14.12.1968
Neðri deild: 29. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 991 í B-deild Alþingistíðinda. (1125)

117. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það er rétt skilið hjá hv. þm., að ákvæði þessa frv. þýða það, að þegar Einar Bjarnason fellur frá, yrði embættið lagt niður, nema því aðeins að önnur skipan yrði gerð. M.ö.o. Alþ. mundi þá taka ákvörðun um það, hvort áfram skyldi vera prófessorsembætti í ættfræði við Háskóla Íslands. Ástæða þess, að þessi skipan var á höfð, er sú, að Háskólinn taldi, að það mundi vera óvíst, þegar Einar Bjarnason félli frá, að völ mundi vera á manni sérfróðum í ættfræði, sem eðlilegt væri, að hefði prófessorsembætti með höndum. Það er kunnara en frá þurfi að segja, að ættfræði er ekki akademísk fræðigrein, þannig að engin trygging er fyrir því, að eftir tiltekinn árafjölda sé völ á manni á Íslandi, sem Háskólinn mundi óska eftir, að gegndi prófessorsembætti í ættfræði við stofnunina, þannig að vel gæti þá komið til greina, að núverandi skipan yrði aftur tekin upp, þ.e.a.s. að sérstökum manni yrði falin æviskrárritastarfsemi og hann starfaði þá á Þjóðskjalasafni, eins og fyrrverandi æviskrárritari gerði. Þetta er atriði, sem Alþ. mundi taka ákvörðun um á sínum tíma. En ákvæði frv. um þetta efni er einmitt haft svona í samráði við Háskólann annars vegar og Einar Bjarnason ríkisendurskoðanda hins vegar. Með þessu móti vona ég, að fyrri fsp. sé að fullu svarað.

Um hina fsp., hvort þetta sé það embætti, sem Háskólinn leggur áherzlu á að fá fyrst og fremst, er þetta að segja. Frumkvæði í þessu efni er ekki komið frá Háskólanum. Hugmyndin um að leysa málið upp á þennan máta er frá mér eða frá ríkisstj. komin. Hún hefur hins vegar verið rædd rækilega við Háskólann, svo rækilega, að það hefur valdið því, að málið kemur ekki á dagskrá hér fyrr heldur en raun ber vitni. En þetta frv. er flutt í fullu samráði við háskólaráð og hefur fullt samþykki þess. Enda má segja, að ekkert sé frá Háskólanum tekið, þó að hann fái nýjan prófessor í ættfræði, og eins og ég sagði áðan, er hér heldur ekki um nema mjög óverulegan kostnaðarauka að ræða, það er ekki um nýtt embætti að ræða, heldur flutning á embætti úr Þjóðskjalasafni yfir í Háskóla í þann tíma, sem Einars Bjarnasonar getur notið við, og ég endurtek, að ég tel tvímælalaust hér vera um vinnuhagræðingu að ræða, auk þess sem um það er að ræða að losa starfskrafta manns, sem hefur einstæða þekkingu á málum, sem ég ætla, að öllum Íslendingum séu sérstaklega hjartfólgin, úr starfi, sem er mjög fjarskylt hans megináhugamáli, í starf, þar sem óvenjuleg þekking hans og atorka mundi njóta sín fyllilega.