06.05.1969
Neðri deild: 89. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1127 í B-deild Alþingistíðinda. (1214)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég býst við því, að það hafi verið nokkurn veginn sameiginleg skoðun allra alþm., að þessi mál væru komin í mikið óefni og það þyrfti að ná samkomulagi til þess að koma þeim í betra lag á þann veg, að lög og reglur væru virtar, en það hefur ekki verið gert af fjölmörgum skipstjórum og útvegsmönnum á undanförnum árum, og sá sjúkdómur hefur verið að breiðast út um landið að virða ekki gildandi lög og reglur, og því voru menn yfirleitt á þeirri skoðun, að það ætti að endurskoða þessi mál og reyna að ná sem víðtækustu samstarfi til lausnar þessum vanda.

Ég var einn þeirra þm., sem, þrátt fyrir mínar skoðanir á því að auka leyfi til veiða með botnvörpu innan landhelginnar, að það væri óæskilegt, hefði verið tilbúinn til samkomulags í þessu máli, en eins og landhelgisnefndin og meiri hl. sjútvn. þessarar hv. d. hefur haldið á þessu máli, er nú svo komið eða var við 2. umr., að maður var knúinn til þess að snúast gegn þessu frv. vegna þess, að það örlaði ekki á sanngirni frá hendi landhelgisnefndarinnar eða meiri hl. sjútvn. fyrir þeim málstað, sem við vorum að berjast hér fyrir, þm. úr nokkrum byggðarlögum, sem mynduðum samtök um það að reyna að fá einhverja leiðréttingu á þessum málum. Og sérstaklega gengu tveir menn fram fyrir skjöldu, frsm. sjútvn. hér á föstudaginn, en þó má segja, að hv. 4. þm. Austf. hafi bitið höfuðið af skömminni með ræðu sinni hér í gær, enda kláraði hann með sinni ræðu það, sem hinn ekki kláraði á föstudaginn var, að snúa mönnum gegn frv. Oflátungshátturinn var takmarkalaus í þessum hv. þm., og það má segja það með þessa landhelgisnefnd, að hún hefur litið einhvern veginn svo á sín störf, að hún ætti að hafa hér föðurlega forsjá með öðrum þm. og þeir einir hefðu vit á þessum málum og aðrir ekki. Þeir lögðu að vísu land undir fót og héldu fundi og hlustuðu á menn út um land. En þeir hafa bara lítið gert úr því. Þeir voru, þessir menn, með botnsköfusjónarmiðin sín. Þeir voru skipaðir í þessa n., og þeir hafa ekkert fallið frá þessum botnsköfusjónarmiðum. Þeir hafa heldur reynt að herða á, þangað til í gær, að þeir hurfu frá því, að það mætti skafa upp í fjörusteina fyrir Snæfellsnesi, og ætla nú að veita hvíld eina mílu frá Nesi. Þeir hafa sennilega heyrt um manninn, sem keypti sér dragnótarspilið og setti það upp á eyðijörð og kastaði nótinni út. Þeir ætla sennilega að koma í veg fyrir, að hann geti fiskað frá landi, eins og hann gerði á s.l. ári. Það er víst það eina, sem hefur komið fram frá þessari hv. landhelgisnefnd, sem nokkrum hefur orðið á að hæla mjög fyrir hennar störf, sérstaklega fyrir það, hvað hún hefur haldið marga fundi. Og landhelgisnefndin hefur fengið nýja samherja í botnvörpusköfu, og menn, sem eru komnir á sjötugs aldur, hafa nú lagt það á sig að skoða botnvörpu í fyrsta skipti og orðið svo yfir sig hrifnir, að þeir hafa ekki annað eins veiðarfæri séð, eins og nýlega átti sér stað með einn af höfuðleiðtogum annars stjórnarandstöðuflokksins.

Ég vil segja það, að ég tel, að landhelgisnefndin og þá um leið meiri hl. sjútvn. hafi hreinlega gengið í berhögg við sanngjörn sjónarmið til lausnar þessu máli, og til þess að staðfesta þessi orð mín ætla ég að leyfa mér að vísa til bréfs, sem við þm. Vestf. skrifuðum þessari frægu og miklu n. 24. marz s.l., og náðum við allir samstöðu um það bréf og þá skoðun okkar, og þar segir:

„Við undirritaðir þm. Vestfjarðakjördæmis viljum hér með tjá hv. n. eftirfarandi afstöðu okkar til botnvörpuveiða innan fiskveiðilandhelgi á fiskimiðum undan ströndum Vestfjarða:

„1. Að heimilaðar verði botnvörpuveiðar í Húnaflóa upp að 4 mílum miðað við núgildandi grunnlínu á sama tíma árs og nú eru í gildi. Engar frekari opnanir á veiðisvæðinu verði í Húnaflóa.

2. Að heimilaðar verði botnvörpuveiðar í hólfi á milli Rits og Kögurs upp að 4 mílum miðað við núgildandi grunnlínu frá 1. október til 31. desember.“

Og þetta er alveg nýtt. Þetta er óþekkt í gildandi reglu og sama, að heimilaðar verði botnvörpuveiðar á hólfi milli Kópaness og Fjallaskaga upp að 4 mílum á sama tíma og í hinu fyrra hólfi, og þetta er líka nýtt og hefur ekki verið áður í gildi.

„4. Engar togveiðiheimildir verði leyfðar í Breiðafirði umfram þær, sem nú eru í gildi.

5. Að væntanleg lög um botnvörpuveiðar í landhelgi gildi í 2 ár.

6. Að staðbundnar veiðiheimildir komi ekki til greina.“

Það má segja, að þær ábendingar, sem koma fram hjá okkur og við göngum inn á, þar sem er aukning á botnvörpuveiði, gengur n. auðvitað fúslega inn á. En það, sem við bendum á, að koma ekki með frekari rýmkanir á botnvörpu, það er algerlega hundsað af þessari hv. landhelgisnefnd. Ég hygg, að það muni ekki líða langur tími, að menn sjái það, að með þessu frv. sé stefnt í voða. Í Breiðafirði hafa verið einhver árvissustu fiskimið í kringum Ísland, sem sjaldan hafa brugðizt, en þau brugðust mjög í fyrravetur og algerlega nú á þessari síðustu vertíð. Nú segja botnvörpumenn, að ekki hafi þau brugðizt fyrir of miklar botnvörpuveiðar, og það er alveg rétt. En þau hafa brugðizt fyrir það, að það hefur verið gengið svo nærri þessum miðum með netaveiðum á undanförnum árum, og þar hafa ekki verið settar þær hömlur, sem nauðsynlegt hefur verið að setja. Það hafa verið settar að vísu hömlur um, hvað bátar megi vera með margar trossur í sjó, en það er þó vitað af öllum nema þeim, sem standa að því að hafa slíkar reglur í gildi, að það er ekkert eftirlit hægt að hafa með því. En það, sem auðvitað hefði átt að gera og á að gera, er að fyrirskipa, að miðin séu hvíld, netin séu tekin upp um helgar, en það sé ekki hrúgað netum niður í byrjun netavertíðar og til loka.

Fyrir eitthvað 4 árum brást veiði mjög hér í Faxaflóa, og þá sótti fjöldi Faxaflóabáta á Breiðafjarðarmið. Snæfellingar sóttu allir á Breiðafjarðarmið og Vestfirðingar allir allt norður að Ísafjarðardjúpi. Þá vorum við að reyna að gera okkur grein fyrir því, hvað væri nú mikið af netum í sjó á Breiðafirði, og við komumst að þeirri niðurstöðu, miðað við bátafjölda og raunverulegan trossufjölda, sem er um borð í hverju skipi, að ef netin væru lögð í beinni línu frá Látrabjargi í Snæfellsnes, væru netin allt að sjöföld girðing fyrir Breiðafjörð. Þannig hefur nú verið gengið á þessi mið á undanförnum árum og í staðinn fyrir að beita nú strangari kvöðum á þessi mið á nú að bæta botnvörpusköfunni ofan á það, sem fyrir var. Og að þessu stendur meiri hl. þm. hér í hv. þd., og þeir segjast vera að gera þetta vegna þess, að það þurfi að nýta landhelgina miklu betur heldur en gert hefði verið á undanförnum árum. En ég held, að það hafi ekki verið svo mikill fiskur innan fiskveiðilandhelginnar, að það hafi ekki gert það að verkum, að afli hafi minnkað vegna þess, að hann hafi ekki verið sóttur inn í landhelgina með öðrum veiðarfærum en botnvörpu. Hv. 10. þm. Reykv., sem hér var að ljúka máli sínu áðan, flutti sinn sorgaróð út af togurunum, hvað væri verið að fara illa með þá, en ég hefði nú talið og það var talið a.m.k. þegar þeir voru byggðir, að þeir hefðu verið byggðir til þess að stunda veiðar á hafi úti, en ekki uppi í landsteinum.

Sumir botnvörpuskafarar hér í d. hafa talið, að það að leyfa auknar veiðar í botnvörpu hafi verið nauðsynlegt vegna atvinnuástandsins, sem nú hefur verið víða um land alvarlegt, en hver er það, sem trúir því, að þau skip, sem koma til með að veiða í botnvörpu og fá auknar veiðar í landhelginni, muni ekki sigla til útlanda í æ ríkari mæli en áður með aflann óunninn? Hvað fær íslenzkur verkalýður og fiskvinnslustöðvar í landi aukna atvinnu og hvað verður framlagið til þjóðarbúsins og útflutningsverðmætið aukið með þessum ráðstöfunum? Það mun tíminn leiða í ljós.

Hæstv. forsrh. spurði hér áðan, hvort það væri ekki óþinglegt orðbragð hjá mér? Það má vel vera. En ég ætla bara að biðja hæstv. forsrh. að lesa yfir ræðu hv. 10. þm. Reykv. hér á föstudaginn og vita, hvað hann sér víða, að hafi verið óþinglegt orðbragð, sem þar átti sér stað, og heyrði ég þá hvorki stunu eða hósta frá honum.

Ég ætla nú ekki að eyða öllu lengri tíma hér. Meiri hl. þessarar d. sýndi hér átakanlega hug sinn til þessa máls í gær, og þessa till., sem ég gerðist meðflm. að í dag og hv. 1. þm. Vestf. flutti hér áðan, ég tel hana auðvitað ekki mjög mikils virði á við þær till., sem felldar voru í gær. En ég harma það, að máli, sem hægt var að hafa fullt samkomulag um, hafi verið beint inn á þær brautir að tefla öllu samkomulagi hér í hættu með þeim umr., sem þessir hv. talsmenn frv. viðhöfðu og hafa ekkert tillit viljað taka til sanngjarnra óska þó nokkurra þm. í þessu máli. Það gerir það auðvitað að verkum, að þjóðin stendur ekki eins að baki þeim aðgerðum, sem nú er verið að gera hér á hv. Alþ., eins og hún hefði gert, ef sanngjarnar óskir hefðu verið teknar til greina í fyrsta lagi af landhelgisnefndinni og í öðru lagi af meiri hl. sjútvn.