06.05.1969
Neðri deild: 89. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í B-deild Alþingistíðinda. (1221)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja mjög þessar umr., en ég vil aðeins svara hv. 3. þm. Sunnl., sem hér talaði fyrir fundarhléið. Hann í raun og veru við 2. umr. málsins hafði sömu orð, hann fór að tala um þann fund, sem landhelgisnefndin hélt vestur á Ísafirði, þar hefði ekki verið minnzt sérstaklega á Breiðafjörðinn, og mér fannst gæta enn þá mikils ókunnugleika hjá þessum hv. þm. á því, að það var talað auðvitað um fiskimiðin fyrir Vestfjörðum, og maður, sem búinn er að kynna sér svo vel Íslandskortið að undanförnu, ætti að vera farinn að sjá það og vita, að Breiðafjörður allt að Gilsfirði tilheyrir nú Vestfjörðum, og auðvitað hlýtur sjórinn út af þessu svæði að tilheyra þá Vestfjörðum eða vera út af Vestfjörðum, og þetta eru bátamið suðurhluta Vestfjarða, ekki eingöngu eins og hann sagði á vetrarvertíð, heldur er mikill fjöldi báta, sem veiðir á Breiðafirði allt sumarið, því að frá Vestfjörðum er sennilega stærsta smábátaútgerð á öllu landinu, þannig að þessi mið skipta miklu máli fyrir lífsafkomu mikils fjölda fólks í þessum byggðarlögum.

Það kemur líka fram sami misskilningur hvað eftir annað hjá hv. 10. þm. Reykv., að við séum með okkar till. að ætlast til þess, að það séu einhverjir ákveðnir bátar af ákveðnum stærðum, sem eigi að fá að veiða á ákveðnum miðum. Það, sem um er að ræða í þessu sambandi, er það, að við erum á móti og viljum ekki svona víðtækar botnvörpuveiðar. Hins vegar er auðvitað bát, hvar sem hann á heima á landinu, heimilað að veiða á þessum svæðum alveg eins og heimabátum með sömu veiðarfæri. Þetta hélt ég, að þyrfti ekki að margendurtaka fyrir greindum og glöggum mönnum, en þeir virðast einhvern veginn, sumir menn, bíta í sig hér alls konar vitleysur, sem þeir eru búnir að margjagast á undanfarna daga.

Ég veit ekki annað en þessi hv. þm. hafi verið á sínum yngri árum — hann er að vísu ekki gamall enn þá, en hann var þá ungur að árum — á dragnót á Húnaflóa. Það var ekkert bannað fyrir Keflvíkinga eða Reykvíkinga að stunda dragnótaveiðar á Húnaflóa. Og hann var við þær veiðar, og hann var ekkert óvelkominn á þau mið. Hinu er ég ekkert undrandi á, þegar hann sagði, að landhelgisnefndin hefði ekki tekið tillit til óska Reykjavíkurþm. Þó að henni sé nú svona ýmislegt vel gefið, landhelgisnefndinni, þá get ég nú ekki skilið, hvernig hún hefði átt að taka tillit til sameiginlegra óska Reykjavíkurþm. Að vísu fylgdu tveir Reykjavíkurþm.

till. hv. 10. þm. Reykv., Péturs Sigurðssonar, og það voru nú ekki ómerkari menn en hv. 1. þm. Reykv., hæstv. forsrh., og svo einn af höfuðleiðtogum Alþb., hv. 6. þm. Reykv., Magnús Kjartansson. Aðrir þm. Reykv. fylgdu ekki togaratill. hv. 10. þm. Reykv., Péturs Sigurðssonar. Hvernig er hægt að samræma skoðanir hv. 4. þm. Reykv., Þórarins Þórarinssonar, og hv. 9. þm. Reykv., Hannibals Valdimarssonar, í þessum efnum við skoðanir hv. 10. þm. Reykv., 1. þm. Reykv. og 6. þm. Reykv.? Það er auðvitað allt annað fyrir landhelgisnefndina að geta ekki tekið afstöðu til till. frá þm. í kjördæmi, sem hafa ólíkar skoðanir á málinu, en þessu var bara ekki að heilsa með þm. Vestfirðinga. Við stóðum bara allir eins og einn maður að okkar till. Það var ekki þar um neinn klofning að ræða. Það voru allir á sömu skoðun.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð miklu fleiri. En hv. 10. þm. Reykv. talaði um sálarkreppu hjá okkur þm. Vestfirðinga. Við höfum nú ekki heyrt á þetta minnzt fyrr. Það getur vel verið, að hann þekki þennan sjúkdóm, en hann hefur ekki náð neitt vestur til okkar. Okkar sálir eru ekki í neinni kreppu, og við munum halda okkar andlegu heilsu þrátt fyrir það, að hann og hans skoðanabræður beri hér sigur úr býtum um sinn í þessu máli. En það koma tímar, að aftur verði frá að hverfa, þó að meiri hl. í þessari þd. ætli að halda sér svo fast við þessar kenningar, sem landhelgisnefndin hefur lagt til með þessu frv.