14.04.1969
Neðri deild: 76. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 992 í B-deild Alþingistíðinda. (1128)

117. mál, Háskóli Íslands

Frsm. meiri hl. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ættfræði er alþjóðlega viðurkennd fræði- og vísindagrein, sem þekkt er af prentuðum heimildum allt frá Forn-Grikkjum og allt til þessa dags og er án efa mun eldri. Hún er réttlætanleg, þó ekki væri af öðrum ástæðum heldur en þeim áhuga, sem menn yfirleitt hafa á að fræðast um forfeður sína, en auk þess hefur þessi fræðigrein mikið fræðilegt gildi fyrir ýmsar aðrar fræðigreinar, svo sem fyrir sagnfræði, fyrir trúarbrögð, fyrir lögfræði og margar greinar læknisfræði. Þessi grein er stunduð víða um heim, í flestum löndum vil ég segja, og eru til mýmargar stofnanir, sem um hana fjalla, og jafnvel prófessorsembætti. Þá er gefinn út mikill fjöldi af ritum, bæði tímaritum og bókum, og mætti nefna mörg dæmi þess, hve mikið er lagt í sölurnar til þess að stunda greinina.

Hér á landi hefur verið til um skeið starf æviskrárritara, og var það starf laust á s.l. vetri. Í sambandi við það mál upphófust viðræður milli menntmrn. og Háskóla Íslands um þann möguleika, að æviskrárritarastarfið yrði flutt inn í Háskólann og gert þar að prófessorsembætti. Var málið rætt í háskólaráði 4. apríl og 27. ágúst s.l. Upp úr þessum viðræðum spratt frv. það, sem hér er til meðferðar, en samkv. því á að stofna við Háskóla Íslands prófessorsembætti í ættfræði, sem tengt verði við nafn Einars Bjarnasonar ríkisendurskoðanda. Menntmn. fékk þetta frv. til athugunar, og þrátt fyrir það að áður hafði verið ráðgazt við háskólaráð um málið, sendi n. frv. þangað til umsagnar. Háskólaráð sendi frv. áfram til heimspekideildar Háskólans og óskaði álits hennar. Eftir alllangar umr. varð niðurstaðan sú, að heimspekideild snerist á móti frv. og færði fram fyrir því ýmsar ástæður, sem lesa má á nál. meiri hl. menntmn. Háskólaráð tók málið til nýrrar yfirvegunar, er það hafði heyrt álit heimspekideildar, og hélt við sína fyrri skoðun, að það væri æskilegt að breyta starfi æviskrárritara í prófessorsembætti. Þó óskaði háskólaráð eftir þeirri breytingu á l., að embættið skyldi tengt við lagadeild og að taka skyldi fram, að um það gildi 1. um aldurshámark starfsmanna ríkisins, eins og um önnur embætti við Háskólann.

Meiri hl. menntmn. hefur tekið þá afstöðu að fara að óskum háskólaráðs og leggur því til, eins og fram kemur á þskj. 401, að frv. verði samþ. með þeirri breytingu, sem ég gat um og háskólaráð óskaði eftir.