17.04.1969
Neðri deild: 78. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1032 í B-deild Alþingistíðinda. (1154)

117. mál, Háskóli Íslands

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég sagði í ræðu minni hér áðan, að samkv. upplýsingum, sem ég hefði fengið hjá skrifstofu rektors um tölu prófessora, sem nú starfa við Háskólann, sundurliðað í einstakar deildir, þá væru nú óveittar 7–8 prófessorsstöður við Háskólann. En ég tók það jafnframt fram, að það mundi vera unnið að veitingu sumra þeirra, ég sé ekki hvað margra. Og ég hygg, að ef hæstv. ráðh. kynni sér þetta, komist hann að raun um það, að þessar upplýsingar mínar eru réttar. Það mun vera rétt, að það hefur þegar verið eiginlega fullákveðið að fresta eins og hann taldi um óákveðinn tíma, ég man ekki, hvað hann sagði, veitingu þriggja eða fjögurra prófessorsembætta, en það mun vera unnið að því að auglýsa hin embættin eða að leita eftir mönnum í þau. En eigi að síður var ástandið þannig í dag, að það vantar menn núna í 7–8 prófessorsstöður við Háskólann miðað við þá tölu, sem Alþ. gerir ráð fyrir, þó að það sé verið að vinna að því að veita í sumar þessar stöður, en ekki allar, eins og hæstv. ráðh. viðurkenndi, þar sem hann játaði, að það væri frestað a.m.k. um óákveðinn tíma að veita í þrjár eða fjórar stöður, svo að þetta haggar ekkert því, sem ég sagði hér áðan.

Ég verð að segja það, að ég varð fyrir ákaflega miklum vonbrigðum út af því svari, sem ég fékk hjá hæstv. forsrh., því að venjulega svarar hann mjög skýrt og skilmerkilega. Ég beindi til hans þeirri spurningu, og beindi henni líka til hæstv. menntmrh., af því að þeir eru nú báðir gamlir prófessorar og þekkja vel til við Háskólann, við hvaða háskóladeildir ættfræði væri talin vísindagrein, hvort hún flokkaðist undir lögfræði eða sagnfræði eða erfðafræði eða jafnvel eitthvað allt annað. Þeir halda því fram, að það séu starfandi prófessorar í þessari vísindagrein við erlenda háskóla, og þá ættu þeir að geta upplýst það, við hvaða deildir þessir menn störfuðu. Það er ekkert svar við þessu að segja, að Ari fróði hafi verið vísindamaður og höfundur Landnámu og svoleiðis. Mér finnst það nálgast það að vera að svara alveg út í hött, svo að ég vænti þess að fá skýrar upplýsingar hjá hæstv. ráðh. um þetta efni.