14.04.1969
Neðri deild: 76. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1010 í B-deild Alþingistíðinda. (1136)

117. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr. mikið úr þessu, enda er fundartíma bráðlega lokið. En mér segir svo hugur um, að þegar nokkur ár líða, verði þessar umr. hér á hinu háa Alþ. ekki taldar þeim fulltrúum stjórnarandstöðunnar til sóma, sem í þeim hafa tekið þátt, sérstaklega ekki síðasta setning hv. 6. þm. Reykv., sem var raunar endurtekning á því, sem komið hafði fram hjá hv. 4. þm. Reykv. í ræðu hans áðan. Hér er sem sé um það að ræða, að með algerlega ósæmilegum hætti er um það dylgjað, að eitthvað annað en áhugi á íslenzkri ættfræði og íslenzkri mannfræði standi að baki flutningi þessa frv. Ég hafði þó tekið fram í framsöguræðu minni í haust og lagt á það áherzlu í ræðu minni hér áðan, að ég hefði átt þessa hugmynd, að breyta æviskrárritarastarfinu í prófessorsembætti við Háskólann, og rætt um það fyrst við forstöðumann Háskólans, meðlimi erfðafræðinefndar og Einar Bjarnason sjálfan. Það er því enginn dómbærari um það en ég, hvaða hvatir eða hvaða hugmyndir liggi að baki þessu frv. Ég vil segja það og leggja á það sérstaka áherzlu, segja það í fyllstu alvöru og ætlast til þess, að mér sé trúað, að að baki þeirri hugmynd að flytja þetta frv., eins og það upphaflega var og eins og það nú er, er eingöngu sú staðreynd, að mér fannst skynsamlegt að tengja æviskrárritarastarfið því starfi, sem þegar hefur farið fram innan Háskólans og lýtur að mannfræðirannsóknum. Ekkert annað atriði hefur skipt nokkru máli í þessu sambandi. Ég skal ekki hafa um þetta sterkari orð. En ég ætlast til þess, að mér sé trúað varðandi atriði eins og þetta, og vona, að slík ummæli heyrist ekki oftar hér á Alþ. og sjáist ekki á prenti.

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að hann gæti vel tekið undir það að gefa Einari Bjarnasyni kost á að starfa að ættfræði. Einmitt þetta hefur verið skoðun mín og einlægur vilji minn, að koma því til leiðar, að svo gæti orðið, og einmitt með því móti að samþykkja þetta frv. getur það orðið. Það er eini framkvæmanlegi möguleikinn, sem ég hef komið auga á til að tryggja þetta.

Ég skal ekki lengja umr. um það, hvort ættfræði sé vísindagrein eða ekki. Hv. 4. þm. Reykv. virtist vera á þeirri skoðun, sem því miður virðist líka vera skoðun fjögurra kennara við heimspekideildina, að ættfræði sé ekki vísindagrein. Hv. þm. rökstuddi það að vísu með því einu að segja klúra fyndni eftir valinkunnum látnum þm. Það er náttúrlega ekki mikilvægur rökstuðningur. En ég bendi aftur á þá setningu, sem segir í Encyclopædia Britannica, útg. árið 1965, og er svona: „Þar sem ættfræði er alþjóðleg vísindagrein.“ Ég tek ekkert aftur af því, sem ég sagði um álit fjórmenninganna um þetta efni. Í því eru rangar staðhæfingar. Ég skal láta öllu pexi um þetta lokið. En ég vek athygli hv. þm. aftur á því, sem þeir segja í álitsgerð sinni, að ættfræði sé „ekki þess eðlis, að hún geti verið sjálfstæð háskólagrein með sérstöku prófessorsembætti, enda er deildinni ekki kunnugt um, að við nokkurn háskóla, stóran eða smáan, sé prófessorsembætti í greininni né sérstök kennarastaða af öðru tagi.“ Menn geta haft hvaða skoðun sem þeir vilja á heimildarriti eins og Encyclopædia Britannica. Hingað til hefur ekki þótt smekklegt að telja, að þar sé ekki farið með réttar staðreyndir, en þar segir í lok kaflans um ættfræðina, með leyfi hæstv. forseta: „Í mörgum löndum eru nú starfandi félög til eflingar ættfræðirannsóknum og sums staðar, t.d. í Þýzkalandi, hafa jafnvel verið stofnuð prófessorsembætti við háskóla í þeim.“ Það er alveg sama, hvað oft hv. þm. endurtekur, að ættfræði sé ekki vísindagrein, og staðhæfi, að fjórmenningarnir hafi rétt fyrir sér. Þeir hafa rangt fyrir sér.

Hv. 4. þm. Reykv. beindi til mín fsp. og sagðist leggja áherzlu á, að ég svaraði henni. Ég tel mig raunar vera búinn að svara henni með ummælum í tveim ræðum áðan. Ég skal gjarnan endurtaka það í þriðja skipti, en það verður í síðasta skipti, sem ég læt hafa mig til þess að endurtaka hluti, sem ég er búinn að margsegja áður og hv. þm. eiga að vera algerlega ljósir. Hann spurði mig, hvort ég teldi þetta embætti í ættfræði eiga að ganga fyrir öðrum embættum, sem Háskóli Íslands hefur óskað eftir. Ég hef skýrt málavexti. Það á ekki að vera nokkur vafi um það í huga nokkurs þm., hvað hér er um að ræða. Hér er alls ekki um að ræða val á milli embættis í ættfræði annars vegar og t.d. embættis í læknisfræði eða réttarsögu eða hagfræði hins vegar. Hér er um það að ræða að breyta embætti, sem er til við aðra ríkisstofnun, í embætti við Háskólann. Ég hef marglýst yfir, að þessi ráðstöfun er ekki gerð á kostnað áætlunarinnar um kennaraembætti við Háskólann. Þó að þetta frv. næði ekki fram að ganga, leiddi ekki af því, að nokkurt annað embætti yrði stofnað við Háskólann. Ég vil helzt ekki þurfa að segja þessa einföldu staðreynd oftar og ætlast til þess, að loksins sé hún öllum ljós.

Hv. 6. þm. Reykv. vék að erfiðri kennsluaðstöðu í heimspekideild Háskólans. Það er rétt, hún hefur um nokkurt skeið undanfarið verið erfið. Einmitt þess vegna hefur verið unnið að því að bæta hana, og á næsta hausti mun einmitt eiga sér stað alveg sérstök endurbót á kennslu og rannsóknaraðstöðu heimspekideildar, þar sem byggingu Árnagarðs mun þá ljúka. Þar fær Handritastofnunin mikið og mjög veglegt húsnæði, og heimspekideildin mun fá einhverja beztu kennsluaðstöðu, sem nokkur deild í Háskólanum mun þá hafa yfir að ráða, þar sem meiri hl. þessa stórhýsis, sem allir Reykvíkingar eða jafnvel allir landsmenn þekkja, mun verða ætlaður til kennslu og rannsókna við heimspekideildina. Um hagsmuni hennar er alveg sérstaklega hugsað í þessu efni. Bygging Árnagarðs hefur ekki tekið miklu lengri tíma en áætlað var. Það mun verða gerbreyting á kennslu og rannsóknaraðstöðu kennara og nemenda einmitt í heimspekideildinni þegar á næsta hausti.

Kennarafjölgun hefur orðið gífurleg við Háskólann á undanförnum árum. Kennurum Háskólans hefur fjölgað úr 68 í 159 eða um 91 á 12 árum. Og fjárveitingar til Háskólans á þessum sama tíma hafa að raunverulegum verðmætum vaxið um 250%. Þessar staðreyndir finnst mér rétt, að komi fram í tilefni af ummælum hv. 6. þm. Reykv. um starfsaðstöðu við Háskólann.

Að síðustu vil ég aðeins segja þetta: Hv. 6. þm. Reykv. virtist vegna þessa einstaka og mjög sérstæða deilumáls á milli mín og raunar ríkisstj. í heild og hálfrar heimspekideildarinnar hafa tilhneigingu til þess að gera að sérstöku umtalsefni einhver ímynduð sambúðarvandamál milli ríkisstj., jafnvel mín sérstaklega, og Háskólans. Ég skal ekki fjölyrða um þetta mál, en láta það eitt koma fram, að milli mín og Háskólans hafa bókstaflega engin deilumál, sem neinu máli skipta, komið upp öll þau 12–13 ár, sem ég hef gegnt embætti menntmrh. Mér er til efs, að sambúð Háskólans við sitt rn. hafi nokkurn tíma áður í 50 ára sögu hans verið jafnsnurðulaus og hún hefur verið í þau 12–13 ár, sem ég hef gegnt starfi mínu. Ég tel þetta smávægilega deilumál, sem hér hefur komið upp út af hégóma, varla vera umtalsvert, ef talað er um sambúðarvandamál jafnstórrar og merkrar stofnunar og Háskóli Íslands er annars vegar og menntmrn. hins vegar. Það er fullkominn hégómi í samanburði við öll þau mál, sem um hefur þurft að fjalla, margfalt stærri en þessi hégómi, sem hér er um að ræða. Ég skal t.d. geta þess, að ég hef veitt fleiri embætti við Háskólann en nokkur fyrirrennara minna frá fyrstu tíð og alltaf farið eftir till. Háskólans í þeim efnum. Um embættaveitingar hefur aldrei í 12–13 ár orðið árekstur á milli Háskólans og veitingarvaldsins, og er það eini áratugurinn, sem Háskólinn hefur starfað, að slíkt hefur átt sér stað.