17.04.1969
Neðri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1022 í B-deild Alþingistíðinda. (1145)

117. mál, Háskóli Íslands

Frsm. meiri hl. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Ég vil aðeins láta það koma fram, að skömmu fyrir jólafrí var samþ. í menntmn., ef ég man rétt, með atkv. allra viðstaddra nm. að senda þetta frv. til umsagnar Háskóla Íslands, og sú umsögn var lögð fram við 2. umr. Við þessa umr. óskaði einn af nm. eftir frekari upplýsingum, og ég skrifaði til Háskólans sem formaður n. og bað um þær upplýsingar og fékk þær. Ég tel, að ég hafi gert þetta í fullu umboði allrar n., þ. á m. 6. þm. Reykv., og hann þurfti ekki af sinni — ja, ég vil ekki segja náttúru að sparka í menn jafnvel fyrir það að framkvæma hans eigin vilja.

Ég vil endurtaka það, að það er skoðun mín, að sá skollaleikur, sem verið hefur hér í sölum Alþ. um þetta frv., sé fyrst og fremst frá stjórnarandstöðunni kominn, eða hvaða ályktanir eiga menn að draga af því. þegar tveir af málglöðustu talsmönnum stjórnarandstöðuflokkanna hefja hér upp stórumr. og nota þetta sem tækifæri til næstum móðursýkislegra árása á menntmrh.? Málsmeðferðin öll ber þess vitni, að þeir eru að reyna að gera málið að pólitísku máli, sem þeir vonast til að hafa pólitískan hagnað af, og þeir hugsa ekki um neitt annað.