17.04.1969
Neðri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1022 í B-deild Alþingistíðinda. (1146)

117. mál, Háskóli Íslands

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Ég á sæti í þeirri n., sem fjallaði um þetta mál, en átti þess ekki kost sökum anna að mæta á þeim fundi eða fundum, sem afgreiddu þetta mál. Mér þykir rétt að láta skoðun mína og afstöðu til málsins koma fram, áður en umr. lýkur, og skal gera það í örstuttu máli.

Ég hef raunar ekki öðlazt skilning á því enn, hvernig unnt sé nema að nafninu til að gera ættfræði að kennslugrein við háskóla, skil það ekki. Ég á enn verra með að skilja, að það sé hægt að gera ættfræði að rannsóknagrein við háskóla, og skortir því allan skilning á eðli málsins. Ég hefði getað skilið þennan frv. flutning, ef það hefði verið um að stofna til mannfræðirannsókna við Háskóla Íslands og sérfræðingur í mannfræði hefði verið hugsaður til starfsins og síðan notuð aðstaða okkar dvergsmáa þjóðfélags og sú þekking, sem hér er til um ættfræði, til aðstoðar við þá háskólagrein. En frv. er ekki um þetta. Efnislega er ég því andvígur málinu í þessu formi, sem það er, og við það bætist svo, að mér finnst alveg furðu gegna sú handabakaafgreiðsla hjá Háskóla Íslands, sem orðið hefur á þessu máli. Leitað er hans umsagnar. Hún kemur jákvæð. Síðan er það borið undir þá háskóladeild, sem málinu var ætlað að eiga heima í, og sú háskóladeild er málinu alveg andvíg og mótmælir — mér skilst meira að segja, að þeir prófessorar í þeirri deild, sem sjaldan geta orðið sammála, hafi orðið sammála um þetta, að í þessari deild ætti málið ekki heima og þeir mótmæli því. Þá er borið niður í annarri deild Háskólans og farið fram á það, að þetta barn verði viðurkennt þar, en það tekur þá þrjá fundi þangað til hægt er að fá út úr þeim jákvætt svar. Ég er þeirrar skoðunar, að þetta mál beri hér ekki rétt að og hafi fengið furðulega afgreiðslu innan Háskólans og efa mjög, að við þjónum þeim mannfræðirannsóknum, sem ástæða væri til að framkvæma á vísindalegan hátt hér á landi með aðstoð þeirrar ættfræðiþekkingar, sem einnig er hér fyrir hendi, með því formi, sem málið er í. Ég lýsi því yfir minni andstöðu við þetta mál og teldi skynsamlegast, að málinu væri kippt til baka.