02.05.1969
Neðri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1081 í B-deild Alþingistíðinda. (1189)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég veit ekki, hvort rétt er að fara mjög út í hina skörulegu ræðu hv. frsm. sjútvn. Þó kom sitthvað fram þar. sem ástæða hefði verið til að drepa á. Hann byrjaði á að tala um, að hér í hv. deild væru ekki nema sumir, sem hefðu neitt vit á þessu máli. Og mönnum er víst bezt að passa sig að tala nú ekki, þessir, sem ekki hafa vit á því. Sérstaklega fengu Vestfjarðaþingmenn þann vitnisburð (Gripið fram í: Þeir verða þá að fylgja því.) Þeir vita ekki, hverjir það eru, því að hann tilgreindi ekki, hverjir það væru, sem hefðu ekkert vit á því, og hverjir hinir væru. Það vantaði í ræðuna. Sérstaklega fengu Vestfjarðaþm. þann vitnisburð, að þeim væri bezt að hafa sig hæga í þessu máli, og reyndar Norðlendingar líka. Ég veit ekki, hvort þm. almennt taka þetta svo sérstaklega alvarlega, ég skal ekki segja um það. Það vakti athygli mína, þegar hann fór að tala um, að ef samþ. yrði till., sem við flytjum Vestfjarðaþm. um að fella niður hólf á norðanverðum Breiðafirði, og ef fellt væri niður hólf á Faxaflóa, þá yrði að fella niður öll hólfin á Breiðafirði, og þá væri bezt að taka frv. aftur. M.ö.o., ef farið er að samþykkja einhverja brtt. hér, þá verði að samþykkja aðra og svo taka frv. aftur. En svo hendir það hann sjálfan, að hann flytur brtt., og hvernig fer nú, ef hún er samþ.? Þarf þá ekki að samþykkja fleiri og taka svo frv. aftur? Það er erfitt að finna botn í öllu saman. Einna síðast talaði hann um það, að Vestfirðingar hefðu aldrei fengið eins mikinn afla eins og af togveiðum í Breiðafjarðarhólfinu, sem við leggjum til, að falli niður. Aldrei eins mikinn afla og á s.l. hausti. M.ö.o. það er bannað að veiða þar núna, og þarna er hann að bera á Vestfirðinga, að þeir hafi stundað svo miklar veiðar í landhelgi í banni, að þeir hafi aldrei fengið slíkan afla áður. Þetta var nú svona í ofanálag hjá honum. Þeir eru þessir lögbrjótar, jafnvel meiri en nokkrir aðrir eftir þessu að dæma. Ég ætla alveg að láta þetta duga svona til þess að minna á aðalgullkornin í þessari ræðu hans.

Hann minntist líka á það, að Vestfirðingar teldu sig eiga yfirráðarétt yfir Breiðafirði, af því að þeir flytja till. um að fella niður þarna hólf. Ég veit ekki til, að þeir hafi nokkurs staðar haldið því fram, að þeir eigi yfirráðarétt yfir neinu umfram aðra, neinum fiskimiðum við landið umfram aðra, og að neinir eigi neinn sérstakan yfirráðarétt. Ég þekki það ekki, ég er nefnilega alveg sammála honum um það, að það á aldrei að fara að skipta fiskimiðum hér við land á milli ákveðinna staða, og er heldur ekki lagt til í þessu frv.

Ég gat þess við 2. umr. þessa máls, að við Vestfjarðaþm. allir, sem eigum sæti í þessari hv. deild, erum andvígir auknum veiðiheimildum við Húnaflóa, ég minnti á það þá, að Strandamenn hefðu m.a. mætt á fundinum, sem landhelgisn. hélt á Sauðárkróki í vetur, og hefðu mótmælt till. um að heimila togveiðar inni í Húnaflóa. Ég veit ekki betur en þessi skoðun sé ríkjandi á Norðurlandi, vestanverðu a.m.k. Ég þekki heldur ekki neitt dæmi til þess, að komið hafi fram óskir, hvorki frá Vestfjörðum eða Norðurlandi að vestanverðu, um það að teygja togveiðar inn á Húnaflóa, eins og gert er í þessum till. Þess vegna er það, sem við Vestfirðingar ásamt 3 hv. þm. Norðurl. v. flytjum brtt. á þskj. 614, þar sem við leggjum til. að niðurlagsorðin í staflið a — l í 2. grein frv. falli niður, þ.e.a.s. að nýjar veiðiheimildir inni í Húnaflóa komi ekki til, en hins vegar gildi sömu reglur úti fyrir Húnaflóa eins og eiga að gilda úti fyrir Norðurlandi, samkv. ákvæðum þessa frv. Þarna er gerð undantekning um Húnaflóann og teygt sig þar alllangt inn eins og ég hef áður sagt, á móts við Selsker, en við hins vegar erum samþykkir því, að veiðarnar úti fyrir flóanum verði leyfðar eins og eiga að gilda fyrir Norðurlandi, en hér sé engin undantekning gerð.

Þá kem ég að Breiðafirði. Samkv. frv. er lagt til að leyfa botnvörpuveiðar í fyrsta lagi öllum skipum stórum og smáum allt árið um kring á 8 mílna belti að fjögurra mílna mörkunum milli Öndverðarness og Bjargtanga. Þetta mun vera það, sem nú er, og við erum samþykkir því, að þetta haldist. Síðan er lagt til, að á fjögurra mílna belti, sem þá er eftir upp að grunnlínunni, eigi að leyfa botnvörpuveiðar líka öllum skipum af hvaða stærð sem er á norðurhluta Breiðafjarðar 16. september til 1. janúar, eins og felst í frv., en ég vil benda mönnum á sérkort, sem fylgir þessu frv., yfir veiðarnar. Þetta hólf er úti fyrir Breiðafirði og er merkt F2 á sérkorti. Þar stendur á kortinu, að heimilar veiðar frá 16. september til 31. desember séu fyrir skip 105 brúttósmálestir til 350 brúttósmálesta, en þetta er rangt á kortinu. Í frv. sjálfu, og það gildir, er þetta fyrir öll skip af hvaða stærð sem er. Þarna hafa orðið mistök, sem ég hlýt að benda á og er mjög slæmt, að slík mistök verði, því menn átta sig illa á till. n. nema líta jafnframt á kort og sjá, hvernig þessi hólf eru. Þetta hólf, merkt F2, er því fyrir öll skip á þessu tímabili, sem ég nefndi. Og loks á að leyfa 2 hólf inni í Breiðafirði, eins og ég nefndi, hinum smærri fiskibátum, minni en 105 smálesta, syðra svæðið 1. júní til 15. september og nyrðra svæðið 16. september til 31. desember. Með þessum till. yrði þá veiðiheimildin orðin nokkuð langt inn í Breiðafjörð, að mér virðist um 35 mílur frá ytri mörkum núv. fiskveiðilandhelgi. En þegar komið er þar inn fyrir, inn fyrir línu milli Skorar og Búlandshöfða, er harla lítið um fiskimið að ræða, því að eftir því, sem ég veit bezt, eru þau um þetta bil og þar fyrir utan yfirleitt. Það er liðin sú tíð, þegar fiskaðist inni í Bjarneyjaflóa eða yfirleitt þarna í Breiðafirðinum fyrir innan þessa línu. Við Vestfjarðaþm. getum ekki fallizt á, að svo víðtækar veiðiheimildir verði leyfðar, og það er auðvitað vegna þess, að línuveiðar og handfæraveiðar Vestfirðinga, allra báta meira eða minna frá Bolungarvík suður til Patreksfjarðar, sækja á vissum tímum á þessi mið. Ég vil vekja athygli á því, að þegar við Vestfjarðaþm. flytjum slíkar till. sem þessar, þá er það engin uppfinning okkar eða fyrir einhvern sérstakan ókunnugleika, að ég tali nú ekki um heimsku, eins og hér var bent á áðan, heldur er þetta vegna þess, að við höfum kannað rækilega skoðanir útgerðarmanna og sjómanna á Vestfjörðum, og við vitum, hvernig þeir líta á þessi mál. Það er líka eftirtektarvert, að á Ísafjarðarfundinum í vetur með landhelgisnefndinni komu fram óskir aðeins um tvö veiðihólf innan landhelginnar hvað varðaði Vestfirðinga, og við höfum fallizt á bæði þessi hólf þrátt fyrir það, að það voru sárafáar raddir, sem óskuðu eftir þeim, en mjög margir, sem andmæltu þeim harðlega. Við höfum því sannarlega tekið tillit til þeirra, sem vilja fá veiðiheimildir inni í fiskveiðilandhelginni. En ekki ein einasta rödd kom þar fram mér vitanlega um það að fara að opna veiðiheimildir í Húnaflóa eða Breiðafirði, eins og gerðar eru till. um nú. Till. okkar eru vegna reynslu þeirra sjálfra fyrir vestan, sem fyrst og fremst eiga afkomu sína undir fiskveiðum. Þeir eru að hugsa um sjálfa sig, sína eigin hagsmuni, og við þm. erum að reka erindi þeirra hér á Alþ. Allar aðrar aðdróttanir eiga ekki hér heima, og læt ég þær lönd og leið. Það eru þessi tvö hólf á Breiðafirði, sem við eigum mjög erfitt með og getum ekki sætt okkur við fyrir hönd Vestfirðinga, að verði leyfð, þ.e. hólf F2. þar sem öll skip eiga að hafa rétt á vissum tíma til þess að veiða, bæði smá og stór, og það er hólf F4.

Hvað sem hér kann að verða sagt um okkur Vestfjarðaþm. og þm. Norðurl. v., sem flytja till. með okkur um Húnaflóa, held ég, að ekki verði með sanngirni sagt annað en að við förum sem allra nákvæmast eftir þeim skoðunum, sem við þekkjum bezt heima í þessum héruðum, og viljum fylgja þeim fram. Ég vænti því þess, að hv. dm. geti fallizt á þessar till. okkar og það þurfi ekki að fara að draga frv. til baka né hafa áhrif annars staðar við landið, hvað menn samþykkja og hvað menn vilja fella, þó að slíkar till. verði samþykktar frá okkur, enda væri það alveg nýtt, ef frv., sem flutt er á Alþ., fengi ekki fram að ganga eða mætti ekki ganga fram, ef einhver brtt. yrði flutt við það, sem þm. flytur.