02.05.1969
Neðri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í B-deild Alþingistíðinda. (1202)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Björn Pálsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Sunnl. ræddi hér um till. okkar viðvíkjandi Húnaflóa. Satt að segja skil ég ekki í þessum áhuga, eða hverjir voru það, sem vildu endilega fá að veiða langt inn eftir Húnaflóa? Það voru stóru togararnir, það voru ekki bátaeigendur, sem báðu um það. Ég er ekkert á móti því, að þetta svæði yrði leyft fyrir báta, en ég er á móti því, að stóru togurunum sé hleypt svona langt inn eins og gert er ráð fyrir, vegna þess að ég sé enga ástæðu til þess, þeir hafa nóga möguleika til þess að veiða utar. Það eru þeir, sem reka stærri togarana, sem óska eftir því að fá að fara inn í þessa firði, fyrst og fremst. Það eru ekki útgerðarmenn úr okkar kjördæmi, ekki af Vestfjörðum eða úr Húnavatns- og Skagafjarðarsýslum, það eru aðrir aðilar. Nú hefur yfirleitt verið tekið tillit til þess, sem menn hafa óskað á viðkomandi svæðum. Ég er sannfærður um það t.d. á Skagaströnd, að þeir eru mjög mótfallnir því, að það sé þrengt að þessu horni, sem við fengum við breytinguna, sem gerð var 1961, og við fengum friðað þá, og það hefur verið okkur mjög mikils virði. Ég sé enga ástæðu til þess að ganga lengra í þessu efni heldur en þeir menn óska, sem búa í þeim kjördæmum, sem að þessum svæðum liggja, þó einhverjir aðrir, sem hafa önnur veiðarfæri, óski þess. Það er gott og elskulegt að koma sér vel saman, en það er ekki neitt sérstaklega æskilegt að koma sér vel saman um hluti, sem eru skaðlegir. Við þekkjum kýrnar, að þær hafa gaman af því að komast í það, sem þeim er bannað að fara í, og finnst þær tuggurnar miklu betri, og þannig var með Evu sálugu. Þetta hefur verið þannig frá upphafi alda, og þó að stóru togararnir vinni ekki nokkurn skapaðan hlut við það að veiða svona nærri landi, þá langar þá til þess að prófa það. Það er nauðsynlegt fyrir bátana að hafa aðstöðu til þess að veiða á grynnra vatni og nær landi heldur en stóru togararnir, og þess vegna (Gripið fram í.) Þeir hafa gaman af að fara eitthvað, sem þeir halda, að sé bannað að hálfu eða öllu leyti, og ef þið hleypið þeim inn á Breiðafjörð, bátum, sem eru 200–300 lestir að stærð, ef þið myndið geilar fyrir þá inn í Faxaflóa og Breiðafjörð, þurfið þið ekki að ímynda ykkur, þið eruð ekki þau börn, að þeir séu alltaf innan við strikið, það þurfið þið ekki að ímynda ykkur. Hitt er annað mál, að það má vera, að það séu einhver svæði, t.d. hér í Faxaflóa, sem ekki henta fyrir togveiði. Annars verður nú víðast hvar hægt að veiða, þegar þeir koma með flotvörpurnar, þá gerir ekki til, þótt það sé hraunbotn. Það er allt í lagi að skipta þessum svæðum innan landhelginnar, ég var með því, það gat ekki gengið eins og það var, að allir brytu þessa togveiðilöggjöf og menn veiddu alls staðar á tog, það þurfti að skipuleggja þetta. Satt að segja er það einkennilegt með suma. sem voru algerlega á móti nokkrum breyt. fyrir 2–3 árum, að nú vilja þeir leyfa þetta helzt í kringum allt landið, já ég held alveg upp í landsteina. Mér finnst, að það megi nokkuð á milli vera, en það er nauðsyn að skipta þessu, flokka þetta niður, að minni bátarnir, sem ekki hafa aðstöðu til þess að veiða á miklu dýpi með togi, fái viss svæði, stóru skipin önnur, þar sem meira dýpi er og fjarlægari mið, og svo séu einhver viss svæði, þar sem væri bara leyfð lína og færafiskur, og þar á meðal Faxaflóinn. Hann getur komið að fullum notum þannig, og einhvers staðar þarf ýsan að hafa frið til að hrygna. Það er orðið þannig fyrir Suðurlandi, að hún hefur hvergi frið til að hrygna. Um leið og ýsan kemur á sínar hrygningarstöðvar, þá er henni sópað upp, þetta hefur verið þannig mörg ár. Það sást varla ýsa í stofninum fyrir norðan í haust. Við verðum að leyfa fiskinum að hafa í friði sínar hrygningarstöðvar, þar sem bezt er aðstaðan til þess að hrygna, og það hefur verið reynt viðvíkjandi síldinni hér við Suðvesturlandið. Nei, það getur verið æskilegt og gott að flokka þetta niður og alveg sjálfsagt, að við notum landhelgina á sem skynsamlegastan hátt, en ég held, að í þessu frv. sé gengið of langt. það sé óþarft að stærri togurunum sé leyft að fara jafnnærri landi svo að segja allt í kringum landið, og jafnvel stærri bátum. Ég vona því, að þið samþykkið þessa brtt. frá okkur um Húnaflóann, hún mun ekki skaða neinn, því stóru togararnir hafa aðstöðu til að veiða eftir sem áður. Ég veit ekki betur en þeir hafi veitt prýðilega síðustu 2 árin, þó ekki væri farið inn fyrir 12 mílna landhelgi. Þeir hafa veitt óvenjuvel. Hv. 3. þm. Sunnl. var eitthvað að tala um, að það veiddist vel fyrir Suðurlandinu og þeir hefðu togað undanfarin ár. Getur það ekki verið af því, að smáfiskurinn hefur fengið að vera í friði fyrir Norðurlandinu fyrir togveiði, hann hefur alizt þar upp, að hann sé nú að koma á miðin, vegna þess að friðunin var aukin, að hann sé nú að koma á miðin hjá þeim Vestmanneyingum til þess að hrygna og þá njóti þeir góðs af því, að hann fékk að vaxa upp fyrir Norðurlandi? En hversu lengi það stendur, það virðast vera sterkir árgangar nú á ferðinni, sem betur fer, hversu lengi það stendur, skal ég ekki segja um, en við eigum að nota landhelgina skynsamlega. Þó nauðsynlegt sé að veita undanþágur viðvíkjandi togveiðum, þá þurfa að vera einhver takmörk fyrir því. Reynslan ein getur skorið úr til fulls um það, hvað hagkvæmast er í þessu efni. en við skulum ekki ganga allt of langt nú, við verðum einhvers staðar að lofa fiskinum að hafa griðastað til þess að hrygna og vaxa upp.