14.04.1969
Neðri deild: 76. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 994 í B-deild Alþingistíðinda. (1130)

117. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég leyfi mér að þakka hv. meiri hl. menntmn. fyrir jákvæða afstöðu til þessa frv. og meðmæli meiri hl. með því, að það nái fram að ganga í því formi, sem meiri hl. hefur lagt til að breyta því í samkv. eindreginni ósk háskólaráðs.

Ég vil einnig þakka frsm. minni hl. fyrir jákvæðar undirtektir undir efni málsins, þ.e. þá hugmynd, sem lá að baki frv., eins og það upphaflega var flutt, og ég tel, að enn muni leiða til góðs, ef frv. nær fram að ganga, þótt í því formi sé, sem málinu hefur nú verið breytt í samkvæmt eindregnum tilmælum háskólaráðs.

Ég er frsm. minni hl. sammála um það, að málið hefur ekki tekið að öllu leyti æskilega stefnu, þó að ég geti ekki tekið undir öll einstök ummæli hans í framsögu hans áðan, eins og ég mun víkja nánar að hér á eftir. En ég vil leggja á það sérstaka áherzlu, að þótt frsm. minni hl. leggi til, að frv. verði fellt, eða kannske öllu heldur að það fái ekki afgreiðslu í því formi, sem hér er um að ræða, þá vil ég undirstrika, að hann taldi, að það mundi geta orðið til mikilla bóta, að æviskrárritarastarfinu, sem ákvæði eru um í gildandi l., yrði breytt í starf við Háskólann, þ.e. starf með prófessorslaunum. Ég tók ekki eftir því, hvort hann beinlínis tók fram, að hann styddi, að starfið yrði gert að prófessorsstarfi, ef maðurinn starfaði í samvinnu við erfðafræðinefnd Háskólans. Ég vil líka undirstrika, að frsm. minni hl. taldi Einar Bjarnason lögfræðing og núverandi ríkisendurskoðanda, sem tvímælalaust er einn merkasti ættfræðingur,sem nú er uppi á Norðurlöndum og þó víðar væri leitað, vel til þess fallinn að gegna slíku starfi. Sannleikurinn er sá, að það var nákvæmlega þetta, sem upphaflega vakti fyrir mér. Það var nákvæmlega þessi hugmynd, sem ég vildi fá framgengt og tók upp viðræður við Háskólann um. Ég taldi sem sagt vera óeðlilegt, að á tveimur stöðum væri unnið að hliðstæðum verkefnum og þó með nokkuð sitt hvorum hætti, þ.e. annars vegar í Þjóðskjalasafni af hálfu ættfræðings og hins vegar í nefnd innan Háskólans, eins konar einkanefnd, sem komið hafði verið upp fyrir frumkvæði prófessors í læknadeild, prófessors Níelsar Dungals, til þess að hafa með höndum rannsóknir á læknisfræðilegri mannerfðafræði með styrk frá bandarískum stjórnvöldum eða nánar tiltekið frá Kjarnorkurannsóknastofnun Bandaríkjanna. Það er rétt að taka fram, að þegar þessari nefnd var komið á fót fyrir forgöngu þessa hugmyndaríka og dugmikla manns, prófessors Níelsar Dungals var ekkert samráð haft um það við íslenzk stjórnvöld. Þessi nefnd var, ef svo mætti segja, einkafyrirtæki prófessora í læknadeildinni og þær fjárveitingar, sem henni voru veittar frá Kjarnorkurannsóknastofnun Bandaríkjanna, fóru að engu leyti um hendur neinna opinberra aðila. Menntmrn. hafði enga hugmynd um það, þegar þessar fjárveitingar voru ákveðnar, og fylgdist aldrei að einu né neinu leyti með því, hvernig því fé væri ráðstafað, enda aldrei óskað eftir neinum afskiptum af starfi nefndarinnar né heldur stuðningi við nefndina af hálfu íslenzkra yfirvalda.

Það var ekki fyrr en á árinu 1968, snemma árs 1968, að þáverandi formaður erfðafræðinefndarinnar og starfsmaður hennar komu að máli við mig í fyrsta skipti síðan nefndinni var komið á fót varðandi fjármál nefndarinnar, gagngert til þess að skýra mér frá því, að nú óttaðist nefndin, að þeir bandarísku aðilar, sem hingað til hefðu styrkt nefndina, væru að draga saman seglin, og virtist svo, að það væri skilyrði fyrir áframhaldandi stuðningi við starfsemi nefndarinnar, að hún yrði formleg háskólastofnun. Þegar ég ræddi við þá, með hvaða hætti það gæti gerzt, sögðu þeir, að um tvennt væri að ræða, annars vegar að breyta reglugerð Háskólans þannig, að komið yrði á fót háskólastofnun í mannerfðafræði og ættfræði, ef þess væri óskað, eða þá að komið yrði á fót prófessorsembættum í mannerfðafræði og ættfræði sem fyrsta vísi að formlegri háskólastofnun. Þá væri von til þess, að fjárstyrkur héldi áfram frá þessum aðilum, sem hingað til hefðu styrkt nefndina myndarlega.

Það var í framhaldi af þessu, sem mér datt í hug að styðja erfðafræðinefnd Háskólans með þessum hætti. Óveitt var embætti æviskrárritara. Það embætti hafði verið auglýst, og umsóknarfresti var lokið, en embættið var óveitt. Mér datt þá í hug — ég ber einn ábyrgð á þeirri hugmynd — hvort ekki væri unnt að slá tvær flugur í einu höggi, annars vegar að koma upp vísi að háskólastofnun í þessum fræðum, mannfræði og ættfræði, við Háskólann með stofnun prófessorsembættis og hins vegar að koma í veg fyrir þann óeðlilega tvíverknað, sem sýna mátti fram á, að átt hefði sér stað með störfum æviskrárritara annars vegar og erfðafræðinefndar Háskólans hins vegar. Þessari hugmynd var þegar í stað tekið mjög vel af meðlimum erfðafræðinefndarinnar. Ég ræddi hana við háskólarektor. Það er sá aðili við Háskólann, sem menntmrn. ber að snúa sér til og snýr sér að sjálfsögðu til. Þegar heimspekideild kvartar undan því, að ekki hafi verið haft samráð við hana, þá er það gagnrýni á háskólarektor og háskólaráð, en ekki gagnrýni á menntmrn. Þessari hugmynd var vel tekið af forvígismönnum erfðafræðinefndarinnar og yfirmönnum Háskólans. Ég og ríkisstj. vorum því í góðri trú um stuðning að hálfu Háskólans yfirleitt, þegar útbúið var frv. um þetta efni. Það kom að vísu í ljós nokkru síðar, nokkrum vikum eða nokkrum mánuðum síðar, að erfðafræðinefndin hefði heldur kosið, að það yrði erfðafræðingur, sem til þessa starfs veldist, og embættið yrði í læknadeildinni, þriðja hugmyndin, sem sett hefur verið fram um þetta allt saman. En vegna þess að við eigum völ á manni í ættfræði, sem hefur einstaka hæfileika og einstaka þekkingu á þeirri grein, og til var í embættiskerfi ríkisins embætti á ættfræðisviði, taldi ég einsýnt, og um það var háskólarektor mér algerlega sammála, að líklegasta leiðin til að hrinda þessum málum í heild áleiðis væri sú að breyta æviskrárritaraembættinu í prófessorsembætti í ættfræði við Háskólann. Þá fannst mér persónulega, og ríkisstj. var öll á einu máli um, að það væri langeðlilegast, að embættið væri í heimspekideildinni, enda skyldast þeim greinum, sem þar er um að ræða, eins og ég mun koma að nánar síðar. Ég gat þá ekki látið mér detta í hug, að þessi hugmynd, sem að sjálfsögðu var ætlað að efla Háskólann og vera fyrsta sporið í átt að meiri aðgerðum á þessu sviði, mundi mæta andstöðu, — ekki háskólaráðs, ég vissi, að stuðningur þess var tryggður, heldur að hún skyldi mæta andstöðu innan heimspekideildarinnar, eins og í ljós kom og hefur gert þetta mál allt saman að furðulegum kapítula í sögu heimspekideildarinnar, eins og ég mun víkja nánar að á eftir.

Þegar ég ræddi um það við Einar Bjarnason, hvort hann væri tilbúinn til að taka að sér slíkt embætti sem þetta, kom í ljós, að hann var fús til þess, og var ég honum þá — og er enn — þakklátur fyrir það. Hann taldi sig engu máli skipta, í hvaða deild embættið væri, lagði það algerlega á vald Alþ. samkv. till. ríkisstj. og Háskóla. En því tel ég hiklaust, að beri að fagna, að maður eins og Einar Bjarnason, sem er, eins og ég sagði, ekki aðeins þekktasti og einn merkasti ættfræðingur á Norðurlöndum og þótt víðar væri leitað, heldur einnig frábærlega starfsamur og starfhæfur maður, skuli geta notazt á réttu sviði. Ég tel það fagnaðarefni, að hann skuli hafa gefið kost á því að helga starf sitt, það sem eftir er af hans starfsævi, þessum fræðum fremur en því starfi, sem hann nú gegnir. Um það getur varla verið nokkur ágreiningur, að starfskröftum Einars Bjarnasonar verður betur varið við rannsóknarstörf og kennslustörf á sviði ættfræði en við að endurskoða ríkisreikninga eða hafa yfirumsjón með því.

Hugmyndin um að tengja embættið við nafn Einars Bjarnasonar er ekki mín, svo að allir hv. þm. viti nákvæmlega, hvar upphaf hvers einstaks þáttar í þessu máli er að finna. Þetta er hugmynd háskólarektors eða háskólaráðs. Þess eru dæmi í sögu Háskólans, að embætti hafa verið tengd ákveðnum mönnum. Fordæmi er fyrir því. Ég féllst á þau rök háskólarektors eða háskólaráðs í þessu máli, að ekki væri víst, að jafnótvíræður hæfileikamaður væri síðar til reiðu til þess að sækja um fast embætti í ættfræði við Háskólann og Einar Bjarnason er, og þess vegna væri rétt að láta það liggja undir mati á sínum tíma, þegar Einar Bjarnason næði 70 ára aldri, hvort rétt væri að skipa í embættið áfram. Það yrði auðvitað að vera háð því, hvort hæfur maður fyndist í starfið. En engan hef ég heyrt draga í efa, að Einar Bjarnason hafi menntun og hæfileika til að gegna prófessorsembætti í slíkri grein sem þessari við Háskólann, þennan háskóla og háskóla hvar sem er annars staðar í nálægum löndum.

Um afstöðu til þessa máls hefur heimspekideildin klofnað, eins og hún raunar klofnar um næstum öll mál, sem hún fær til meðferðar. Þykist ég vita, að hv. frsm. minni hl. hafi átt við þá alkunnu staðreynd, þegar hann lét þau orð falla, að ekki væri bætandi á sambúðarvandamál í vissum deildum Háskólans. Það er auðvitað þetta, sem hann átti við. Eru það orð að sönnu, sem hann mælti þar, og hefði gjarnan mátt vera sterkara eða litríkara frá þeirri staðreynd sagt en gert var í hans orðum. En meiri hl. heimspekideildarinnar, þ.e. málfræðingar, bókmenntafræðingur og uppeldisfræðingur, hafa snúizt algerlega gegn því, hafa beinlínis mótmælt því, að embættið yrði stofnað, og bera fram fyrir því nokkrar ástæður, sem ég skal fara örfáum orðum um. Þar segir m.a., að deildin harmi, að mál þetta skuli hafa verið borið fram, án þess að nokkurt samráð hafi verið haft við deildina. Ég vil vekja athygli á því aftur, eins og ég gerði áðan, að þessi ásökun á ekki við um menntmrn. eða ríkisstj. Hún á við um háskólaráð, því að upphaflega var frv. samið af háskólaráði, þ.e. formlega, þó að hugmyndin hafi verið mín. Þá segir þessi meiri hl., þessir 4 kennarar heimspekideildarinnar, og er það fyrsta atriðið í andmælum deildarinnar gegn því, að frv. verði lögfest, með leyfi hæstv. forseta:

„Deildin telur, að enda þótt segja megi, að fræðigrein sú, sem hér er um að ræða, hafi nokkra sérstöðu hérlendis, þá sé hún ekki þess eðlis, að hún geti verið sjálfstæð háskólagrein, með sérstöku prófessorsembætti, enda er deildinni ekki kunnugt um, að við nokkurn háskóla, stóran eða smáan, sé prófessorsembætti í greininni né sérstök kennarastaða af öðru tagi.“

Svo mörg eru þau orð. M.ö.o.: Fjórir kennarar heimspekideildar andmæla því beinlínis, að ættfræði geti talizt vísindagrein, og segja, að sér sé ekki kunnugt um, að nokkurt prófessorsembætti eða kennaraembætti eða nokkur kennarastaða af nokkru tagi sé til í þessari grein. Þessi ummæli þessara fjögurra kennara eru ekki aðeins röng, heldur tel ég þau fullkomlega hneykslanleg, svo hneykslanleg, að það nálgast móðgun við þingnefnd og Alþ. að viðhafa slík ummæli. Háskólakennurum og háskóladeildum ber að sjálfsögðu að vera ríkisstj. og löggjafarsamkomu til ráðuneytis með því að segja satt um þau mál, sem þau láta í ljós skoðun sína um. En hér segja þessir fjórir háskólakennarar ósatt um atriði, sem verulegu máli skiptir, og þessi ranga staðhæfing er uppistaða í afstöðu deildarinnar til frv., sem ekki aðeins ríkisstj. flytur á Alþ., heldur hefur meðmæli alls háskólaráðs og annarra deilda í Háskólanum. Ég vek enn athygli á því, að frv. er upphaflega samið af háskólaráði og hefur efnislega meðmæli þess, burt séð frá því, að skoðanir voru skiptar um það, í hvaða deild þetta nýja embætti skyldi vera. Menntmn. Nd., meiri hl. hennar, hefur í samráði við ríkisstj. lagt til, að frv. verði breytt í það horf, sem háskólaráð óskaði eftir, en samt ber ekki á því, að heimspekideildin treysti sér til að mæla með frv. Ég lít svo á, þangað til annað kemur fram, að heimspekideildin eða þessir kennarar a.m.k. séu enn ósammála frv.

Nú er að víkja að þeirri efnisstaðhæfingu þessara fjögurra kennara deildarinnar, hvort ættfræði geti talizt vísindagrein eða ekki. Ég hef látið athuga ummæli helztu alfræðiorðabóka í Landsbókasafni um þetta efni. Það er stutt skýrsla, en fróðleg fyrir hv. alþm. og allan almenning.

Í þeirri alfræðibók, sem er kunnust Íslendingum, Salmonsens Konversations Leksikon, segir um þetta efni, með leyfi hæstv. forseta: „Ættfræði er þau fræði, sem fjalla um uppruna ættanna og útbreiðslu, um ætterni einstaklinga og önnur ættartengsl. Oft er orðið einnig haft um sjálfa ættartöluna. Auk sjálfstæðrar þýðingar sinnar á ættfræðin hlutverki að gegna í þágu sagnfræðinnar sem afar mikilvæg hjálparvísindi hennar. Ættfræðin, sem er eldri en sagnfræðin, hefur jafnvel verið kölluð móðir hennar. Þar að auki er hún hjálpargrein stærðfræði, lög- og stjórnskipunarfræði, erfðaréttar, ríkiserfðaréttar, líffræði, sálfræði og tölfræði.“

Í annarri kunnri alfræðiorðabók, Bonniers Leksikon, segir: „Ættfræði: ættvísindi, ættarrannsóknir, orðið merkir einnig uppruni ættartalna. Ættfræðin er mikilvæg hjálparvísindagrein sagnfræðinnar og mannfræðinnar. Oft getur hún einnig haft hagnýta lögfræðilega þýðingu.“

Í sjálfri Encyclopædia Britannica segir þetta, með leyfi hæstv. forseta: „Með ættfræði er átt við könnun á uppruna og sögu ætta, svo og gerð ættartalna og forfeðraskráa. Ættfræðin, sem er nátengd skjaldarmerkjafræðinni, kemur einnig að mjög miklum notum fyrir almenna sagnfræðinga. Hún er alþjóðleg, að því er tekur til umfangs og áhugasviðs, og enda þótt nú sé aðallega fengizt við þessi fræði í löndum Evrópu og Ameríku, hafa þau verið stunduð um allan hinn siðmenntaða heim. Þar sem ættfræði er alþjóðleg vísindagrein,“ — ég endurtek, — „þar sem ættfræðin er alþjóðleg vísindagrein, hafa verið gerðar tilraunir til þess að koma á samræmdu kerfi tákna og skammstafana til almennrar notkunar við gerð ættartalna. Fyrsta alþjóðaráðstefnan um skjaldarmerkjafræði og ættfræði, er haldin var í Barcelona árið 1928, átti drjúgan þátt í að efla áhugann á þessum greinum sem alþjóðlegum fræðum. Í mörgum löndum eru nú starfandi félög til eflingar ættfræðirannsóknum, og sums staðar,“ — og nú vek ég athygli hv. alþm. á því, sem segir í Encyclopædia Britannica, — „og sums staðar, t.d. í Þýzkalandi, hafa jafnvel verið stofnuð prófessorsembætti við háskóla í greininni.“ Beri menn þetta saman við ummæli kennaranna fjögurra.

Að síðustu vil ég svo víkja að þýzka heiminum og því, sem segir um ættfræði í hinni alkunnu þýzku alfræðiorðabók, Der Grosse Broekhaus, með leyfi hæstv. forseta: „Ættfræðin, sem einnig er nýtt í líffræðilegum, þjóðfélagsfræðilegum, lögfræðilegum og sagnfræðilegum tilgangi, er samkvæmt aðferð sinni sagnfræðileg hjálparvísindi.“

Eins og allir hv. alþm. heyra, ber öllum þessum fjórum alfræðiorðabókum svo að segja nákvæmlega saman um það að telja ættfræði stuðningsvísindi sagnfræði eða deild í, þátt af sagnfræðivísindum. Þetta tekur af öll tvimæli um það, að fjórir kennarar við heimspekideild Háskólans hafa beinlínis sagt menntmn. Nd. rangt til um eðli ættfræði sem vísindagreinar og staðhæft auk þess, að hvergi nokkurs staðar séu til við nokkurn háskóla, stóran eða smáan, prófessorsembætti í greininni né sérstök kennarastaða af öðru tagi. Þessi staðhæfing er röng, eins og komið hefur fram í því, sem ég hef vitnað hér til. Hér hefur því verið gerð tilraun til að blekkja hv. menntmn. og sjálft Alþingi.

Heimspekideildarkennararnir átta hafa skipzt í tvo jafna hópa. Annar hópurinn, málfræðingar, bókmenntafræðingur og uppeldisfræðingur, hefur lagzt algerlega gegn stofnun embættisins með rökum, sem ég hef nú sýnt fram á að eru röng, eru ósönn. Hinir, sagnfræðingarnir, sem auðvitað er ástæða til að taka miklu meira mark á í þessum efnum, gera sig ekki seka um það hneyksli að lýsa ættfræði ekki vísindagrein. Um það er ekki orð að finna í þeirra umsögn, sem að því leyti er algerlega rétt. Í henni er ekki rangur stafur. Þeir leggja hins vegar ekki til, að frv. nái fram að ganga, vegna þess að prófessorsembættið í ættfræði við deildina sé ótímabært, sem er auðvitað allt annað en hinir kennararnir segja. Þeir benda á, að þeir óski frekar eftir kennaraembættum í öðrum greinum en ættfræði. Út af fyrir sig get ég vel skilið þá ósk þessara kennara, að ef þeir hefðu mátt ráða, hefðu þeir viljað frekar embætti í annarri grein en ættfræði. Um það vil ég ekki deila við þá að einu eða neinu leyti. En ég vek athygli hv. alþm. á því, að hér er ekki verið að stofna nýtt embætti í íslenzka ríkiskerfinu. Það er ekki verið að fjölga starfsmönnum ríkisins. Um það eitt er að ræða að flytja til starfsmann, sem hingað til hefur starfað í Þjóðskjalasafni, bæta aðstöðu hans, hækka laun hans og gera hann að starfsmanni í háskóla til þess að veita honum betri starfsaðstöðu þar. Og hér er um það að ræða, sem er ekki minnst virði, að tryggja starfsaðstöðu eins mesta ættfræðings Íslendinga, tryggja það, að hann helgi þau ár, sem hann á eftir óstarfað, ættfræðistarfi, en ekki öðru starfi, algerlega óskyldu. Þessi er tvenns konar tilgangur frv., annars vegar að tryggja það, að Einar Bjarnason geti helgað sig ættfræðistörfum um nokkur ókomin ár, og hins vegar að bæta aðstöðu þessarar greinar, fyrst ættfræði og síðan mannfræði, við Háskóla Íslands. Að þessu leyti er því afstaða sagnfræðinganna á misskilningi byggð. Ef frv. nær ekki fram að ganga, mun ég að sjálfsögðu þegar í stað skipa í starf æviskrárritarans. Ég mundi gera það í næsta mánuði, eftir að útséð væri um það, að þetta frv. næði fram að ganga. En ég veit, að það er ekki völ á Einari Bjarnasyni í það starf. Það ræður algerlega úrslitum um málið í mínum augum.

Þá segja sagnfræðingarnir í 2. lið, að ekki verði séð, að þetta embætti geti verið venjulegt kennsluembætti, heldur einvörðungu rannsóknarembætti. Þetta er, ég mundi ekki segja einvörðungu rannsóknarembætti, heldur fyrst og fremst rannsóknarembætti. Á því byggist það, að embættið er bundið við hans nafn, þótt gert sé ráð fyrir því, að hann kenni.

Í þriðja og síðasta lagi segja sagnfræðingarnir: „Sjálfsagt hefði verið, að málið hefði verið rætt við deildina, áður en frv. var lagt fyrir Alþ.“ Hér er um mál að eiga við háskólaráð, en ekki við menntmrn.

Ég get vel skilið afstöðu sagnfræðinganna í deildinni og hef ekkert við hana að athuga, nema hvað ég hef leiðrétt misskilning, sem hjá þeim gætir. En afstöðu hinna mannanna, sem eru ekki sagnfræðingar, tel ég, eins og ég sagði áðan, kapítula í sögu heimspekideildar, sem er ekki þessum kennurum til sóma.