06.05.1969
Neðri deild: 89. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1138 í B-deild Alþingistíðinda. (1220)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Pétur Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. mikið úr þessu, enda hefur nú flest komið fram í málinu, sem fram þarf að koma, og allra sízt vil ég verða til þess að auka á sálarkreppu þeirra Vestfjarðaþm., eins og virðist vera komin í ljós hér í umr., en get þó ekki stillt mig um að segja, að það sé eiginlega í hæsta máta óviðurkvæmilegt, þegar þeir standa hér upp og tala um þá, sem frv. fylgja í meginatriðum, sem hina verstu botnsköfumenn hafandi í huga, að hvergi á Íslandi hafa aðrar eins botnsköfuveiðar verið leyfðar og stundaðar eins og í innfjörðum Vestfjarða, og á ég þar að sjálfsögðu við rækjuveiðarnar, og hefur gengið mikið á á undanförnum árum til þess bæði að auka bátafjölda við þær veiðar og lengja þann tíma, sem þær eru stundaðar. En í sjálfu sér er þetta ákaflega skiljanlegt vegna þess, að þessar veiðar eru eingöngu til hagsbóta fyrir Vestfirðinga, svo að það er ákaflega skiljanlegt, að þeir séu ánægðir með þær. Það hefur komið fram hér í umr., að hv. þm. Vestfirðinga eru mjög óánægðir yfir því, að landhelgismálanefnd tók ekki til greina allar ábendingar og óskir, sem komu fram frá þm. Vestfjarða. Ég minnist þess, að landhelgismálanefnd fór þess á leit við þingflokkana, að þm. Reykjavíkur kysu sér 5 manna n. til þess að gera till. til landhelgismálanefndar. Mér er ekki kunnugt um, að landhelgismálanefnd hafi orðið við einni einustu ósk frá þm. Reykv. En vegna þess, að þm. Vestf. fá ekki allar sínar óskir uppfylltar, þá standa þeir hér upp hver um annan þveran og telja, að á sér sé brotið og það sé ekki orðið við sanngjörnum óskum þeirra. Hins vegar hefur það komið líka vel í ljós í þessum umr., hvað við er átt með þeim brtt., sem fram eru lagðar. Það er það að leyfa aðeins veiðar fyrir þeirra landi, sem þeir kalla, fyrir þau skip, sem eru úr þeirra heimabyggð. Þetta er alveg bersýnilegt, og á þetta hef ég bent, og þess vegna hefur sumum þeirra runnið heldur betur fyrir brjóstið, og eins og ég sagði áðan jafnvel orsakað sálarkreppu.

Það hefur minna verið rætt um botnvörpuna sem veiðarfæri í sjálfu sér. Það hefur verið rifizt hér um þessi svæði. Ég hef margt við þessi svæði að athuga. Ég taldi hins vegar hér s.l. föstudag, að landhelgismálanefnd hefði tekizt þolanlega vel að koma þessum till. frá sér og reyna að samræma sem flestra manna sjónarmið. Og ég hef ekki gert neinar brtt. við breytingar á till. n. um svæðin. Hins vegar tel ég eins og fyrrnefnd 5 manna n., sem kjörin var af Reykjavíkurþm., að þetta með stærð fleytunnar sé óréttlæti miðað við það, hvernig skiptingin er á flotanum hér á landi, og tel það enn og hef þess vegna leitazt við bæði við 2. umr. málsins og núna við 3. umr. málsins að fá nokkra leiðréttingu þar á, vegna þess, eins og ég tók fram í fyrri ræðu minni hér, að ein meginástæðan fyrir því, að þessar veiðar eru leyfðar, er atvinnuleysið á stöðunum, hráefnisskorturinn í fiskvinnslustöðvunum, og ég fæ ekki séð miðað við þær staðreyndir, sem fyrir liggja um þann fisk, sem úr botnvörpunni kemur, að fyrir fiskvinnsluna og hraðfrystihúsin í landinu eða fólkið, sem í þeim vinnur, sé sá fiskur verri, sem frá togurunum kemur heldur en minni bátunum.

Við verðum líka að hafa það í huga, að þegar menn tala um botnvörpuna og botnvörpuveiðarnar og það sé verið að ganga á mið, sem notuð séu af öðrum veiðarfærum eða skipum með önnur veiðarfæri, þá skulum við hafa líka í huga, að það er ekki lengra síðan heldur en um síðustu páska, að 2000 tonn af fiski fóru í gúanó úr netum yfir páskahelgina á Vestmannaeyjamiðum. Ég veit það, að landhelgismálanefnd, sem á samkv. sínu skipunarbréfi að gera till. um öll helztu veíðarfæri og veiðisvæði, sem nú eru nýtt hér í kringum land, a.m.k. innan fiskveiðilögsögunnar, hún á eftir að gera till. um takmarkanir á netaveiðum, sem fyllilega er orðið tímabært, eins og reyndar kom fram hjá hv. Vestfjarðaþm. Matthíasi Bjarnasyni, þegar hann talaði um það, að Breiðafjörðurinn væri kannske með sjöföldu girðingarneti neta yfir hávertíðina. Ég álít, að þetta sé miklu hættulegra atriði fyrir fiskgöngur og fiskveiðar á Breiðafirði heldur en nokkurn tíma það, að skipum verði leyft á ákveðnum mjög takmörkuðum svæðum utarlega á Breiðafjarðarflóa að veiða með botnvörpum á ákveðnum tímum ársins.

Vegna þeirra orða, sem hér féllu um það hjá einum ræðumanni, að hann áliti, að togararnir væru byggðir til þess að veiða á hafi úti, þá hélt ég nú satt að segja, að þessir bátar væru það líka. En ég endurtek einu sinni enn þá fullyrðingu mína og staðhæfingu, sem ekki verður hrakin, að þegar þessi skip voru byggð, voru þau byggð með fulla nýtingu landhelginnar í huga þann hluta ársins eða veiðiferðar, sem þeir þurftu á grunnmiðum að halda, alveg hreint eins og ekki síður heldur en þau skip, sem nú er verið að gefa sérstakar heimildir til að fá að veiða á þessum hinum sömu miðum. Ég tók líka fram hér í umr. við 2. umr., að eftir atvikum gæti ég fallizt á, að ákveðinni stærð báta væru veittir þeir sérhagsmunir að vera utan svæða, sem stærri togveiðiskipin stunduðu sínar veiðar á. Þetta getur verið réttlætanlegt af ýmsum orsökum. Það er rétt auðvitað, að stærri skipin eru stórvirkari, en það er um sama veiðarfærið að ræða, og þegar mergðin er komin, veit ég það, að í hugum þeirra, sem hugsa um einhvern hugsanlegan skaða af veiðarfærinu sjálfu, þá verður hann ekki minni af mergð minni skipanna heldur en af 7–8 togurum, sem stunda veiðar ákaflega takmarkaðan tíma ársins á þessum miðum.

Hv. þm. Guðlaugur Gíslason, 3. þm. Sunnl., talaði mikið um það, að togurunum hefði verið veittur aukinn réttur og væri veittur aukinn réttur með þessu frv. Það er alveg rétt. En það er hins vegar langt frá því að koma á móti bæði fyrrnefndri nefnd Reykvíkinga og reyndar öðrum togaramönnum og þar á meðal samtökum togaraeigenda og togarasjómanna. Það hefur ekki verið komið á móti þeirra óskum, og fer það saman við óskalista hv. þm. á Vestfjörðum. Hann talaði um það, að ef markaðshorfur togara eru góðar, sigli þeir, þegar hann ræddi um þá brtt., sem ég hef flutt á þskj. 655. Þetta gildir auðvitað nákvæmlega sama fyrir bátana, en við skulum bara hafa það í huga, að togararnir hafa ákveðið magn, leyfi til þess að selja ákveðið magn í Bretlandi og Þýzkalandi, og fram yfir það geta þeir ekki farið. Á ákveðnum tímum ársins verða þeir að veiða hér heima, og enn fremur hafa eigendur þeirra togara, a.m.k. þau fyrirtæki, sem rekin eru af bæjarfélögum, talið sér skylt vegna rekstrarfyrirkomulags þessara skipa að láta þau halda uppi atvinnu með löndun síns afla í viðkomandi byggðarlögum. Og þar til viðbótar, eins og ég hef þegar getið um, hafa þeir verið sendir til veiða eingöngu til þess að afla fiskjar til neyzlu t.d. hér í Reykjavík, þannig að ég fæ ekki séð annað heldur en það væri fyllilega fært fyrir hv. þd. að samþykkja þessa brtt. hafandi í huga þær atvinnuaðstæður, sem eru bæði í Reykjavík og kaupstöðunum og fyrirsjáanlegar eru því miður a.m.k. fram eftir sumri, og þess vegna hef ég flutt þessa brtt. nú við 3. umr.