02.05.1969
Neðri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í B-deild Alþingistíðinda. (1201)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég gerði grein fyrir afstöðu minni til þessa máls við fyrstu umr. og tel ekki ástæðu til þess að endurtaka það aftur, sem ég sagði þá, en ég vildi, áður en þessari umr. lyki, gera fsp. til hæstv. ríkisstj.:

Er það ekki rétt, sem mér hefur skilizt, að hæstv. ríkisstj. hafi hafið sókn fyrir því á erlendum vettvangi að fá friðaðar vissar mikilvægar uppeldisstöðvar úti fyrir Norðausturlandi, sem eru utan við 12 mílna mörkin?

Það kemur öllum saman um það, að hér er um mjög mikilvægar uppeldisstöðvar fyrir fiskinn að ræða, og þess vegna væri mikilvægt fyrir okkur að fá þetta svæði friðað. Nú vil ég beina þeirri fsp. til hæstv. ríkisstj., og þá sérstaklega þeirra, sem hér eru í fyrirsvari, hvort hún álíti, að það muni verða til þess að bæta fyrir okkur í þessari sókn, ef á sama tíma og við förum fram á að fá þessar uppeldisstöðvar friðaðar, þá beitum við bæði dragnót og botnvörpu gegn engu minna mikilvægum uppeldissvæðum á Faxaflóanum? Ég óttast það fullkomlega, að verði þessum drápstækjum beitt á uppeldisstöðvunum í Faxaflóa á komandi árum, þá verði það til þess að torvelda okkur sóknina fyrir því að fá uppeldisstöðvarnar fyrir Norðausturlandi friðaðar.