02.05.1969
Neðri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1110 í B-deild Alþingistíðinda. (1200)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég mun ekki gera einstök atriði í þessu máli að umtalsefni, en ég get ekki stillt mig um að segja fáein orð, og þá fyrst og fremst til þess að láta í ljósi ánægju mína yfir því, hvernig mþn. hefur unnið að þessu vandasama máli. Mér finnst ásræða til, að það sé tekið eftir því, hvernig n. hefur starfað, vegna þess að það er nokkuð óvenjulegt. Málið er ákaflega erfitt viðfangs og ómögulegt að leysa það nema með víðtæku samkomulagi og óhugsandi, að slíkt samkomulag geti komið til greina nema með gífurlega mikilli undirbúningsvinnu. Þess vegna mega menn ekki álasa n. fyrir það, þó hún hafi, áður en málið kom fyrir Alþ., orðið að eiga mörg viðtöl við einstaka þm. og fleiri um þetta mikilsverða mál, það er síður en svo ástæða til þess. Mál af þessu tagi verða aldrei leyst, þau verða alveg óskapnaður, ef ekki eru viðhöfð einmitt þau vinnubrögð, sem n. hefur tekið upp. Ég álít, að n. hafi unnið þannig, að verk hennar séu til fyrirmyndar. Auðvitað er þetta málamiðlun, sem hér liggur fyrir, t.d. er það þannig með mig, að ég hef alltaf verið ákaflega tregur til þess að vera með nokkurri verulegri opnun fyrir fiskveiði með togveiðarfærum í landhelginni. Ég hefði getað hugsað mér, að það yrði gengið skemmra í því en n. gerir ráð fyrir. Ég hef samt sem áður ákveðið að standa með n. og fylgja henni gegnum þykkt og þunnt í þessu, af þeirri einföldu ástæðu, að ég sé, að ef farið verður að flísa út úr þessari málamiðlun, jafnvel æðistór stykki, þá getur orðið lítið úr því mikla verki. sem í þessu hefur verið unnið, og raunar sú hætta fyrir hendi, að þetta þing geri ekki neitt í þessu máli, sem að mínu viti væri hið mesta slys. Ástandið í þessum efnum hefur verið alveg óviðunandi fyrir alla, og mér liggur við að segja, að sæmd Alþ. liggi nálega við, að hægt verði að komast að niðurstöðu um þetta mál nú á þessu vori, á þessu þingi.

Ég skal ekki hafa þessi orð fleiri. Ég hef með þessu gert grein fyrir mínu viðhorfi til málsins og fer ekki út í einstök atriði. Ég geri ráð fyrir því, áð nálega hver einasti þm. geti ævinlega sagt um mál af þessu tagi, að hann hefði viljað hafa það öðruvísi heldur en það, sem ofan á verður. En öll flókin málaafgreiðsla á Alþ. hlýtur að byggjast á málamiðlunum, ef vel á að fara. Menn mega alls ekki gleyma þessu, og þess vegna má ekki hver um sig fylgja fram með ofurkappi öllum sínum sérsjónarmiðum, því þá getur orðið eins og ég tók fram, hið mesta óhapp. Ég læt þessi fáu orð nægja til að gera grein fyrir afstöðu minni, og ég held, að það væri mjög hyggilegt, að hv. þm. færu eitthvað svipað að í þessu.