17.04.1969
Neðri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1023 í B-deild Alþingistíðinda. (1147)

117. mál, Háskóli Íslands

Frsm. minni hl. (Magnús Kjartansson):

Herra forseti. Ræðutíma mínum er raunar lokið samkv. þingsköpum, og ég skal ekki segja mörg orð. En ástæðan til þess, að ég kvaddi mér hljóðs engu að síður, voru ummæli hv. 5. þm. Vesturl., sem voru undarlega hvatvís í minn garð. Hann hélt því fram, að ég hefði sem stjórnarandstæðingur vakið hér upp móðursýkislegar árásir á hæstv. menntmrh. Þessu fer mjög fjarri. Eina ástæðan til þess, að ég tók til máls um þetta mál er sú, að ég á sæti í þeirri n., sem fjallar um þetta frv., og ég tók að mér framsögu fyrir minni hl. þessarar n. Ég var einvörðungu að gegna þingskyldu minni með því að taka þátt í umr. um þetta mál, og ég gerði grein fyrir afstöðu minni til málsins á algerlega málefnalegan hátt og færði til þau rök, sem mér voru tiltæk í fyrstu ræðu minni. Ástæðan til þess, að síðan urðu dálítið einkennilegar umr., var sú, að hæstv. menntmrh. rauk upp með furðulegum árásum á prófessora Háskólans, fjarstadda menn, menn, sem ekki áttu þess nokkurn kost að bera hönd fyrir höfuð sér, og ég taldi ástæðu til þess bæði að mótmæla þessum sjónarmiðum hæstv. ráðh. og að víta þessa framkomu hans, og mér finnst hún enn þá mjög ólík venjulegri framkomu hans. En út af því, sem hæstv. ráðh. sagði áðan, að okkur bæri ekki mikið á milli, þá þykir mér rétt að skýra það örlítið nánar, þó að ég gerði raunar grein fyrir því í fyrstu ræðu minni. Ég sagði þar, að mér hefði þótt skemmtileg sú hugmynd, sem fram hefði komið, að hægt væri að tengja saman hinn feiknalega ættfræðiáhuga Íslendinga og sérstakar rannsóknir á erfðafræði og arfgengum sjúkdómum. Að þessu hefur verið unnið af erfðafræðinefndinni, og ég taldi það í sjálfu sér skynsamlega tilhögun að færa æviskrárritaraembættið, þannig að það nýttist þessari erfðafræðinefnd. En eins og þetta mál liggur nú fyrir, er ekki nokkur minnsta trygging fyrir því, að erfðafræðinefnd nýtist þetta embætti að nokkru minnsta leyti. Í þessu frv. eru ekki nein ákvæði um það, að þessi prófessor eigi að gegna störfum í erfðafræðinefnd. Ég hef talað við menn í erfðafræðinefnd og spurt þá gagngert um þetta, og þeir segjast ekki telja, að þetta frv. sé borið fram í þeirra þágu, og þeir segja, að það sé engin trygging fyrir því, að þeim nýtist þessi nýja skipan. Frv. fjallar einvörðungu um það að stofna prófessorsembætti við lagadeild Háskólans og sá prófessor, sem þar er, á að gegna venjulegum prófessorsstörfum, væntanlega flytja fyrirlestra og gegna rannsóknum, sem hann gerir vafalaust með prýði, en þetta kemur ekkert við hinni upphaflegu hugmynd. Ég bauð hæstv. ráðh. upp á það, þegar ég talaði hér fyrst, hvort við gætum ekki tekið upp samvinnu um það að leysa þetta mál á þann hátt, sem fyrirhugað var í upphafi, með því að tengja þetta við erfðafræðinefndina. Ég er enn þá reiðubúinn til þeirrar samvinnu, ef hæstv. ráðh, sýnist svo.