02.05.1969
Neðri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1106 í B-deild Alþingistíðinda. (1196)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var til umr. í hv. deild s.l. föstudag, var gert hlé á umr. með það fyrir augum, að sjútvn. deildarinnar gæti athugað þær brtt., sem fram eru komnar í deildinni við málið. Í morgun var haldinn fundur í sjútvn. og brtt. athugaðar. Það náðist ekki samkomulag um þær allar, en sjútvn. kom sér saman um að flytja sameiginlega brtt. um 4 atriði í frv., og skal ég nú gera grein fyrir þeim brtt. Því miður hefur ekki unnizt tími til að prenta þær, svo ég verð að flytja þær hér skriflega og fara þess á leit við hæstv. forseta, að hann leiti afbrigða fyrir þeim.

1. till. er við 2. gr. frv., lið B6, um að á eftir honum komi nýr liður, sem verði B7 og orðist þannig: „Heimilt er að veiða með botnvörpu og flotvörpu á tímabilinu frá 1. september til 1. nóvember utan línu, sem dregin er í þriggja sjómílna fjarlægð frá grunnlínu (grunnlínupunktar 10—11 ) á svæði, sem takmarkast af línu. sem dregin er réttvísandi austur frá Álftavíkurtanga sunnan Húsavíkur, og línu, sem dregin er réttvísandi austur frá Dalatanga.“

Eins og sést af þessu. er þarna um að ræða að leyfa togveiðar á mjög takmörkuðu svæði við Austfirði á tímabilinu frá 1. september til 1. nóvember, og upplýsti hv. 4. þm. Austf., sem á sæti í sjútvn., að um þetta atriði væri fullt samkomulag milli þm. Austf. Þess vegna tekur sjútvn. upp þessa brtt.

Þá leggur sjútvn. í öðru lagi til þá breyt. við 2. gr., að í stað orðanna „upp að meginlandi“ í lið E8 komi „upp að í sjómílu frá fjörumarki.“ Mér skilst, að við umr. s.l. föstudag hafi það sætt gagnrýni, að á þessum stað átti, samkv. till. landhelgisn., að leyfa að veiða alveg upp að meginlandi, og að þm. Vesturl. hafi óskað eftir, að sú lágmarksbreyt. yrði gerð þar á, að ekki mætti fara nær landi en í sjómílu. Um þessa brtt. er fullt samkomulag í sjútvn.

Í þriðja lagi er lagt til, að í stað orðanna .,til 1. maí“ í liðnum E9 komi „til 15. maí.“ Þessi liður, E9, fjallar um það, að ráðh. skuli heimilt að banna með reglugerð botnvörpu- og flotvörpuveiðar á tímabilinu 1. jan. til I. maí, eftir því sem þörf þykir, á tilteknum svæðum í Faxaflóa. Útgerðarmenn á Suðurnesjum munu hafa átt viðræður við landhelgisn. og óskað eftir því, að þessi tímamörk yrðu miðuð við 15. maí í stað 1. maí, þar sem það félli betur saman við vertíðarlokin í þessum landshluta. Þess vegna hefur sjútvn. tekið þessa till. upp.

Þá kem ég að 4. og síðustu till., sem n. flytur. Hún er flutt meðfram til þess að koma til móts við 2. brtt., sem hér liggur fyrir og flutt er af hv. 6. landsk. þm. o.fl.. varðandi viðurlög gegn brotum á l. Í brtt. hv. 6. landsk. þm. o.fl. er gert ráð fyrir því, ef ég man rétt, að unnt sé að svipta skipstjórnarmenn réttindum til veiða með botnvörpu og flotvörpu ef þeir gerast sekir um ítrekuð brot á l. Þetta fyrirkomulag á refsiákvæðinu þótti sjútvn. ekki alls kostar heppilegt, en n. vill koma til móts við það sjónarmið, sem í brtt. felst, og leggur fram þá brtt., að aftan við 6. gr. l. komi ný málsgrein á þessa leið: „Nú gerist skipstjóri sekur um ítrekuð brot á l. þessum, og er þá heimilt að svipta hann skipstjórnarréttindum um tiltekinn tíma.“

Þarna er að sumu leyti gengið lengra en í till. hv. 6. landsk., þar sem gert er ráð fyrir, að unnt sé að svipta skipstjórnarmann skipstjórnarréttindum um tiltekinn tíma, ef hann gerist sekur um ítrekuð og alvarleg brot á l. Á hinn bóginn er gengið skemmra í þessari till., því að hún gerir aðeins ráð fyrir heimild til þess að beita þessu refsiákvæði, en í till. hv. 6. landsk. þm. o.fl. var það fortakslaust, að það skyldi gert. Ég vil taka það alveg sérstaklega fram, að fyrir sjútvn. vakir með þessari till., að slíkri refsingu verði einungis beitt ef um ítrekuð og mjög alvarleg brot er að ræða.

Ég hef þá, herra forseti, gert grein fyrir þeim brtt., sem sjútvn. er sammála um að leggja fyrir hv. deild. Um aðrar till., sem fram hafa komið við frv., náðist ekki samkomulag í sjútvn. Hlýtur þess vegna að fara um þær sem fara vill og atkvgr. í deildinni að ráða örlögum þeirra.