17.04.1969
Neðri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1020 í B-deild Alþingistíðinda. (1144)

117. mál, Háskóli Íslands

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð til þess að leiðrétta þau ummæli hv. síðasta ræðumanns, að þetta mál hafi ekki verið lagt formlega fyrir lagadeild fyrr en í gær. Þetta er misskilningur. Málið var rætt áður á 2 fundum í lagadeildinni, að því er bæði rektor Háskólans og forseti lagadeildarinnar tjáðu mér á sínum tíma og endurtóku við mig daginn eftir að umr. fóru hér síðast fram um þetta efni. En ástæða hafði þá ekki þótt til á hvorugum fundinum að gera sérstaka ályktun um málið, en forseti lagadeildarinnar skýrði hins vegar í háskólaráði frá þeirri skoðun lagadeildarinnar, að hún væri því samþykk fyrir sitt leyti, að prófessorsembættið yrði í lagadeild, og forseti lagadeildarinnar greiddi atkv. með þeirri ályktun í háskólaráði, að þess yrði óskað við hið háa Alþ., að prófessorsembættið yrði í lagadeild í stað þess að vera í heimspekideild, eins og ríkisstj. hafði lagt til. Það var því vitað áður, að lagadeildin vildi fyrir sitt leyti samþykkja það, að embættið væri í lagadeild, þótt formleg samþykkt í deildinni lægi ekki fyrir. Þess vegna var það sem fundur var haldinn, ég held í gær, í tilefni af fsp. eins hv. þm. hér, til þess að á því þyrfti enginn vafi að leika, að lagadeildin vildi fyrir sitt leyti samþykkja, að prófessorinn væri í þeirri deild, þótt áður hefði verið gert ráð fyrir öðru.

Hv. þm. sagði enn, að þetta mál væri fjarstæðukennt. Ég þykist vita, að það, sem hann á við í því efni, er það eitt, hvar prófessorinn er staðsettur innan Háskólans. Þessi hv. þm. hefur áður tekið undir það efnislega, að það sé skynsamlegt og eðlilegt að hafa embætti við Háskólann í ættfræði, og hann hefur eins og við var að búast tekið undir eða er mér eins og við er að búast algerlega sammála um sérstaka hæfni Einars Bjarnasonar til þess að gegna slíku embætti. Eina deilumálið í sambandi við þetta er það, hvar prófessorinn skuli vera staðsettur. Hann hefur aldrei sagt, þessi hv. ræðumaður, hvað hann telji rétt í þeim efnum. Ég hef sagt, hvað ég tel rétt í þeim efnum. Ég tel, að maðurinn eigi heima í heimspekideild, enda lagði ég það til í upphafi. Það er hugmynd Háskólans sjálfs og beiðni Háskólans sjálfs, að hann sé ekki í heimspekideild, heldur í lagadeild. Ég taldi rétt að taka það tillit til Háskólans fyrir mitt leyti, að embættið skuli vera í lagadeild, og það, sem þessi hv. þm. og fleiri finna að frv. og í raun og veru gerir það að verkum, að þeir telja það vera fjarstæðukennt, jafnvel hlægilegt, eru till. Háskólans í sambandi við málið, en ekki mínar till. eða till. ríkisstj. Sá þáttur þess, sem gerir málið fjarstæðukennt í hans augum, ef ég hef skilið orð hans rétt, og ég hygg, að öðruvísi sé ekki hægt að skilja þau, eru till. Háskólans í málinu.

En þegar öllu er á botninn hvolft, þá virðumst við hv. 6. þm. Reykv. vera sammála um flest atriði, ef skurnin er tekin utan af efni málsins. Við erum sammála um það, að það sé mjög eðlilegt og tímabært, að stofnað sé við Háskólann embætti í ættfræði sem upphaf að því að efla ættfræði- og erfðafræðirannsóknir við Háskólann. Við erum sammála um það, að Einar Bjarnason sé sérstaklega vel hæfur til þess að taka þetta embætti að sér, og við erum báðir sammála um það, að það sé ekki sú eðlilega skipan, að embættið sé í lagadeild. Við erum sammála um það. En engu að síður hef ég viljað taka það tillit til óska Háskólans í þessu að samþykkja frv. í þessu formi, þó að í sjálfu sér hefði ég kosið að hafa það öðruvísi. Það er hins vegar mjög mikill misskilningur, að meiri hl. þm. sé í raun og veru á móti málinu og það sé verið að beita einhverjum stjórnarþvingunum, einhverjum handjárnum á stuðningsmenn ríkisstj. í málinu. Ég get í því efni skýrt frá því, að þegar málið fyrst bar á góma fyrir meira en ári, áður en það var flutt, ræddi ég málið við forystumenn stjórnarandstöðunnar, vegna þess að ég gerði mér auðvitað ljóst, að þar er um mál að ræða, þar erum við enn sammála, hv. 6. þm. Reykv., sem ekki á skylt við deilur milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Og ég fékk góðar undirtektir undir hugmyndina hjá formönnum þingflokka beggja stjórnarandstöðuflokkanna, góðar undirtektir undir hana. Atvikin hafa hagað því þannig af einhverjum ástæðum, — ég skal engum getum að því leiða, hvað það er, hvort það er tilraun til þess að vera á móti því, sem ríkisstj. beitir sér fyrir eða ráðh. beitir sér fyrir, eða eitthvað annað, ég skal alveg láta það liggja á milli hluta, — að almennt fylgi hefur ekki reynzt fyrir málinu hjá stjórnarandstöðunni. Mér er einnig kunnugt um það, að á meðal stuðningsmanna stjórnarinnar er einhver andstaða gegn málinu. Ég hef ekkert við það að athuga. Hitt eru mér nokkur vonbrigði, að jákvæðar undirtektir formanna þingflokka stjórnarandstöðunnar fyrir rúmu ári hafa reynzt minni á borði heldur en þær voru í orði við mig fyrir rúmu ári. En það verður að sjálfsögðu að hafa sinn gang.

Hitt tel ég mjög miður, ef ágreiningur um það, hvar prófessornum er ætlaður staður innan Háskólans, verður til þess að spilla fyrir máli, sem annars er tvímælalaust þarft mál og gott. Og ég vil enn að síðustu vekja athygli á því, að sú gagnrýni á frv., sem að þessu lýtur, er ekki gagnrýni á skoðun ríkisstj., heldur gagntýni á till. Háskólans.