14.12.1968
Neðri deild: 29. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 989 í B-deild Alþingistíðinda. (1122)

117. mál, Háskóli Íslands

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það má segja um hæstv. menntmrh., að sjaldan bregður hann vana sínum. Það hefur verið venja hans á mörgum undanförnum þingum að koma til Alþ. með frv. um fjölgun starfsmanna við Háskólann á síðustu dögum þingsins fyrir jólafrí, og hann hefur lagt á það áherzlu, að þessi mál væru afgreidd viðstöðulaust og athugunarlaust, og þingmeirihluti hefur gert þetta fyrir hann. Mér finnst nóg komið af svo góðu. Þetta eru alveg ósæmileg vinnubrögð. Það er auðséð á þessu frv., að hæstv. ráðh. ætlast til, að þetta sé afgreitt nú þegar, því að þetta á að koma til framkvæmda um næstu áramót. Engin nauður rak hann til að bíða með þetta mál þangað til núna örfáum dögum fyrir jól. Hann gat vel lagt þetta fram snemma á þessu þingi eða í upphafi þess, svo að það gæti fengið þinglega meðferð.

Ég ætla ekki nú að ræða um efni þessa frv., aðeins um meðferðina á þessu máli hjá hæstv. ráðh. Það er hún, sem ég tel, að sé fordæmanleg. Ég er reyndar ekki svo mikið undrandi yfir því, þó að hæstv. menntmrh. hegði sér svona, því að maður er ýmsu vanur frá hans hendi. En ég er meira hissa á því, að hæstv. forsrh. skuli láta svona vinnubrögð viðgangast í þeirri ríkisstj., sem hann veitir forstöðu, því að ég efast ekki um, að honum sé ljóst, að þetta eru alveg ósæmileg vinnubrögð.

Ég teldi það nú réttustu meðferð þingsins á þessu máli, eins og það er í pottinn búið, að fleygja þessu nú þegar aftur í þennan óðamála mann, sem gengur undir nafninu hæstv. menntmrh. Það væri dálítil tilraun af þingsins hálfu til þess að kenna honum örlítið í mannasiðum.