06.05.1969
Neðri deild: 89. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í B-deild Alþingistíðinda. (1210)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Till. okkar Vestfjarðaþm., svo og þm. Norðurl. v., sem við fluttum við 2. umr. þessa máls, um það að hlífa nokkru af Húnaflóa og Breiðafirði við togveiðum hafa nú allar verið felldar eins og hv. þm. er kunnugt um. En við viljum þó freista þess við þessa síðustu umr. málsins að fá lítið eitt dregið úr þessum togveiðum hvað togara snertir eða stærri skip, þ.e. skip stærri en 350 smálesta. Og leyfum við okkur að flytja í því efni tvær brtt. skriflega við þessa umr.

Fyrri till. er um það, að við staflið A 1 í frv. bætist: „og gildir sú grunnlína fyrir skip 350 brúttósmál. og minni“. Þetta er Húnaflóasvæðið, en þar er meginreglan, eins og mönnum er kunnugt, í frv. fyrir öllu Norðurlandi til Vestfjarða frá Langanesi vestur að Horni hin sama alla þessa leið, nema hvað snertir eina undantekningu, þ.e. um veiðisvæði inni í Húnaflóa. Þar er gripið til gömlu landhelgislínunnar frá 1958, þ.e. línan Horn- Selsker- Ásbúðarrif. Till. okkar fjallar um það, að þetta hólf, sem afmarkast af þessari línu, skuli eiga við skip af þessari stærð upp í 350 smálestir, en ekki stærri skip. Þetta þýðir það, að við förum fram á það, að veiðihólfum í Húnaflóa, sem búið er að samþykkja. verði hlíft við stærri skipunum, hlíft við togveiðum togara eða skipa yfir 350 smálestir að stærð. Síðari brtt., sem við flytjum, er um veiðisvæði F2 fyrir Breiðafirði. En samkv. frv. eiga öll skip að hafa heimild til þess að veiða á þessu svæði á tímabilinu 16. september til 31. desember. En þetta veiðihólf er fjögurra mílna belti upp að grunnlínu sunnan Bjargtanga og alllangt suður fyrir miðjan Breiðafjörð í stefnu á Öndverðarnes. Við leggjum þess vegna til, að þessi heimild nái líka aðeins til skipa 350 smálesta og minni. Og þess vegna verði upphaf stafliðar F 2 í frv. orðað þannig:

„Á tímabilinu 16. september til 1. janúar er skipum 350 brúttólestir og minni heimilt að veiða“ o.s.frv.

Efni þessara beggja till. okkar er því hið sama. Það er það að forða þessum tveimur veiðihólfum frá togveiðum þessara stóru skipa. Engin önnur breyting felst í þessum till. okkar. Því hefur verið mjög haldið hér á lofti, að till. landhelgisnefndar og svo einnig sjútvn. þessarar hv. d. séu samkomulagstill. eða málamiðlunartill. Ég verð að segja það, að við Vestfjarðaþm. og ég ætla þm. Norðurl. v. höfum harla lítið af því að segja, þessari málamiðlun, sem sífellt er verið að halda hér á lofti. Hún kom ekki fram í gær. Það á þá kannske eftir að sýna sig, að hún komi þá fram í dag. Allar okkar brtt. hafa verið felldar. Hins vegar gekk þó sjútvn. nokkuð til samkomulags við þá, sem flytja brtt. við Faxaflóasvæðið, þó að í litlu væri, en ekki í neinu við þær till., sem við höfum flutt, eða þær óskir, sem við höfum borið fram, bæði bréflega og hér í tillöguflutningi á Alþ. Og verði nú þessar brtt. okkar felldar eins og hinar í gær. þá held ég, að menn megi nú spara sér talið um málamiðlunarviðhorfin þeirra. Ég vil leyfa mér að fara þess á leit við hæstv. forseta, eins og reyndar er búið að gera hér áður af öðru tilefni, að stutt fundarhlé verði veitt, til þess að hv. sjútvn. athugi þessar till. okkar, og ég fer fram á það við hann jafnframt, að hann hlutist til um, að n. geri það, því að við viljum ekki á neinn hátt koma í veg fyrir það, að n. geti þá breytt þeim, orðalaginu, að einhverju leyti. Við erum fúsir til samkomulags um það, ef það má frekar verða til þess að koma okkar óskum fram. Ég veit, að það er skammur tími, sem er til stefnu að ljúka þessu máli hér á hv. Alþ., og viljum við í engu hindra það, að málið nái fram að ganga, en ég vona, að hæstv. forseti geti orðið við þessum tilmælum okkar.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara um þetta fleiri orðum. Ég held, að þetta sé nokkurn veginn ljóst. En þessar tvær till. um að forða þessum tveimur veiðihólfum frá ágangi togara eða hinna stærri skipa flytja Sigurvin Einarsson, Matthías Bjarnason, Pálmi Jónsson, Björn Pálsson, Skúli Guðmundsson, Óskar Levy, Steingrímur Pálsson og Jónas Árnason. Afhendi ég svo hæstv. forseta þessar till. með ósk um, að hann leiti afbrigða fyrir þeim.