07.05.1969
Efri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1159 í B-deild Alþingistíðinda. (1231)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir til 1. umr., er gagnmerkt mál, og flestir landsmenn munu vera kunnugir því, að þær reglugerðir og þau lög, sem gilt hafa um bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu, hafa e.t.v. verið meira brotin heldur en nokkur önnur, og augljóst er, að svo getur ekki haldið fram. Ég hygg líka, að þeir, sem fara með dómsmálastjórn í landinu, hafi fundið fyrir því, að við svo búið mætti ekki lengur standa, enda sagði hæstv. dómsmrh., þegar hann lagði þetta frv. hér fyrir d. og flutti fyrir því framsögu í dag, að sómi Alþ. lægi við, að hér yrðu sett lög, þ.e.a.s. þessi lög, sem frv. gerir ráð fyrir, en síðan hvarf hann hér af þingi og hugsaði ekki daginn út um sóma Alþ. Mér hefði nú fundizt, að kannske gæti það verið einhver liður í því, að hann gæti verið hér viðstaddur umr. um jafnmerkilegt mál. Sjálfur rakti hann ekki málið, heldur gaukaði að okkur þessum orðum og litlu þar fram yfir, en hv. 5. landsk. þm., sem hefur starfað mikið að undirbúningi þessa máls og verið formaður í svokallaðri landhelgisnefnd, sem málið hefur undirbúið, flutti hér þar á móti mjög efnislega og vel gerða ræðu um tildrög málsins. Að vísu var honum svo þröngt skammtaður tími, að hann varð að pakka niður sínum plöggum og rjúka héðan úr ræðustól áður en ræðan var hálfnuð, og það er sömuleiðis nokkur spurning um það, hvort það er virðingu Alþ. samboðið að flytja ekki til enda jafnefnismikla og greinargóða ræðu eins og hann var hér með eftir fyrri parti ræðunnar að dæma, þ.e.a.s. því, sem hann flutti hér í d., en honum var svo naumt skammtaður tími og mér skildist, að deildinni væri ætlað að ljúka 1. umr. um þetta mál á hálftíma, sem er náttúrlega alger ósvífni að láta sér detta slíkt í hug. Þetta er búið að vera deilumál þjóðarinnar um mörg ár, og n. er búin að ferðast um landið, hlusta á og lesa till. og ábendingar fjölda manna, og málið er sem sagt alls ekki þannig vaxið, að það sé vert að taka mjög skjóta afstöðu um það. Ég veit, að það er búið að undirbúa þetta mál kannske meira heldur en flest önnur, sem hér hafa verið lögð fyrir, en engu að síður er sóma Alþ. fyrst og fremst bezt borgið með því, að málið sé gaumgæfilega rætt og skoðað og ekki kastað eins til þess höndunum eins og hæstv. ráðh. gerði hér við fyrirlagningu málsins.

Um málið sem slíkt er það að segja, að ég á það sjálfsagt sammerkt með öllum öðrum þm., að ég er nú ekki ánægður með það í einstökum liðum, enda þótt ég telji það vera virðingarverða tilraun til þess að koma skipan á þessi mál. Það er greinilegt, að hinir einstöku landshlutar hafa hér svo sem eðlilegt er otað sínum tota. Lengst af var það svo, að Vestfirðingar máttu lítið heyra á það minnzt, að gefnar væru út veiðiheimildir með botnvörpu úti fyrir Vestfjörðum, og hafa þeir reyndar s.l. áratug og reyndar lengur verið mjög óánægðir með skipan landhelgismála. Þegar fjögurra mílna landhelgin var sett með þeim breytingum á grunnlínupunktum, sem þá voru gerðar, þá er það alveg rétt, að hin friðuðu svæði fyrir botnvörpu urðu stærri við flesta landshluta heldur en Vestfirði. Þetta var á máli Vestfirðinga kallað að stóðið hefði verið rekið í túnið hjá þeim, þ.e.a.s. togararnir, sem hefðu orðið að hætta togveiðum á miðum annars staðar við landið, hefðu farið á Vestfjarðamiðin unnvörpum. Eitthvað kann að hafa verið til í þessu. Ég er engan veginn frá því, en það er eins og talsmenn Vestfirðinga séu dálítið óhikandi við það að reka þetta sama stóð í önnur tún eins og nú er komið. Það er að vísu gert ráð fyrir því í þessu frv., að tvö hólf verði opnuð til togveiða úti fyrir Vestfjörðum, en allur meginþorri fiskimiðanna á þeim slóðum á eftir sem áður að vera bannsvæði fyrir togveiðiskip. Ég veit ekki, hvort hér er sanngjarnlega að farið. Að vísu skal það hreinlega játað, að a.m.k. sumir talsmenn þess fjórðungs hafa talið sig sýna mikið umburðarlyndi gagnvart öðrum landsmönnum með því að vera þó ekki alveg fastir á því, að ekkert mætti opna fyrir togveiði úti fyrir Vestfjörðum. En á hinn bóginn er það augljóst, að þeim mun þrengra sem haft er um togveiðiheimildir, t.d. þar, þeim mun erfiðara eiga togveiðiskip úr þeim landsfjórðungi með að fiska á sínum eðlilegu miðum og þeim mun líklegra er, að þeir sæki á mið úti fyrir öðrum landshlutum, þar sem meira er opnað. Þetta er auðvitað augljóst mál. Tilgangur þess að setja lög um það, hvernig fiskveiðilandhelgi Íslendinga skuli eða megi vera nytjuð, er auðvitað sá að geta fengið sem mesta veiði án þess að ganga á stofna og í öðru lagi, að fiskveiðarnar geti verið reknar upp á sem hagkvæmastan máta. Það er ekki hagkvæmni í því að banna skipum að veiða á þeim miðum, sem þeim eru eðlilegust úti fyrir þeirra heimahöfnum, og gera þeim ómögulegt annað heldur en sækja miklu lengra á fiskimið en eðlilegt væri, að þau gerðu.

Um þá Faxaflóamenn er það að segja, að að mínu viti líta þeir á sinn flóa sem nokkurs konar helgidóm. Þeir trúa því vafalaust, mennirnir, að þetta sé einhvers konar vöggustofa fyrir fiska, það sé meiri uppeldísstöð heldur en allur annar sjór í kringum Ísland. Fyrir þessu eru auðvitað ekki nokkrar sannanir, en menn geta búið sér til hugarfóstur af ýmsu tagi og gælt við þau. Frá útvegsmönnum hér við Faxaflóa, t.d. hér í Reykjavík, hafa komið kvartanir um það að fá ekki að stunda togveiðar nema allt of takmarkað í Faxaflóanum. Þetta verður auðvitað líka til þess, að þessir útgerðarmenn verða að senda skip sín á aðrar slóðir, þ.e.a.s. þeir eru reknir í túnið hjá öðrum. Austfirðingar hafa haldið svo hart á málum fyrir sinn fjórðung, að þeir hafa hreinlega lagt undir sig mið við suðurströndina og koma þar í veg fyrir það, að togveiðiheimildir verði gefnar fyrir veiðum, sem stundaðar hafa verið árum og áratugum saman af Vestmannaeyingum. Allt þetta er auðvitað með þeim hætti, að ég er því ekki samþykkur. Á hitt er að líta, eins og hér hefur verið bent á af ýmsum ræðumönnum og þó aðallega hv. 5. landsk. þm., að landhelgin er sameiginleg eign Íslendinga, og þær nytjar, sem af henni er hægt að hafa, eru auðvitað til sameiginlegra nota fyrir landsmenn. Af þeim ástæðum hlýt ég að líta svo á, að hér geti ekki allir fengið óskir sínar uppfylltar og það verði ýmsir að slaka til á þeim hugmyndum, sem þeir annars hefðu haft um það, hvernig afnotaréttur af íslenzku landhelginni væri bezt og skynsamlegast tryggður. Ég mun þess vegna ekki á þessu stigi, þó að ég lýsi óánægju minni með þessi fjögur atriði, gera um það neinar brtt. Þetta verður að sjálfsögðu tekið fyrir í þn., og ég efa það ekki, að í þeirri n. verður það skoðað, hvað hér hefur komið fram í umr., og máske sjá menn einhver ráð til þess að verja þó ekki sé nema eitthvað af því. Eitt atriði er það enn þá, sem ég teldi rétt að vekja athygli á. Það er að vísu hreinlega formsins vegna ekki beinlínis ástæða til þess, að um það séu gerðar till. í þessu frv., en athugandi væri það samt í þeim n., sem um málið fjalla. Það atriði er þannig, að veiðiheimildirnar yfirleitt eru miðaðar við grunnlínur þær, sem í gildi eru um íslenzku landhelginá. Þær heimildir eða þeim grunnlínupunktum var slegið föstum árið 1961. Síðar hefur komið upp ein eyja við Ísland, sem eðlilegt væri að gera að nýjum grunnlínupunkti, og sú n. eða þær n., sem um þetta mál hafa fjallað, hefðu vafalaust átt greiðan aðgang að því, að á það mál yrði litið og ekki farið eftir þeim grunnlínupunktum, sem til voru 1961, heldur einnig þeim grunnlínupunkti, sem orðið hefur til síðan, þ.e.a.s. Surtsey, sem mér skilst, að eðlilegt væri, að væri gerð að grunnlínupunkti. Þessum tilmælum og þessum athugunum vildi ég beina til þeirrar n., sem af Ed. hálfu fjallar um málið, og mælast til þess, að þetta verði í n. athugað. Að öðru leyti lýsi ég ánægju minni með það, að þessi tilraun með að koma saman þarna lögum, sem hugsanlegt er, að geti orðið í gildi, skuli hér vera gerð, því að ég er sammála þeim, sem hér hafa látið áður uppi það álit, að ástandið eins og það hefur verið til þessa um reglur og lög um landhelgina er gersamlega óviðunandi, og þar á verður að verða breyting. Þetta frv. er að mínu viti gott skref til þeirrar áttar, enda þótt ýmsir annmarkar séu á því frá mínu sjónarmiði, eins og reyndar flestra, ef ekki allra annarra þm. Það ber þess auðvitað greinilega vott að vera samkomulagsfrv., þar sem ekki er unnt að taka tillit til óska eða till. allra, sem eitthvað hafa um málið að segja, heldur verður þar víða að fara nokkuð bíl beggja.