28.04.1969
Neðri deild: 82. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1056 í B-deild Alþingistíðinda. (1182)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Barátta Íslendinga fyrir stækkun landhelginnar hefur jafnan haft tvíþættan tilgang. Annars vegar að tryggja landsmönnum einkarétt til veiða á sem stærstum svæðum við landið og hins vegar að tryggja, að við getum sjálfir og einir ráðið því, hvernig miðin eru hagnýtt með það í huga að vernda þau og ekki sízt uppeldisstöðvar fisksins fyrir ofveiði. Útlendingar, sem sóttu til veiða við strendur Íslands, þegar landhelgin var hvað minnst, hugsuðu að sjálfsögðu ekki um framtíð miðanna og framtíðarlífshagsmuni Íslendinga, heldur hafði hvert útgerðarfyrirtæki það fyrst og fremst í huga, að skip þess gætu mokað upp sem allra mestum fiski á sem skemmstum tíma með því að skafa upp með botnvörpu flóa og firði við landið. Barátta okkar Íslendinga fyrir stækkun landhelginnar hefur jafnan verið tengd aukinni friðun þeirra svæða, sem mestu máli skipta fyrir uppvöxt ungfisks, og í röksemdafærslu Íslendinga á alþjóðlegum vettvangi hefur jafnan verið mjög á það bent, að aukin friðun fyrir botnvörpu á uppeldisstöðvum fisksins mundi hafa í för með sér aukinn afrakstur, ekki aðeins innan landhelginnar, heldur einnig utan hennar og ekki aðeins fyrir Íslendinga, heldur og aðrar þjóðir, sem hingað sækja til fiskveiða. Enda þótt við Íslendingar höfum tryggt okkur yfirráðarétt yfir öllum flóum og fjörðum við landið með stækkun landhelginnar, fer því fjarri, að við getum lagt á hilluna þann þátt baráttunnar, sem í stríðinu fyrir aukinni landhelgi fólst í rökstuðningi fyrir nauðsyn á verndun miðanna fyrir ofveiði og sér í lagi verndun uppeldisstöðva og hrygningarsvæða. Í því efni er nú við sjálfa okkur að eiga, og við megum ekki loka augunum fyrir því, að það sjónarmið, sem miklu réði hjá útlendingum, sem hingað stefndu skipum sínum til veiða, að reyna að hrifsa sem mest upp með sem stórvirkustum veiðarfærum án tillits til framtíðarhagsmuna, er vissulega fyrir hendi hjá okkur sjálfum. Það er skylda löggjafans að spyrna við því, að slík ásókn byggð á stundarhagsmunum verði lögvernduð með of rúmum veiðiheimildum á uppeldisstöðvum helztu nytjafiska okkar. Einkum er varhugavert að láta ásókn, sem birzt hefur í gegndarlausum lögbrotum, verða rök fyrir undanslætti frá þeim röksemdum, sem forsvarsmenn þjóðarinnar beittu og bezt dugðu gagnvart útlendingum í baráttunni fyrir verndun fiskimiðanna og auknum yfirráðarétti Íslendinga yfir miðunum við landið.

Þann rúma áratug, sem liðinn er síðan landhelgin var stækkuð í 12 mílur, hefur löggjafinn farið varlega í rýmkun heimilda til veiða með botnvörpu innan landhelginnar. Þar með er ekki sagt, að miðin hafi í sama mæli verið friðuð fyrir ásókn togveiðiskipa, því að öllum er kunnugt um þau stórfelldu lagabrot, sem átt hafa sér stað í þessu efni hvarvetna við landið, ekki síður á uppeldisstöðvum fisksins en annars staðar. Við höfum því aldrei fengið að sjá árangur slíkrar friðunar, sem löggjöfin hefur gert ráð fyrir og ætla má, að unnt væri að ná með raunverulegri friðun uppeldisstöðva fisksins, þó að ekki megi vanmeta áhrif þess, að við höfum losnað við erlend veiðiskip af þessum miðum. Skynsamleg nýting á þeim fiskimiðum, sem Íslendingar hafa öðlazt einkarétt á, er eitt allra mikilsverðasta og vandasamastá úrlausnarefni, sem löggjafinn fær til meðferðar. Vandinn er í því fólginn að finna hinn gullna meðalveg milli þeirra öfgasjónarmiða, sem jafnan eru uppi, annars vegar að loka miðunum svo rækilega, að af þeim fæst ekki sá hámarksarður, sem unnt er að fá, án þess að stofna þeim í nokkra framtíðarhættu, og hins vegar þess sjónarmiðs að beita hömlulaust hinum stórvirkustu veiðitækjum hvarvetna, þar sem hægt er að verða sér úti um stundargróða. Því frv., sem hér liggur fyrir, mun af hálfu þeirra, sem undirbjuggu það, vissulega vera ætlað að þræða hinn gullna meðalveg. Um þann vilja þeirra, sem landhelgisnefndina skipuðu, efast ég ekki hið minnsta. Ég er sammála því meginsjónarmiði, sem í því kemur fram, að fært sé og skynsamlegt að heimila aukna nýtingu landhelginnar til togveiða. Ég hef enga fordóma gegn notkun botnvörpu almennt og er þeirrar skoðunar, að notkun hennar eigi víða á miðunum rétt á sér til jafns við notkun hvers konar annarra veiðarfæra, þótt ég hafi engan veginn trú á því, að með lögfestingu ákvæða um hámarksmöskvastærð sé unnt að tryggja þá verndun smáfisks, sem ýmsir útgerðarmenn og fiskifræðingar halda fram, að sé fyrir hendi.

Það er m.a. vegna þessara skoðana minna á eiginleikum botnvörpu, að ég tel, að með því frv., sem hér liggur fyrir, sé of langt gengið í rýmkun heimilda til veiða með botnvörpu innan landhelginnar. Það er mín skoðun, að þegar við Íslendingar ætlum okkur að rýmka heimildir til veiða innan landhelgi okkar með því veiðarfæri, sem óumdeilanlega átti stærsta þáttinn í því að rýra fiskistofna hér við land, þegar útlendingar beittu því hömlulaust inni í flóum og fjörðum, þá verðum við fyrst og fremst að fara að með gát og stíga fremur of stutt í hverju skrefi en of langt. Og ég legg á það áherzlu, að ég tel, að með þessu frv. sé gengið of langt.

Botnvarpa er að mínum dómi tvíeggjað vopn. Hún getur annars vegar verið okkur drýgri til verðmætasköpunar en nokkurt annað veiðarfæri, ef henni er beitt á réttum stöðum á réttum tíma. Hins vegar getur hún valdið okkur stórfelldum usla og framtíðarspjöllum, ef við heimilum notkun hennar á þeim stöðum, þar sem við þurfum sérstaklega að vernda uppvaxandi fisk. Ég er þeirrar skoðunar, að þau takmörk, sem við setjum við notkun botnvörpu, eigi ekki að miðast við ákveðna fjarlægð frá landi, heldur verði aðstæður að ráða á hverjum stað. Ég sé t.d. ekkert því til fyrirstöðu, að leyfi sé veitt til botnvörpuveiða upp í harða land, þar sem um það er að ræða, að fullvaxinn fiskur gengur alveg upp að ströndinni. Þar sem svo háttar, er eðlilegt og sjálfsagt að nota ódýrasta og fljótvirkasta veiðarfærið til þess að grípa veiðina meðan hún gefst. Hins vegar tel ég jafn sjálfsagt, að uppeldisstöðvar fisks séu verndaðar gegn botnvörpu, en á það þykir mér skorta í þessu frv. Þvert á móti er beinlínis lagt til að leyfa nú botnvörpuveiðar á svæðum, sem ég tel, að friða eigi fyrir botnvörpu. Þegar þess er gætt, hversu mjög auknar heimildir til togveiða í landhelgi felast í þessu frv., hversu stór hafsvæði, sem áður hafa verið eða hafa a.m.k. átt að vera lokuð fyrir togveiðum, eru nú lögð undir löglega botnvörpuveiði, þykir mér algerlega ástæðulaust að ganga því til viðbótar svo langt að ráðast inn í flóa og firði, sem óumdeilanlega eru mikilvægar uppeldisstöðvar nytjafiska. Ég vil í því sambandi sérstaklega leggja áherzlu á, að ég tel, að ekki komi til mála að samþykkja gr. 6 í e-kafla 2. gr. frv., en þar er um að ræða heimild til togveiða inni í miðjum Faxaflóa. Ef skoðaður er uppdráttur á bls. 25 í frv., má sjá, að heimildir til togveiða eru mjög auknar fyrir mynni Faxaflóa og framan við Reykjanesskagann, en óhætt er að fullyrða, að fá veiðisvæði eru nú þegar jafnfullnýtt og Faxaflóasvæðið. Sú mikla viðbót, sem nú er heimiluð til botnvörpuveiði fyrir mynni flóans og milli Reykjaness og Garðskaga, er því að mínum dómi það lengsta, sem hægt er að ganga í því skyni að auka togveiðiheimildir á þessu svæði, en fyrirhugað togveiðisvæði í miðjum Faxaflóa allt inn í svokallaðar Rennur algerlega forkastanlegt. Sama er að segja um þá till. að heimila botnvörpuveiðar uppi í harða land við Snæfellsnes.

Til þess að réttlætanlegt sé að veita slíkar togveiðiheimildir alveg að landi, þarf eins og ég áðan nefndi að vera um það að ræða, að verið sé að seilast eftir fullvaxta fiski, sem gengur alveg upp að landinu. Um það er ekki að ræða á þessu svæði. Sú staðhæfing, sem þessi till. mun byggð á, að þarna sé einungis um stóran fisk að ræða, kemur mér spánskt fyrir sjónir. Ég hef alla tíð heyrt talað um Malarrifsfiskinn heldur sem smáfisk, og í þau skipti, sem ég hef verið með í að veiða við Snæfellsnes, bæði með botnvörpu fyrir allmörgum árum og með handfæri í fyrrasumar, hefur mér virzt aflinn í samræmi við það, smár fiskur, en ekki stór. Ég tel því, að á þessu svæði væri ekki of varlega farið, þótt friðað væri fyrir botnvörpu tveggja mílna breitt svæði frá landi. Víðar við landið kann að vera of langt gengið með frv. þessu, e.t.v. ekki sízt í Breiðafirði, og ég vænti þess, að þm. frá viðkomandi kjördæmum, þeir, sem varlega vilja fara í þessum efnum og ekki vilja einskorða sig við þær kröfur, sem útgerðarmenn togveiðibáta hafa komið inn í þetta frv., geri þau atriði að umræðuefni.

Þegar Íslendingar voru að hefja fyrir alvöru baráttu sína fyrir þeim lífshagsmunum að stækka landhelgina og tryggja viðgang fiskistofnanna með aukinni friðun uppeldisstöðva fyrir botnvörpuveiðum, lögðu þeir fyrst og fremst áherzlu á friðun Faxaflóa fyrir allri botnvörpuveiði. Vísindamönnum okkar, þeim fiskifræðingum, sem mest hafa verið metnir, varð svo mikið ágengt í þessu efni, að sérstök n. fiskifræðinga frá Englandi, Frakklandi, Þýzkalandi, Hollandi, Noregi, Skotlandi, Danmörku og Íslandi, sem unnið hafði um margra ára skeið að rannsókn á Faxaflóa, mælti árið 1946 með friðun flóans til reynslu fyrir allri botnvörpuveiði. Þessi niðurstaða var byggð á rannsóknum, sem fram höfðu farið í flóanum um tveggja áratuga skeið.

Það er eftirminnilegt og athyglisvert, þegar okkur ber nú að minnast þeirrar skyldu okkar við framtíðina að vernda uppeldisstöðvar fisksins, að rifja upp á hvaða, grundvelli þessi n. lagði til, að Faxaflói yrði friðaður, en á bls. 3 í hinni 130 bls. skýrslu Faxaflóanefndarinnar segir svo með leyfi hæstv. forseta:

„Það skal tekið fram, að slík till. um lokun Faxaflóa til reynslu er byggð á þeim grundvelli, að Faxaflói er án alls efa mikilvæg uppeldisstöð, og það, sem sett er fram í þessari skýrslu, er byggt á þeirri staðreynd.“

Og á bls. 4 segir:

„Ef til vill gerist þess ekki þörf að taka það fram, að Íslendingar hafa lengi talið Faxaflóa mjög mikilvæga uppeldisstöð.“ Og á bls. 7 segir, að eins og síðar muni sýnt fram á, sé Faxaflói framúrskarandi uppeldisstöð fyrir fisk og ástæðan fyrir þessu „einstæða gildi flóans,“ eins og það er orðað, sé sú gnægð fæðu, sem þar er fyrir uppvaxandi fisk, þ. á m. sé geysimikið magn af sandsíli, sem hafi mikið gildi sem fæða fyrir nytjafiska.

Það, sem hér hefur verið rakið um gildi Faxaflóa sem uppeldisstöðvar, á fyrst og fremst við um ýsu. kola og lúðu, en um þorsk segir á bls. 8 með leyfi hæstv. forseta:

„Það er alkunn staðreynd, að aðaluppeldissvæði íslenzka þorsksins er kalda sjávarsvæðið fyrir norðan og austan land og á sumum árum eða árstímum að nokkru leyti við Grænland. Samt sem áður hafa fundizt uppeldissvæði, sem nokkurt gildi hafa annars staðar við ströndina, einnig í Faxaflóa. Þrátt fyrir það er aðalgildi flóans fyrir þorskstofninn fólgið í hinu ríkulega magni af fæðu, sem þar er fyrir hendi fyrir þorsk, sem þar fer um.“

Og á bls. 8 segir enn fremur með leyfi hæstv. forseta: „Við getum nú þegar dregið þá ályktun af því, sem getið hefur verið um hér að framan, að aðalgildi Faxaflóa byggist á mikilvægi hans sem uppeldisstöðvar fyrir ýmsar hinar verðmætustu fisktegundir í sjónum við Ísland.“ Enn fremur segir á sömu bls. með leyfi hæstv. forseta: „Varðandi ýsu höfum við næga reynslu við að styðjast til þess að staðhæfa um stórfellt gildi flóans sem uppeldisstöðvar, einkum syðri svæðin.“ Um kola segir á sömu bls.: „Faxaflói er ein mikilvægasta uppeldisstöð fyrir kola á hafsvæðum við Ísland.“ Og á bls. 9 segir enn fremur um kolann með leyfi hæstv. forseta: „Það er enn eitt sönnunargagn, sem staðfestir hina yfirgnæfandi mergð óþroska kola í Faxaflóa, nefnilega ensku skýrslurnar, sem sýna, að hlutfallstala af smáum kola er há.“

Sú samsetning aflans, sem þar er tilgreind af kolaveiði Englendinga á fjögurra ára tímabili, er þannig: Stór koli 5.2%, meðalstór 35.8% og smár 59%.

Um lúðu segir með leyfi hæstv. forseta: „Að því er lúðu varðar er Faxaflói sérstaklega mikilvægur sem uppeldisstöð.“ Og tilgreint er samkv. ensku skýrslunum, að á fjögurra ára veiðitímabili sé skipting lúðuaflans í Faxaflóa eftir stærð þannig: Stór lúða 9.7%, meðalstór 9.4% og smá 80.9%. Hér eru hlutfallstölur miðaðar við þyngd aflans, svo að smæsti fiskurinn er enn stærri hluti hans að tölunni til, og þess er þar að auki getið, að hér vanti mikið magn af lúðu, sem var svo smá, að hún var ekki hirt.

Í framhaldi af þessum upplýsingum er að sjálfsögðu dregin sú ályktun, að með þessari veiði hafi verið um stórfellda eyðileggingu að ræða á þessari uppeldisstöð. Mjög mikið hafi verið drepið af fiski, meðan verðmæti hans hafi verið lítið miðað við það, sem síðar hefði orðið. Þetta virðist nú eiga að fara að löghelga inni í Faxaflóa á nýjan leik, eftir að Íslendingar eiga við sig eina um hagnýtingu þessarar mikilvægu uppeldisstöðvar hinna mestu nytjafiska. Því mun að sjálfsögðu verða haldið fram, að aukin möskvastærð eigi að tryggja, að smælkið sleppi. Af þeirri reynslu, sem ég hef af botnvörpu, get ég ekki sett traust mitt á slíka vernd, sízt varðandi flatfisk. Þótt troða megi smáfiski gegnum möskva á neti, þá er ekki þar með sagt, að sá fiskur sleppi úr því neti meira og minna lokuðu á togi. Sannorður togaraskipstjóri hefur sagt mér, að hann hafi eitt sinn fengið fulla botnvörpu af svo smárri ýsu, að hann taldi 120 stykki ofan í eina vatnsfötu. Enda þótt möskvastærðin muni þá hafa verið 100 mm í stað 130 mm nú, þá mun þeirri möskvastærð án efa hafa verið ætlað að vernda stærri ýsu en þessa, sem þar lét lífið í tugþúsundatali. Þeir, sem sáu aflann, sem togbátarnir fengu við Gróttu s.l. haust og frægt varð, munu án efa treysta varlega þeirri verndun fyrir uppvaxandi fisk, sem eingöngu á að byggjast á lágmarksmöskvastærð botnvörpunnar. Í því sambandi vildi ég enn fremur með leyfi hæstv. forseta fá að lesa örfáar setningar úr grein, sem skipstjórinn á Siglfirðingi, Axel Schiöth, skrifaði í Morgunblaðið hinn 12. marz s.l., þar sem hann greinir frá aflabrögðum s.l. sumar, og efast ég ekki um, að hann hafi verið með löglega möskvastærð á vörpu sinni. Hann segir:

„Fiskiríið hjá okkur í fyrra var 1800 tonn á 9 mánuðum, aðgerður fiskur, þ.e.a.s. það, sem við komum með í land. En úrkast komst upp í 20–30%.“

Það er því ljóst, að í trausti á lágmarksmöskvastærð er ekki hægt að samþykkja að heimila botnvörpuveiðar á mikilvægustu uppeldisstöðvum inni í flóum og fjörðum. Það er rétt, að þeir, sem hugsa sér að samþykkja nú slíkar heimildir á þeim svæðum, geri sér fulla grein fyrir því, jafnvel þótt smæsti fiskurinn sleppi í gegnum botnvörpu, hvaða friðun yrði fyrir slíkan smáfisk á uppeldisstöðvum t.d. í Faxaflóa, eftir að heilum flota togveiðibáta yrði dembt á svæðið og þessum smáfiski ætlað að þvælast í gegnum vörpur þeirra æ ofan í æ án afláts, og hvaða friður yrði með ætið, sandsíli og annað, sem gnægðir eru af í flóanum? Ætli það sé ekki nær að sjá þennan fisk og ætið í friði og njóta síðan afraksturs friðunarinnar í auknum afla togveiðiskipa sem annarra utan við flóa og firði, þegar fiskurinn gengur þangað.

Á bls. 13 í skýrslu Faxaflóanefndarinnar segir um lúðuna, að engin tök séu á að vernda hana með ákvæðum um möskvastærð og þess vegna þekkist engin aðferð, sem gefi eins mikil fyrirheit um viðgang lúðustofnsins og vernd mikilsverðra uppeldisstöðva, en þar er Faxaflói í allra fremstu röð. Þetta ættum við að hafa í huga, þegar landsmönnum er nú að verða æ ljósara, að fisveiðar okkar verða í framtíðinni að byggjast fyrst og fremst á verðmætum afla og góðum, en minna en til þessa á magni eingöngu. Uppeldisstöðvar dýrustu fisktegundanna, lúðu, kola og ýsu, verðum við að vernda sérstaklega, en þar er fyrst og fremst um Faxaflóa að ræða. Við megum ekki láta það henda okkur að ofurselja slíkar stöðvar botnvörpuveiðum, enda þótt við teljum nú tímabært að auka almennt heimildir til botnvörpuveiða á dýpri miðum. Við megum ekki leggja allt að jöfnu, slóðir fullvaxta fisks, sem eðlilegt er og sjálfsagt að veiða með botnvörpu, ef það er árangursríkara og ódýrara en með öðrum veiðarfærum, og svo hins vegar uppeldisstöðvar á grunnsævi í flóum og fjörðum. Ég hef heyrt það svona utan að mér, kannske sagt í gamni og kannske í alvöru, að andstaða mín gegn heimildum til botnvörpuveiða í miðjum Faxaflóa stafi af því, að ég hafi á undanförnum sumrum stundað handfæraveiðar á 9 tonna bát, sem ég á að vísu ekkert í, einmitt á þeim slóðum, sem hér er um að ræða, en því fer fjarri Ég hef í þessu sambandi engra persónulegra hagsmuna að gæta, enda býst ég við, að þegar búið væri að koma þessum smærri bátum hér við flóann, þeir gætu verið líklega eitthvað 50 að tölu, fyrir kattarnef eins og samþykkt þessa frv. óbreytts mundi óhjákvæmilega leiða til, þá væri hægast að ráða sig á einn trollbátinn til þess að fullkomna verkið, sem löggjafinn er hér að hefja og taka þátt í framkvæmd þessarar löggjafar að eyða þeim kvikindum, sem þá kynnu að fyrirfinnast í flóanum.

Bein persónuleg afstaða til þessa frv. kynni þá að felast í því, að óneitanlega er það ánægjulegra að stunda veiðar, sem maður veit með vissu, að eru ekki rányrkja, en að taka þátt í því að skarka með botnsköfu um grunnslóðir, þar sem eru dýrmætar uppeldisstöðvar fiskistofna okkar. Við eigum að hagnýta Faxaflóa á allt annan hátt en þann að skafa þá uppeldisstöð með botnvörpu. Hvort tveggja hefur átt sér stað, að flóinn hefur verið friðaður og hann hefur verið undirlagður botnvörpu og dragnót, og það þarf ekki að deila um það, hver árangurinn varð á hvoru þessara tímabila. Faxaflói var friðaður fyrir botnvörpu og dragnót árið 1952 eftir langvarandi rányrkju, sem leitt hafði til síþverrandi afla. En haustið 1958 segir fiskideild atvinnudeildar Háskólans svo, þar sem skýrð er tafla frá rannsóknum í Faxaflóa, um áhrif friðunarinnar á ýsustofninn:

„Áhrif friðunarinnar koma skýrt fram í aukningu meðallengdarinnar. Hver einstaklingur er orðinn stærri og verðmætari fiskur, þegar hann veiðist. Árið 1955 er meðalþyngd ýsu tæplega sjö sinnum meiri en meðalþyngd 1934–1948. Eftir lokunina 1952 má segja, að stofninn hafi mjög rétt við, og árið 1957 náði heildaraflinn hámarki, en þá voru árgangar þeir, sem notið hafa friðunarinnar, að koma í gagnið fyrir alvöru.“

Þetta sagði atvinnudeildin 1958. Því miður fékk flóinn ekki að njóta friðunarinnar lengi, og síðustu ár hefur auk leyfðra dragnótaveiða átt sér stað ólöglega sú botnvörpuveiði, sem samkv. þessu frv. á nú að löghelga á aðaluppeldisstöðvum dýrmætustu fiskistofna okkar, og mun sú hin fyrirhugaða löglega veiði þá verða stunduð í stórum ríkara mæli en þó hefur átt sér stað með hina ólöglegu undanfarin ár, a.m.k. á meðan einhvern fisk verður að fá, en ólíklegt er, að aflinn endist togbátum lengur en hann hefur enzt dragnótabátum á þessu svæði. Það er furðulegt, að þrátt fyrir augljósar afleiðingar þessara botnvörpu- og dragnótaveiða, sem m.a. birtast í því, að á grynnstu slóðum í flóanum, þar sem góð veiði var á friðunartímabilinu, fæst nú ekki bein úr sjó, þá mælir Hafrannsóknastofnunin með því að löghelga þessar veiðar og notar til þess röksemdir, sem hljóta að hljóma æði furðulega í eyrum sjómanna, eins og t.d. sú staðhæfing, að engin ástæða sé til, að allur smáfiskur verði kynþroska. Nú sé það aðalnauðsynjamálið að grisja stofninn. Hvað hefur breytzt svo mjög, síðan sá sami fiskifræðingur, sem þessu lýsir yfir nú, sagði í grein í Ægi fyrir þremur árum, að það væri eitt mesta áhyggjuefnið, hve stór hluti af þorskveiðinni væri ókynþroska fiskur? Nú er aðalkeppikeflið það að koma í veg fyrir, að of mikið af smáfiski nái kynþroska, aðalkeppikeflið að grisja stofninn. Ég held, að alþm. verði að fara varlega í því að leggja slíkar umsagnir, sem ganga í berhögg hver við aðra, til grundvallar svo varhugaverðum ráðstöfunum að falla frá allri vernd á mikilvægustu uppeldisstöðvum okkar dýrmætustu fiskistofna. Að vísu dregur fiskifræðingurinn nokkuð í land síðar í umsögn sinni um frv., þegar hann segir: „Vitaskuld verður að tryggja, að hrygningarstofninn sé nægilega stór.“ Það er þá ástæða til að spyrja, eru till. þessa frv. um lögverndun botnvörpuveiða á aðaluppeldisstöðvum inni í miðjum Faxaflóa ráðið til þess að tryggja það, tryggja, að hrygningarstofninn sé nægilega stór? Margur sjómaður, sem dýrmæta reynslu hefur öðlazt á langri ævi, mun spyrja þessarar spurningar nú. Til réttlætingar því að heimila botnvörpuveiði upp að landi við Snæfellsnes er því haldið fram, eins og ég hef áður rakið, að þar sé einungis um stóran fisk að ræða. Á sama hátt er því haldið fram, að á svæðinu, sem lagt er til að beina botnvörpunni að inni í miðjum Faxaflóa, sé einungis stór fiskur, og því megi taka þetta svæði undir botnvörpuveiðar. Þær rannsóknir, sem liggja til grundvallar því áliti Faxaflóanefndar árið 1946 að loka flóanum fyrir togveiðum, sýna nokkuð annað. Á bls. 55 í skýrslunni er greint frá togveiðitilraunum í flóanum. Þar kemur í ljós, að á stöð, sem liggur talsvert utar og norðar en þetta svæði, rétt við línu milli Garðskaga og Malarrifs, er ekki nema 10% aflans innan við 55 cm. En hvað um svæðið inni í flóanum? Tvær stöðvar, sem togað var á, voru á þessu svæði, og þar reyndist á annarri stöðinni 47% aflans vera innan við 55 cm en á hinni 74% innan við 55 cm. Þetta var fengið á samtals rúml. 18 klst. togi í maí. Eftir þessu er einkenni botnvörpuaflans á þessu svæði smáfiskur.

Nú kann einhver að segja, að æðilangt sé síðan þessi tilraun fór fram, og rétt er það. En einmitt sú staðreynd, að sambærilegar skýrslur frá síðari tímum liggja ekki fyrir, sýnir, að enginn sómasamlegur grundvöllur er fyrir hendi til þess að knýja það fram að leggja þessa uppeldisstöð undir botnvörpuveiði. Þegar afdrifaríkar ákvarðanir eru teknar um heimildir til botnvörpuveiða inni í miðjum Faxaflóa, er það lágmarkskrafa, að á undan hafi farið fram fullnægjandi rannsóknir, en ekki einungis umsagnir þeirra fiskifræðinga, sem segja eitt í dag og annað á morgun eins og snúningsliprustu hagfræðingar. Ég gerði mér grein fyrir því fyrir alllöngu, að að því drægi fyrr en varði, að útgerðarmenn togveiðibáta hefðu knúið svo á, að lagt yrði fram á Alþ. ámóta frv. og það, sem hér liggur fyrir. Með það í huga flutti ég því till. við afgreiðslu fjárl. fyrir nokkrum árum um það, að í millj. kr. yrði varið til sérstakra fiskirannsókna í Faxaflóa, og ætlaðist til, að um árlega fjárveitingu yrði að ræða í nokkur ár. Ég lagði á það áherzlu í framsögu, að fljótlega kæmi að því, að þm. yrðu að svara því, hvort þeir vildu leyfa botnvörpuveiðar í flóanum, og þá væri þeim brýn nauðsyn á að geta stuðzt við einhverjar raunhæfar og nýjar rannsóknir til þess að geta tekið sjálfstæða afstöðu. Slíkar fiskirannsóknir í flóanum mundu auðvelda þm. ákvörðunina og hlytu að verða grundvöllur þess, ef slíkar veiðar yrðu heimilaðar. Þeir menn, sem nú knýja harðast á um að opna Faxaflóa fyrir togveiðum, töldu sig á engu slíku þurfa að halda, og þessi till. var illu heilli felld. Fiskveiðiþjóðin Íslendingar gat ekki séð af í millj. kr. á ári í nokkur ár til vísindalegra rannsókna á mikilvægustu uppeldisstöðvum fiskistofnanna við landið, enda þótt þær fiskislóðir lægju við bæjardyrnar hjá Hafrannsóknastofnuninni og hæg ættu að vera heimatökin. Ég hef því orðið að halda mig nokkuð við þær rannsóknir, sem Faxaflóanefndin byggði niðurstöðu sína á um friðun flóans, og ég held, að eftir að Alþingi hefur fellt till. um frekari rannsóknir í Faxaflóa, þá höfum við naumast efni á að vísa þeim niðurstöðum á bug. Sú nefnd kveður upp dóm um mismun þess að veiða í Faxaflóa annars vegar með botnvörpu og hins vegar með línu og handfærum. Á bls. 15, þar sem rætt er um það, hvers konar veiðar skuli leyfðar meðan stæði á lokun flóans fyrir botnvörpu, segir svo með leyfi hæstv. forseta:

„Í ritgerð nr. 23 hefur verið dregið saman yfirlit um samsetningu aflans eftir mismunandi veiðarfærum og tegundum fisks. Þar kemur fram, að línuveiði kemur aðeins mjög lítið við yngstu árganga fisksins í flóanum, og sama á við um handfæri. Við línuveiðina er t.d. yfirgnæfandi um að ræða veiði ástórum þorski. Síðan er sú ályktun dregin, að nauðsynlegt sé að loka flóanum fyrir botnvörpu og dragnót, en enginn hagur sé í því að banna önnur tiltekin veiðarfæri, þar sem slík veiðarfæri spilli friðuninni á engan hátt.“

Á bls. 13 er komið að þeirri spurningu, hvers vegna Faxaflói hafi verið valinn sem heppilegasta svæðið til lokunar í tilraunaskyni, og er þar ítrekað það, sem áður hefur verið bent á, og þar er það undirstrikað sérstaklega, að Faxaflói sé frábær uppeldisstöð, sérstaklega fyrir mikilvægustu tegundir neyzlufisks, og upplýst sem dæmi um smáfisksmagnið í flóanum samanborið við önnur svæði, að á 10 togtímum fáist eftirfarandi magn af smáýsu á hinum ýmsu svæðum: Í Faxaflóa 94 stk., við Norðurland 8 stk., við Austurland 6 stk. og við Suðurland 24 stk., og ítrekað er, að það skuli haft í huga, að ekkert svæði sé þekkt, sem hafi jafn yfirburðamikla eiginleika sem uppeldisstöð fyrir ýmsar fisktegundir. Með þetta í huga og það jafnframt, hversu friðun flóans hefur jafnan leitt til aukinnar fiskigengdar, en dragnóta- og botnvörpuveiði þar eytt fiski á grunnslóðum og kippt grunninum undan útgerð smærri báta við Faxaflóa, tel ég það glapræði að ætla nú að lögleiða botnvörpuveiði langt inni í Faxaflóa. Ég er þeirrar skoðunar, að meiri þörf sé nú á því að afnema þær dragnótaveiðar, sem enn eru leyfðar í flóanum, og afnema einnig þær ólöglegu botnvörpuveiðar, sem í ríkum mæli hafa verið stundaðar þar um undanfarin ár. Ef Faxaflóa væri lokað fyrir botnvörpu og dragnót, eru allar líkur á, að fiskigengd mundi aukast þar svo, að auk þess að stuðla að meiri veiði utan flóans væri grundvöllur til þess að byggja upp vænlegan atvinnurekstur þeirra báta, undir 40 tonnum, sem enn eru til á Suðurnesjum, í Hafnarfirði, Kópavogi, Reykjavík, Akranesi og út með Snæfellsnesi, eins og átti sér stað meðan flóinn naut bezt friðunar, og flóinn geti jafnframt verið mikils virði fyrir stærri báta, sem réru með önnur veiðarfæri en botnvörpu og dragnót. Þegar þannig væri búið að græða og rækta upp þetta dýrmæta veiðisvæði, sem er hrein gullkista, ef rétt er að staðið, þyrfti ekki að kvíða atvinnuleysi skólafólks á sumrin á þessu aðalþéttbýlissvæði landsins, þar sem meginhluti skólafólksins býr og erfiðast hefur reynzt að tryggja því sumaratvinnu. Sá fiskur, sem með þeim hætti fengist, væri sá dýrmætasti og bezti, sem fiskvinnslustöðvar gætu átt kost á. Að þeirri þróun ber að stuðla, en hagsmunum stundargróðans verður að vísa frá, honum hefur yfirleitt verið gert of hátt undir höfði og mál að þeirri þróun linni. Ég ítreka það, að ég tel, að það eigi fullan rétt á sér nú að nýta landhelgina betur til togveiða heldur en gert hefur verið, þar sem það á við, en við skulum fara að því með meiri gát en hér er lagt til. Það er ekki fjarri lagi, að Faxaflói, sú uppeldisstöð, sem hann er, sé þegar meira nýttur en nokkurt annað veiðisvæði, og afleiðingarnar eru augljósar þeim, sem vilja hafa augun opin. Við þurfum að friða svo flóann fyrir botnsköfum, að hann verði að nýju sú veiðistöð, sem hann var um skeið, þegar hann naut friðunar og kom íbúum hér inni við botn flóans að þeim notum til lífsframfæris, sem unnt á að vera að tryggja með skynsamlegri nýtingu hans. En vegna fiskleysis hér í flóanum hafa dagróðrabátar hér við innflóann engan veginn getað verið samkeppnisfærir við báta úr öðrum verstöðvum.

Sú skoðun virðist vera nokkuð almenn, að með því að auka togveiðiheimildir og leyfa nú veiðar á þeim svæðum, þar sem þær hafa verið ólöglega stundaðar að undanförnu, þá taki fyrir lögbrot og þau svæði, sem ekki eru samkvæmt frv. ætluð til togveiða, verði í reynd eftir samþ. þess alfriðuð fyrir botnvörpu. Það er mín skoðun, þó að ég vilji standa að aukningu togveiðiheimilda nú, að því miður muni ekki fara svo. Aukning togveiðiheimilda mun því miður ekki hafa það í för með sér, að það taki fyrir lögbrot. Samþ. þessa frv. mun stórauka sókn með botnvörpu, miklu fleiri bátar munu reyna veiðar með botnvörpu, og þær verða stundaðar lengra tímabil af árinu en nú, og víða mun verða þröng á þingi. Ásókn á svæði innan við þau mörk, sem nú á að setja, mun aukast en ekki minnka. Það er því ástæða til þess að gera ráðstafanir til þess að verja þessi svæði meira en nú er gert, og ég vildi gjarnan, að hæstv. dómsmrh. greindi frá því hvort ráðstafanir hafi verið gerðar til aukinna athafna landhelgisgæzlunnar.

Með þessu frv., bæði í grg. þess og í kynningu einstakra nm. á því, fylgja mörg fögur orð um, að nú verði lögbrot ekki lengur látin líðast og eftirlit allt verði mikið og strangt. Allt hljómar þetta líkt og þegar dragnótaveiði var heimiluð á sínum tíma, og ber því að taka öllu slíku með varúð og meira raunsæi nú. Við landhelgisbrot togbáta hefur verið skákað í því skjóli, að yfirvöld treystist ekki til að ganga að fjárvana fyrirtækjum um sektir vegna landhelgisbrota. Ólíklegt er, að hagur þessara fyrirtækja batni snögglega, þótt auknar togveiðar á hagkvæmum veiðisvæðum geti bætt hag þeirra með tíð og tíma. En aðrar leiðir mætti reyna til þess að setja undir lekann, beita ráðum, sem kynnu að duga, án þess að þau færu með fjárhag fyrirtækjanna, sem til þessa hefur ekki verið talið fært að tefla í voða með innheimtu landhelgissekta. Ég held, að það mætti setja í l. ákvæði um, að skipstjóri, sem verður uppvis að ítrekuðu broti á l., missi réttinn til þess að hafa með höndum skipsstjórn við botnvörpuveiðar, og ég mun flytja brtt. við frv. um að taka slík ákvæði inn í l. Ennfremur mun ég svo í samræmi við það, sem ég hef hér rakið, flytja brtt. um það, að ákvæðið um togveiðisvæðið í Faxaflóa verði fellt úr frv., og enn fremur, að togveiðar verði ekki leyfðar nær landi en 2 sjómílur við Snæfellsnes, og þá tel ég einnig ástæðulaust, að l. gildi nema til áramóta 1970 í stað 1971. Ég mun reyna að fá einhverja hv. alþm., sem gætnir vilja vera varðandi botnvörpuveiðar á uppeldisstöðvum og grunnsvæðum, til þess að standa að þessum till. með mér, en auk þessa tel ég nauðsynlegt að tryggja með einhverju móti, t.d. með reglugerðarákvæðum, helzt þó, að það kæmi inn í l., að ákveðið svæði norðvestur af Garðskaga verði friðað tiltekinn tíma ársins, a.m.k. á haustin, fyrir öðrum veiðum en línu og handfærum.

Að þessu frv. hefur verið alllengi unnið og landhelgisn. viðað að sér skoðunum fjölmargra aðila víðs vegar um landið. Nú hefur hún vinzað úr þessu öllu og leggur fram till. sínar í frv.-formi, þegar komið er að þinglokum, og ætlazt er til þess, að það verði drifið í gegn með samskonar vinnubrögðum og önnur mikilvægustu mál eru jafnan afgreidd hér á hv. þingi. Smærri málin eru að dragast hér allan þingtímann, en hin stærstu og veigamestu eru afgreidd á örfáum dögum. Þótt landhelgisn. hafi fengið fram skoðanir fjölmargra aðila, þá hafa þessir aðilar hins vegar ekki kynnzt niðurstöðu n. fyrr en nú, og með þeim vinnubrögðum að ætla að knýja frv. fram fyrir þinglok verður ekki unnt að leita álits nokkurs aðila á því, hvernig til hafi tekizt, og þingm. ætlað að samþykkja frv. án nokkurra slíkra umsagna. Ég tel þetta óeðlileg vinnubrögð, og réttast væri að sýna aðeins frv. nú og geyma til haustsins að afgreiða það, eftir að þm. hefur gefizt meira ráðrúm til þess að meta það og vega, en framlengja hins vegar þau ákvæði um togveiðar, sem gilda í dag. Þessi skoðun mín mun án efa ekki hljóta mikinn hljómgrunn hjá landhelgisn. Nm. virðast hafa bitið sig í það, að málið skuli afgr. á nokkrum dögum og án nokkurra minnstu breytinga. Allar brtt. verða taldar stafa frá hinu illa. Ég verð að segja, að mér þykja þetta ekki viðkunnaleg vinnubrögð í neinu máli, sízt í stórmáli eins og þessu. Sannleikur málsins er sá, og það er rétt að hann komi fram, að til þess er ætlazt, að hv, alþm. taki þessu frv. sem gerðum hlut, ef svo mætti segja, sem ákvörðun um lagasetningu, sem ekki verði haggað eða hnikað í meðförum þingsins. Hér er verið að festa í sessi þá starfsaðferð, að í sumum tilfellum sérfræðingar og í öðrum, eins og nú, sérstakar n. leggi fyrir Alþ. fullmótuð verk, sem hv. alþm. eiga síðan að rétta upp hendina með eða þá á móti, það er erfitt að koma alveg í veg fyrir það, en engu verði breytt. Ég vil sérstaklega skora á þm. að sætta sig ekki við slíka afgreiðslu þessa máls. Hér eru lagðar fram till., frumtill., og það er skylda sérhvers þm. að bera fram hverja þá brtt., sem hann er með sjálfum sér sannfærður um, að eigi rétt á sér, og fylgja brtt., sem hann er sammála. Þetta frv. getur ekki og má ekki njóta neinnar friðhelgi fyrir brtt., eins og borið hefur á, að ætlazt sé til.

Herra forseti, ég minni að lokum á það, sem ég sagði í upphafi máls míns, að barátta okkar Íslendinga fyrir stækkun landhelginnar hefur jafnan verið tengd aukinni friðun þeirra svæða, sem mestu máli skipta fyrir uppvöxt ungfisksins. Þegar við því nú gerum ýmsar eðlilegar till. um aukna nýtingu landhelginnar til botnvörpuveiða, megum við ekki gleyma þessu sjónarmiði með því að heimila botnvörpuveiðar á mikilvægum uppeldisstöðvum inni í flóum og fjörðum. Ég skora því sérstaklega á hv. alþm. að fella úr þessu frv. ákvæði um botnvörpuveiðar inni í miðjum Faxaflóa.