06.05.1969
Neðri deild: 89. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1124 í B-deild Alþingistíðinda. (1212)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Frsm. (Pétur Sigurðsson):

Herra forseti. Vegna orða, sem féllu hjá hv. síðasta ræðumanni, um að hv. sjútvn. þyrfti að taka till. hans fyrir á fundi þá get ég upplýst það hér til þess að spara hv. form. sjútvn. ómakið, að efnislega var þessi till. kynnt á fundi n. í morgun, og það gildir það sama um þessa till. eins og aðrar, sem þar komu fram, utan þá sem kynnt var af formanni n., að það varð ekki samstaða um hana, og því vísaði sjútvn. henni frá sér með því fororði, að einstakir nm. gætu fylgt henni, ef þeir óskuðu eða greitt atkv. gegn henni. Þess varð vart hér við 2. umr. og reyndar atkvgr. enn frekar, að togarar og togaraútgerð á Íslandi eiga sér fáa formælendur hér, þótt margir hv. þm. hafi á undanförnum mánuðum og misserum talað allfjálglega um þessa útgerð og nauðsyn þess, að hún verði endurreist og henni gefið líf, ef ég mætti orða það þannig. Þetta ber sérstaklega að hafa í huga, þegar við gætum þess, eins og ég hef þegar minnzt á í þessum umr., að hér er verið með þessu frv. m.a. að gefa ákveðnu aldursmarki eða öldruðum skipum af ákveðnum stærðum réttara sagt tækifæri til þess að nýtast betur heldur en gert hefur verið með hliðsjón af því um leið, að þessi skip voru á sínum tíma við útfærslu fiskveiðilögsögunnar útilokuð frá miðum, sem þau höfðu stundað botnvörpuveiðar á um langt árabil. Þessir gömlu togarar okkar, sem við eigum enn í dag og rekum, eru byggðir á þeim tíma, sem obbinn af þessum sama bátaflota er byggður á, og stundaði og var ætlað að stunda veiðar á sama og sömu hafsvæðum eins og þessum bátaflota er nú veitt heimild til samkv. þessu frv. að veiða með botnvörpu á.

Ég geri mér fulla grein fyrir því, að þetta sjónarmið margra hv. þdm. er m.a. til komið af því, að stóra og kannske stærsta ástæðan fyrir því, að farið er í það nú að veita þessar takmörkuðu heimildir til botnvörpuveiða innan fiskveiðilandhelginnar, er sú staðreynd, að okkar fiskvinnsla, fiskiðnaðurinn, þarf á hráefni að halda þeirra sjálfra vegna, byggðarlaganna vegna. atvinnunnar og útgerðarinnar um leið, eins og ég skýrði frá í þeirri ræðu, sem ég flutti hér s.l. föstudag við 2. umr. málsins.

Nú er því ekki að neita, að þetta er gífurlega alvarlegt vandamál hjá okkur um þessar mundir, atvinnuleysið, og ekki sízt í þéttbýlu stöðunum. Ég geri ráð fyrir því, að ef frv. þetta verður samþ. og verður að l. hér í þinginu, muni mikið úr rætast á þeim stöðum, sem hafa styrka og sterka vélbátaútgerð, og kannske sérstaklega á þeim stöðum, sem eiga báta af þeim stærðum, sem dregnir eru fram yfir annan fiskiskipastól landsins og veitt sérréttindi fram yfir önnur skip, að þeirra aðstaða muni mikið batna við það, að þetta frv. verði að l. En hér hefur verið mikið talað um það á Alþ., að það sé atvinnuleysi enn þá, ekki aðeins hér í höfuðborginni og í kaupstöðunum, heldur víða annars staðar um land, og við eigum von á því, að þetta atvinnuleysi kannske aukist frekar en minnki, vegna þess að skólafólk mun koma í mjög stórum mæli á vinnumarkaðinn á mestunni. Þessar ástæður m.a. hafa orsakað fráhvarf margra hv. þm. frá fyrri skoðunum um það, að það ætti að veita þessar heimildir, til þess að við hefðum nægt hráefni fyrir okkar frystihús og fiskvinnslustöðvar, ekki aðeins núna á þessum sumarmánuðum, heldur vetrarmánuðunum líka og alla vega á þeim takmarkaða tíma, sem lagt er til, að lög þessi verði í gildi.

Ég vil freista þess við þessa umr. að flytja skrifl. brtt. Hún er ekki enn komin úr prentun, en till. þessi hljóðar svo, að við 2. gr. bætist ný mgr. svo hljóðandi:

„Á þeim togveiðisvæðum, sem skipum af stærðinni 106 tonn til 350 tonn eru heimilaðar botnvörpuveiðar samkv. grein þessari, eru stærri skipum heimilaðar slíkar veiðar, selji þau afla sinn á innlendum markaði, enda tilkynni þau um löndunarstað áður en veiðiferð hefst.“

Ég viðurkenni, að með þessari till. er mismunurinn og óréttlætið áfram við lýði. Það eru engar kröfur gerðar til þeirra skipa, sem fá þessar takmörkuðu botnvörpuheimildir samkv. frv., um það að þau eigi að landa hér heima. Allt niður í 60–70 tonna Vestmannaeyjabátar geta farið með sinn afla á erlendan markað án þess að skapa nokkra vinnu heima í sínu héraði, eins og það er stundum orðað. Með þessu yrði fyrirbyggt, að þessi afli færi þangað, jafnvel þótt það gæti komið útgerðinni og áhöfninni ákaflega vel vegna þess gífurlega háa verðlags, sem hefur fengizt fyrir þeirra vöru á undanförnum misserum á erlendum mörkuðum. En ég vil meina, að með þessu og sérstaklega nú yfir sumarmánuðina geti orðið af þessu tvöfalt gagn, að togurunum okkar verði veitt heimild til að nota þessi mjög takmörkuðu svæði með smærri skipunum, sem í sjálfu sér eru ekki minna virt sem togveiðiskip heldur en þessir togarar, sem auk þess yrðu mjög fáir hverju sinni á þessum miðum, eða í mesta lagi 7–8, meðan við erum að hleypa allt að 200–300 öðrum togveiðiskipum inn á þessi sömu svæði. Ég geri mér líka fulla grein fyrir því, að togararnir okkar mundu ekki nýta þessi mið nema í mjög takmörkuðum tilfellum, en það kannske gæti munað því, að veiðiferð mundi bera sig, t.d. gætum við hugsað okkur, að þegar ísa rekur frá við austurströnd Grænlands á gjöfulum fiskveiðimiðum þar, ef togari þarf að hrökklast þaðan í burtu, en á kannske eftir 1–2 daga veiðiferð eða þannig stæði hér á um helgi, að ekki væri hægt að fá löndun á einhverjum þeirra staða, sem fiskvinnsla fer fram á, þeir gætu þá notað þann tíma til þess að ljúka þessari veiðiferð áður en þeir lönduðu hér heima til fiskvinnslunnar. Ég geri mér grein fyrir því, að það gætu orðið nokkrir annmarkar á þessu, en ég held, eins og á var bent á fundi sjútvn. í morgun, að annmarkar gagnvart tilkynningarskyldu þessari, sem ég get um í brtt. minni, þurfi ekki að vera neinir, sem teljandi eru. Þeir gætu tilkynnt annars vegar til landhelgisgæzlunnar og/eða rn. síns. að túrinn sé gerður eða fiskveiðiferðin sé gerð til þess að vinna fyrir innlenda hráefnisvinnslu, og í þessu sambandi vil ég líka geta um það, að það er kannske ekki aðeins atvinnulega séð nauðsynlegt að gera þetta, heldur býst ég við, að flestir þm. muni þau dæmi, að almenningur, stjórnmálaflokkar, almenningur og almenningssamtök hafa gert þær kröfur til bæjarútgerða á stöðunum, að skipin væru gerð út ekki aðeins eins og ég sagði til þess að landa hér heima og bæta úr með sinni löndun atvinnuleysinu á þessum stöðum, heldur einnig til þess að afla fiskjar fyrir neytendur í þessum fjölmennu byggðarlögum. Það eru togarar gerðir núna út frá Reykjavík, Akureyri, Siglufirði, Hafnarfirði og Akranesi, og ég geri ráð fyrir því, að það þyrfti ekki endilega og verður að sjálfsögðu ekki endilega bundið við, að þeir landi á þessum stöðum, heldur gætu þeir landað á enn öðrum stöðum, þar sem fiskvinnsla er stunduð, og orðið þess vegna til mikillar hjálpar fyrir atvinnulífið á þeim stöðum.

Herra forseti. Ég vil hafa sama fyrirvara á eins og þeir aðrir, sem hér hafa flutt till. Ég vil óska eftir því, að forseti leiti afbrigða fyrir þessari skrifl. brtt., sem ég leyfi mér hér með að flytja.