28.04.1969
Efri deild: 79. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1039 í B-deild Alþingistíðinda. (1167)

117. mál, Háskóli Íslands

Pétur Benediktsson:

Herra forseti. Það mun vera sjaldgæft hér á Alþ., að lagafrv. beri að með jafneinkennilegum hætti, eins og hér hefur orðið. Ég hefði kannske getað sparað mér að standa upp eða látið mér nægja að segja í einni setningu, að ég væri hæstv. ráðh. sammála um það, sem hann hafði fram að færa, en sannast sagt fannst mér hann eyða of miklu púðri á andstöðu hinnar lærðu heimspekideildar við Háskólann gegn þessu frv. Það þarf ekkert að sanna mér um það, að það sé til prófessor í ættfræði einhvers staðar úti í löndum; ef ég álít, að það sé þörf fyrir prófessor í ættfræði á Íslandi og að hann geti orðið landinu til gagns og sóma og ánægju (það geta nú ekki allir heimspekiprófessorarnir), þá mundi ég vera tilbúinn til að bera fram á Alþ. till. um stofnun slíks embættis, þótt hún væri algert einsdæmi, og landið yrði þannig öðrum löndum til fyrirmyndar. Og það vill líka svo heppilega til um þetta mál, að a.m.k. til skamms tíma var varla sá fjósakarl eða kararkerling á þessu landi, sem ekki vissi betur en prófessorar heimspekideildarinnar um gildi ættfræðinnar fyrir þetta land. Það er nú víst varla hægt að telja þá stofnun, þar sem ég vinn og fæ mitt lifibrauð, til neinnar sérlegrar erfðafræðistofnunar, en það verð ég að segja, að oft hef ég haft gagn af minni litlu þekkingu á ættfræði í afgreiðslu mála í þeirri stofnun, og sama veit ég, að er um marga á öðrum stöðum.

Að halda fram slíkri bábilju, að ættfræðin eigi ekki heima innan háskóla, er hlægilegt. Í fyrsta lagi er hún hliðargrein við alla erfðafræði, og einn af merkari vísindamönnum Íslendinga á seinni tímum, dr. Helgi Tómasson, hafði einmitt unnið mjög merkt starf á grundvelli ættfræðirannsókna á því, hvort vissar tegundir geðveiki lægju í ættum eða ekki, og gat stuðzt við það, sem þessir lærðu menn vafalaust mundu kalla kerlingabækur, þ.e. hinn einstæða ættarfróðleik þessarar þjóðar. Og það má nærri geta, hvort ekki væri auðveldara að vinna slík verk, ef vísindalegri grundvöllur lægi fyrir.

Það er sómi fyrir þessa hv. þd., sem er svo auðug af lögfræðingum, að sú deild í Háskólanum, þar sem við á sínum tíma stunduðum okkar nám og sumir okkar kenna í dag, skuli hafa haft manndóm. víðsýni og frjálsræði hugans til þess að taka fegins hendi hinni framréttu hönd, að fá fremsta ættfræðing landsins í sína tölu. En áður en ég lýk máli mínu vildi ég aðeins segja, að ég vona, að frv. nái fram að ganga og að hinn nýi ættfræðiprófessor, þegar hann hefur tekið við starfi, gefi sem minnismerki um gikkshátt heimspekideildarinnar út ættartölu allra þessara prófessora, svo að við getum kannske séð, hvaðan þeim kemur þessi merkilega afstaða.