kæmi þriðja skrefið, ef þess þætti þurfa, svipting sjálfs lækningaleyfisins og með þeim þá alvarlegu afleiðingum, sem það hefur.

Það er einnig sú smábreyt., sem kannske ekki skiptir máli, en hefur komið til umr., að rétt væri að hafa í 1., að ráðh. geti veitt tímabundið lækningaleyfi mönnum, sem ekki eru íslenzkir ríkisborgarar, ef þeir fullnægja vissum skilyrðum, hafi lokið prófi í læknisfræði frá viðurkenndum háskóla og hafi nægilega kunnáttu í töluðu og rituðu íslenzku máli að dómi landlæknis, enda sé um að ræða tiltekið læknisstarf, sem enginn íslenzkur læknir hefur fengizt til að gegna, ef í vissum tilfellum kynni að geta verið hagkvæmt að veita slíkum aðila lækningaleyfi, og í vissum undantekningartilfellum hefur það nú verið hagnýtt, þrátt fyrir ákvæði l.

Ég vildi mega vænta þess, að hv. deild eða nefnd, sem fær þetta mál til meðferðar, sæi sér fært að ljúka skjótlega afgreiðslu þess, þannig að það geti hlotið endanlega afgreiðslu á þessu þingi. Að svo mæltu vil ég leyfa mér að leggja til, að málinu verði að þessari umr. lokinni vísað til 2. umr. og til hv. heilbr.- og félmn.