28.04.1969
Neðri deild: 82. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1068 í B-deild Alþingistíðinda. (1184)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég vil strax taka fram til að útiloka misskilning, að ég tala hér ekki sem fulltrúi flokks, mér vitanlega hafa flokkarnir ekki tekið afstöðu til þessa máls, heldur láta hverjum einstökum þm. frjálst að taka þá afstöðu til þess, sem honum finnst réttust. Þetta tel ég góð vinnubrögð, sem ætti að beita í fleiri málum. Samkv. þessu mun ég eingöngu gera grein fyrir persónulegri afstöðu minni til þess frv., sem hér er til umr. Ástæðan til þess, að ég geri þetta strax við 1. umr., er sú, að mér skilst, að það sé nánast formsatriði. að Alþ. fjalli um þetta frv., það sé þegar búið að tryggja fylgi yfirgnæfandi meiri hl. þm. við það og því sé m.a. þýðingarlítið að bera fram brtt. Af þessum ástæðum sé líka tilgangslítið að halda uppi miklum umr. um frv.. og því mun ég aðeins tala við þessa umr. nema sérstakt tilefni gefist til, en afstaða mín til frv. er sú, að ég mun samkvæmt venju greiða atkv. með því, að það fari til 2. umr. og nefndar, en við 2. umr. og 3. umr. mun ég greiða atkv. á móti því nema það óvænta gerist, að á því verði miklar breyt. Ég þarf ekki að flytja langt mál til að gera grein fyrir afstöðu minni gegn frv. Ég álít, að það geti komið til mála að leyfa eitthvað auknar togveiðar innan fiskveiðilandhelginnar, en að allt of langt sé gengið með því frv., sem hér liggur fyrir, og þó alveg sérstaklega suðvestan lands. Ég óttast, að sú stórfellda aukning á togveiðum innan landhelginnar, sem hér er ráðgerð, geti brátt leitt til litlu skárra ástands en var hér fyrir útfærsluna 1952 og 1958. Sá stóri munur er að vísu á þessu, að nú verða það eingöngu Íslendingar, sem stunda þessar veiðar, en hætta fyrir fiskstofnana verður litlu minni. Nú munu miklu fleiri íslenzk skip stunda togveiðar en þá, e.t.v. mest allur flotinn suma tíma ársins. Það má vel vera, að ég sé íhaldssamari heldur en ella í þessum efnum, vegna þess að ég er alinn upp í nágrenni sjóþorpa, þar sem togararnir eyðilögðu bátamiðin ár eftir ár. Ég held, að togveiðarnar nú séu ekki hættuminni heldur en þá. Því er að vísu haldið fram, að möskvarnir hafi verið stækkaðir og meira sleppi því af ungviði en áður. Ég hef þó heyrt frá mörgum sjómönnum, sem hafa haft aðstöðu til þess að fylgjast með þessu dag eftir dag og jafnvel ár eftir ár, að þessi munur sé ekki stórvægilegur, botnvarpa sé enn stórhættuleg fyrir smáfiskinn. Það verð ég líka að segja, að þau rök, sem eru færð fyrir því í meðfylgjandi nál. Hafrannsóknastofnunarinnar, að botnvarpan sé ekkert hættulegri en línan, verði tæpast talin vísindaleg. Það er aðeins vitnað í 4 sýnishorn, og virðast mælingarnar ekki hafa staðið nema í einn eða tvo daga í einu. Svona lauslegan samanburð er vitanlega ekkert að marka. Ef slíkar mælingar eiga að vera teknar alvarlega, þá þurfa þær að hafa staðið tímum og jafnvel langtímum og jafnvel árum saman, og ég held, að það sé líka satt bezt að segja, að Hafrannsóknastofnunina skorti enn nægar undirstöðurannsóknir til slíkra staðhæfinga. Því miður virðast staðhæfingar forystumanns þessarar stofnunar oft stangast á við reynsluna, og vitna ég þar til nál. meiri hl. sjútvn. í Ed. um frv. Jóns Árnasonar varðandi dragnótaveiðar í Faxaflóa. Ég efa ekki, að forystumaður Hafrannsóknastofnunarinnar vildi vel, en eins og aðrir vísindamenn getur hann bundið sig of fast við ákveðnar, umdeildar skoðanir og reynzt meiri kappsmaður en vísindamaður í málflutningi. Það finnst mér því miður einkenna það álit, sem fylgir þessu frv. Því er haldið fram, að samþ. þessa frv. fylgi ekki mikil áhætta. því að lagt sé til, að l. gildi ekki nema til ársloka 1971, þá megi breyta til, ef ástæður þykja til þess. Um þetta atriði vil ég aðeins segja það, að gömul og ný reynsla sýnir, að það er auðveldara að veita leyfi og undanþágur en að fella þær aftur úr gildi. Það kemur fram í grg. frv., að það eigi ekki að skaða neitt sókn okkar í landhelgismálum á erlendum vettvangi, þótt við aukum togveiðar innan landhelginnar. Um þetta atriði vil ég aðeins segja þetta: Öll sókn okkar í landhelgismálinu hefur byggzt á því, að við vildum auka vernd fiskistofnanna, því heita l. frá 1948, sem útfærslurnar 1952 og 1958 byggjast á, lög um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins. Ég held, að það muni ekki bæta aðstöðu okkar til áframhaldandi sóknar í landhelgismálinu, ef í ljós kæmi, að við leyfðum svo miklar togveiðar innan landhelginnar, að gengið væri of nærri fiskistofninum. Ég óttast, að við séum að gera það með þessu frv., og það er ein af ástæðum þess, að ég er á móti því. Ég vil svo segja það að lokum, að sú stefna er að verða ákaflega áhrifarík í íslenzkum þjóðmálum um þessar mundir að hugsa fyrst og fremst um daginn í dag en ekki morgundaginn. Því eyðum við nú sjóðum og sparifé í eldi nýrra og nýrra gengisfellinga, því tökum við nú erlend lán á lán ofan án þess að hafa áhyggjur af því, hvernig okkur muni takast að borga þau. Ég óttast. að við séum með þessu frv. að stíga spor, sem vafalaust samrýmist stundarhagsmunum okkar í dag, en geta hins vegar betur reynzt óstigin á morgun.