02.05.1969
Neðri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1102 í B-deild Alþingistíðinda. (1194)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Geir Gunnarsson:

Herra forseti. Ég er nú hálffeiminn við að taka til máls eftir að sá, sem vitið hefur, hv. frsm. sjútvn., hefur talað, en það er þá bót, að fáir eru áheyrendur, og ég skal ekki við þessa umr. hafa mörg orð um það mál, sem hér liggur fyrir.

Ég gerði við 1. umr grein fyrir skoðunum mínum á því, hverjar breytingar ég teldi óhjákvæmilegar að gera á frv., og hef nú ásamt 8. hv. þm. flutt brtt. í samræmi við það.

Við 1. umr. sagði ég áherzlu á það, að þegar við Íslendingar vorum að hefja fyrir alvöru baráttuna fyrir þeim lífshagsmunum þjóðarinnar að stækka landhelgina og tryggja viðgang fiskistofnanna með aukinni friðun, þá lögðum við, vopnaðir rökum þeirra fiskifræðinga okkar, sem mest hafa verið metnir, fyrst og framst áherzlu á friðun Faxaflóa fyrir allri botnvörpuveiði. Þetta var byggð ániðurstöðum vísindalegra rannsókna, sem staðfestu að Faxaflói er sérstök uppeldisstöð nytjafiska og friðun hans mundi stuðla að auknum vexti fiskistofnanna og aukinni veiði jafnt innan sem utan landhelginnar. Þess vegna hef ég lagt áherzlu á það, að þau ákvæði þessa frv., sem heimila botnvörpuveiði inni í miðjum Faxaflóa, verði felld úr frv.

Ég ætla ekki að fara að rifja upp það, sem ég við 1. umr. rakti úr skýrslum Faxaflóanefndar um mikilvægi Faxaflóa sem uppeldisstöðvar, og þær athuganir, sem staðfesta það. En gegn þessu sjónarmiði hef ég aðallega heyrt tvennu haldið fram, og ég man nú ekki lengur að tilgreina, hvað af því hefur komið fram hér í umr. um þetta mál úr þessum ræðustóli og hvað hefur komið fram, þegar ég hef átt viðræður við einstaka hv. þm. um þetta mál, enda skiptir það ekki öllu.

Fyrra atriðið er, að því er haldið fram, að ekki sé að marka þá ýtarlegu skýrslu Faxaflóanefndar, þar sem því er slegið föstu, að Faxaflói sé sérstök uppeldisstöð sem nauðsynlegt sé að friða. Faxaflói skeri sig á engan hátt úr öðrum svæðum við landið að þessu leyti. Þetta sjónarmið hefur komið fram hjá einstökum þm., en ég legg áherzlu á það, að slíkt hefur ávallt verið staðhæft án nokkurra raka. Það er hins vegar mín skoðun, að ef menn vilja bera brigður á þær niðurstöður rannsókna hinna færustu vísindamanna frá ýmsum þjóðum, sem liggja til grundvallar till. n. um lokun flóans, verða menn að byggja slíka staðhæfingu á einhverjum raunhæfum og raunverulegum rökum, sem eru a.m.k. reist á ámóta rannsóknum og Faxaflóanefndin studdist við og farið höfðu fram í tvo áratugi. engar slíkar rannsóknir, sem afsanna niðurstöðu Faxaflóanefndar eru til, og hv. Alþ. hefur beinlínis fellt till. mína fyrir nokkrum árum, um að slíkar rannsóknir verið látnar fara fram. Ég er mjög fýsandi þess, að slíkar rannsóknir fari fram, og ég er ekki í vafa um, að þær mundu stafesta fyrri rannsóknir, en því miður hafa þær ekki farið fram, og afneitun á niðurstöðum hinna ýtarlegri eldri rannsókna eru bláberar staðhæfingar án minnstu raka.

Þegar hlustað er að slíkar staðhæfingar án nokkurra raka frá mönnum sem ekki hafa einu sinni kynnt sér rannsóknirnar, sem Faxaflóanefndin leggur til grundvallar niðurstöðum sínum, staðhæfingar án raka, þá fer manni sað skiljast, við hvað hv. formaður landhelgisnefndar á með ummælum sínum í nál. með dragnótafrv. því, sem hér liggur fyrir á hv. Alþ., þegar hann segi, að einhverjir Íslendingar kunni að vera á spákonustiginu varðandi þessi mál. Ég veit þá ekki, hvað það er að vera á spákonustiginu í þessum efnum, ef það er ekki að berja höfðinu við steininn, hafna niðurstöðum 20 ára rannsókna, hafna reynslunni af friðun Faxaflóa og styðjast síðan við staðhæfingar einar. Ég hef eins og ég áðan sagði, lagt til, að sérstakar fiskirannsóknir verið látnar fara fram í flóanum, og hefði sú till. verið samþ. á sínum tíma, hefðum við nú við nýrri rannsóknir að styðjast til viðbótar hinum eldri, en meðan svo er ekki og meðan þessar einu rannsóknir eru grundvöllur að niðurstöðu Faxaflóanefndar um það, að flóinn sé sérstök uppeldisstöð, og meðan þær niðurstöður koma heim og saman við reynslu þeirra sem fylgzt hafa með fiskisæld Faxaflóa, þegar hann hefur verið friðaður fyrir botnvörpu og dragnót og ördeyðunni, þegar botnvörpu- og dragnótaveiðar hafa verið stundaðar þar, þá haggar ekkert þeirri skoðun minni, að Faxaflói sé sérstök uppeldisstöð nytjafiska, uppeldisstöð, sem hv. Alþ. ber skylda til að friða fyrir botnvörpuveiðum með tilliti til framtíðarnhagsmuna. Einkum er Faxaflói mikilsverð uppeldisstöð fyrir ýsu, og það er ástæða til að hafa það í huga, þegar minnzt er orða þeirra amerísku aðila, sem hér hafa verið á ferð þessa dagana til athugunar á hráefnisöflun til framleiðslu fiskrétta og viðtal var við í sjónvarpinu nú fyrir fáum dögum. Þeir voru spurðir að því, hvaða fisktegund þeir hefðu mestan áhuga á að fá, og svarið var ýsa, fyrst og fremst. Eigum við nú að fara að samþykkja hér á hv. Alþ. að hleypa heilum flota togveiðibáta inn á aðaluppeldisstöðvar ýsunnar? Ég held, að okkar skylda sé allt önnur og við eigum að fella úr frv. heimildirnar um botnvörpuveiða inni í miðjum Faxaflóa.

Þá hefur það sjónarmið komið fram í umr. um heimild til togveiða inni í flóanum, að þótt Faxaflói kunni að vera uppeldisstöð á heildina litið, þá eigi það ekki við um þetta svæði inni í flóanum. Það sé dýpsta svæðið og þar sé einungis um stærri fisk að ræða , en dýpsta svæðið og þar sé einungis um stærri fisk að ræða, en dýpsta svæðið í Faxaflóa er norðan við þennan bás. Dýpið inni í básnum og inni í Rennunum er ekki meira en 40—50 metrar, eða innan við 30 faðmar, og það er grunnsævi miðað við venjulega veiði með botnvörpu. Eins og ég rakti í ræðu minni við 1. umr., voru gerðar togveiðitilraunir á þessu svæði, þegar þær rannsóknir fóru fram, sem voru grundvöllur að niðurstöðu Faxaflóanefndar, sem mælti með lokun flóans. Ef skoðuð er tafla um veiðina annars vegar norðar og utar í flóanum og dýpra og hins vegar á veiðistöð einmitt á því svæði sem nú er lagt til að opna, þá kemur í ljós, að á ytra svæðinu eru aðeins 10% aflans innan við 55 cm. en á stöðinni inni í básnum, sem nú á að opna , vöru annars vegar 47% innan við 55 cm og hins vegar 74% en 60% af aflanum var innan við 55 cm og hins vegar 74% en 60% af aflanum var innan við 45 cm að stærð. Þessar rannsóknir sýna, að ekki er síður mikilvægt að friða þessa svæði en önnur í flóanum, og sú niðurstaða, að Faxaflói sé mikilsverð uppeldisstöð, á ekki síður við um þetta svæði. Það ber því allt að sama brunni. Ef Alþ. samþykkir nú að leggja miðsvæði Faxaflóa undir botnvörpu, þá erum við að ganga gegn öllum okkar eldri rökum um nauðsyn þess að friða uppeldisstöðvarnar. Sú niðurstaða Faxaflóanefndar hefur ekki verið hrakin, að við botnvörpuveiðar í flóanum hefur verið um stórfellda eyðileggingu að ræða á þessari uppeldisstöð, og mikið magn hefur verið drepið af fiski meðan verðmæti hans var lítið miðað við það, sem síðar hefði orðið. Nú eigum við algerlega við sjálfa okkur og okkur eina um það, hvernig við förum með þessa uppeldisstöð, og það yrði sannarlega óheilladagur, þegar hv. Alþ. samþykkti vitandi vits að löghelga sams konar eyðileggingu á þessum uppeldisstöðvum og Faxaflóanefndin, nefnd vísindamanna fjölmargra þjóða. lagði til, að yrði stöðvuð með því að loka flóanum fyrir botnvörpuveiðum. Friðun Faxaflóa var eitt sin helzta baráttumál hins merka fiskifræðings, Árna heitins Friðrikssonar, og honum tókst með vísindalegum rökum að tryggja atfylgi erlendra vísindamanna við þá stefnu að friða þessa uppeldisstöð í samræmi við lífshagsmuni íslenzku þjóðarinnar. Mundi það ekki vera ærið kaldhæðnisleg niðurstaða, ef stjórnvöld þjóðarinnar vísuðu á bug öllum kenningum þessa vísindamanns og verulegum hluta æfistarfs hans, rétt eftir að þau hafa skírt nýtt fiskleitarskip og fiskirannsóknarskip okkar nafni hans.

Aðalatriðið er þó, að hv. Alþ. ber fyrst og framt skylda til þess nú, þegar það er að samþykkja ýmsar eðlilegar viðbótarheimildir til botnvörpuveiða inni í landhelgi, að ganga ekki jafnframt svo langt að stofna uppeldisstöðvum ungfisks í framtíðarhættu með botnvörpuveiði á uppeldisstöðvum, enda þótt einhverjir sem ætla að gera skip sín út á botnvörpuveiðar, vilji fá sem stært svæði fyrir báta sína til að athafna sig á og það geti verið eðlilegt sjónarmið út af fyrir sig. Við höfum næga og dýra reynslu af því, að slíkar botnvörpuveiðar og botnsköfuveiðar inni í flóum og fjörðum hafi rýrt fiskistofnana og valdið eyðingu á þeim. Ég minni á skýrslu Hafrannsóknarstofnunarinnar frá 1958, um að meðalstærð ýsu, sem veiddist í Faxaflóa 1955 að aflokinni friðun frá árinu 1952, var sjö sinnum meiri en á árunum 1934—1948. Við eigum þess nú kost, þegar eftirspurn eftir ýsu mun stóraukast á mörkuðum okkar, að friða uppeldisstöðvar ýsunnar, og með þeirri friðun eykst aflinn í botnvörpuna á þeim svæðum sem við teljum eðlilegt að veita heimild til að veiða á , og ég vil að lokum segja það, að ég er ekki undrandi á því að engin rök hafa verið færð fram fyrir því, að stætt sé að leyfa botnvörpuveiðar inni í miðjum Faxaflóa. Það leiðir að sjálfu sér, að þau rök hafa ekki komið fram vegna þess að reynsla okkar fyrr og síðar og allar rannsóknir erlendra sem innlendra sérfræðinga sanna það og staðfesta, að það er að sjálfsögðu ekki hægt að færa nein rök fyrir því, að það sé til góðs fyrir viðgang og vöxt fiskistofna við landið að leyfa botnsköfuveiði á uppeldisstöðvum þessa fisks inni í flóum og fjörðum. Fyrir því eru auðvita engin rök til. Öll rök hníga að því að vernda þessi svæði, og hv. Alþ. ber skylda til að gæta hagsmuna allrar þjóðarinnar í þessum efnum. Þess vegna skora ég enn einu sinni á hv. alþm. að fella úr þessu frv. lið E-6 um heimild til botnvörpuveiða inni á miðjum Faxaflóa.