18.12.1968
Neðri deild: 35. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í B-deild Alþingistíðinda. (118)

125. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Með l. nr. 33 frá 1967 var staðfest samkomulag, sem gert hafði verið milli stjórnar Bandalags starfsmanna ríkis og bæja annars vegar og fjmrh. hins vegar. Þetta samkomulag fól í sér, að aðilar settu á laggirnar athugun á heildarskipun starfsmanna í launaflokka, þ.e.a.s. að koma á svo kölluðu kerfisbundnu starfsmati, eins og það er nefnt, og var í samkomulaginu stefnt að því, að þessari heildarendurskoðun yrði lokið í árslok 1968, þ.e.a.s. eigi síðar en 31. des. n. k. Það hefur verið unnið af kappi að þessari athugun, en hins vegar hefur komið í ljós, að henni getur með engu móti verið lokið á þessum tíma, og þess vegna er farið fram á það með því frv., sem hér liggur fyrir, að Alþ. fallist á að breyta nefndum l. á þann hátt, að frestir samkv. þeim lengist um einn mánuð. Hér er um sameiginlega ósk að ræða frá rn. og stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, og vona ég, að hv. þdm. geti á það fallizt. Hér er ekki um eina né neina efnisbreytingu að ræða á nefndum lögum, og af þeim sökum vænti ég einnig, að hv. þd. geti fallizt á að afgreiða málið, án þess að það þurfi að fara til n. Ég bið afsökunar á því, að frv. skuli eigi koma fram fyrr en svo seint sem raun ber vitni um, á allra síðustu dögum þingsins, en það stafar af því, að það var sameiginleg stefna rn. og stjórnar BSRB að reyna að freista þess að ljúka þessari heildarathugun og þess vegna að bíða fram á síðustu stundu í von um, að það gæti orðið. Nú hefur þetta því miður ekki tekizt, og þess vegna hef ég leyfi mér að flytja þetta frv. með beiðni um, að hv. Alþ. fallist á að lengja þessa fresti, því verði þeir ekki lengdir mun það leiða af samkomulaginu, að kjaradómur muni sjálfkrafa taka málið til meðferðar þegar um áramót, án þess að á það reyndi, hvort samkomulag gæti orðið.

Ég leyfi mér, herra forseti, að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr., en eins og ég áðan sagði, að miðað við það, að hér er aðeins um einn smávægilegan tímafrest að ræða, en enga efnisbreytingu á gildandi l., þá vildi ég leyfa mér að vænta þess, að hv. þm. gætu fallizt á að samþykkja það án n.

Hins vegar, ef svo er ekki, þá verður það að sjálfsögðu að ganga sinn gang á þann hátt, en það er höfuðnauðsyn, að frv. geti orðið að lögum nú, áður en þingi lýkur fyrir jól.