02.05.1969
Neðri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1109 í B-deild Alþingistíðinda. (1199)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Það var í sambandi við það, sem hv. síðasti ræðumaður sagði hér, hv. 5. þm. Norðurl. v., varðandi Húnaflóann, sem ég vildi segja nokkur orð. Ef litið er á það kort, sem frv. fylgir og prentað er á bls. 6. þá sést það mjög greinilega, að við strendur landsins er um að ræða 3 mjög stóra firði og flóa, þ.e. Faxaflói, Breiðafjörður og Húnaflói. Það kom mjög til álita hjá landhelgisn. að taka einnig hólf fyrir smærri báta inn í Húnaflóa, þar sem togveiðar yrðu leyfðar, annaðhvort tímabundið eða þá allt árið. Það kom einnig til umtals hjá n., að nokkuð svipaðar reglur og nú eru í gildi með þeim bráðabirgðaráðstöfunum, sem gerðar voru fyrir áramót, yrðu látnar halda áfram og teknar upp í það lagafrv., sem hér liggur fyrir, en það var fyrir ábendingu, að ég heyrði, Norðurlandsþm. eða þm. úr Norðurl. v. og einnig Vestf., að ekki voru gerðar róttækari till. heldur varðandi þetta svæði, heldur en um er að ræða í frv. Það var fallið frá því að fara með nokkurt hólf inn í Húnaflóa, og einnig var línan fyrir Norðurlandi færð allverulega út frá því, sem nú er í gildi, en eins og þm. munu vita, þá gildir þar sú regla, að þar má veiða í dag allt upp að 4 mílunum, ef um tiltekna skipastærð er að ræða. Ég hygg því, að það sé óhætt að segja það, að n. í þessu tilfelli hafi gengið eins skammt og frekast var hægt að ætlast til af henni og mikið skemmra heldur en ég hygg, að margir okkar hafi jafnvel viljað, og mikið skemmra heldur en mjög margar ábendingar voru um til n. frá ýmsum aðilum, sem telja sig hafa hagsmuna að gæta í þessu sambandi. Ég mundi því telja mjög miður farið, ef farið væri að gera breyt. á frv. eins og það hefur verið lagt fram að þessu leyti. Varðandi alfriðun Faxaflóa fyrir togveiði, sem nokkuð var rædd hér, þegar frv. var til umr. s.l. föstudag, og einnig það, sem nú kom fram hjá hv. 5. þm. Norðurl. v., þá vil ég benda á, að þær friðunarráðstafanir, sem mjög hefur verið vitnað í, með Faxaflóa. að þá giltu þær reglur, að öllum skipum innlendum sem erlendum var á þeim tíma heimilt að veiða allt upp að 3 mílunum að ég hygg frá ströndu. Möskvastærð, lágmarksstærð möskva, var þá ákveðin 70–80 mm, en er nú ákveðin 130 mm. Það liggur alveg ljóst fyrir, að allt aðrar aðstæður voru fyrir hendi, þegar friðun Faxaflóans fyrir togveiðum var á sínum tíma samþykkt, heldur en eru í dag. Ég held, að menn verði að gera sér þetta ljóst, og einnig það, að í till. n. er aðeins um að ræða eitt litið hólf, aðeins lítinn hluta af öllu Faxaflóasvæðinu. Það hefur verið mjög sótt eftir því af þeim aðilum, sem hagsmuna hafa að gæta, þ.e. útgerðarmönnum hér í Reykjavík, að fá mun víðtækari veiðiheimildir með botnvörpu í Faxaflóa heldur en n. féllst á. Ég hygg því, að þarna hafi verið gætt þess og reynt að fara bil beggja og verða nokkuð við ákveðnum tilmælum þeirra aðila, sem þarna hafa mestra hagsmuna að gæta, og einnig að verða nokkuð við þeim ábendingum, sem fram hafa komið um meiri friðun í Faxaflóa heldur en frv. gerir ráð fyrir. Og ég vil enn undirstrika það, sem ég sagði hér við umr. s.l. föstudag, að ef deildin gerir jafn róttækar breyt. á frv. eins og ég tel, að gert yrði með því að fella út hólfið í Faxaflóa og jafnvel í Breiðafirði, þá er nokkuð búið að raska grundvelli frv., því þær till., sem n. skilaði frá sér og fram koma að mestu leyti óbreyttar í frv., bindast allar saman, það er um að ræða samhangandi auknar veiðiheimildir allt í kringum landið, stórfelld röskun á einum stað hlýtur að þýða það, að grundvellinum undan till. n. er kannske ekki kippt burtu. en honum er breytt. í mjög veigamiklum atriðum, sem ég teldi mjög miður farið. Ég vildi af þeim orðum, sem hv. 5. þm. Norðurl. v. beindi til þm. varðandi Húnaflóa, láta það koma hér fram, að þar er gengið skemmra heldur en víðast hvar annars staðar, og mun skemmra heldur en n. gjarnan hefði viljað og margir aðilar, sem samband höfðu við n., mjög eindregið óskuðu eftir.