09.05.1969
Efri deild: 89. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1162 í B-deild Alþingistíðinda. (1234)

233. mál, bann gegn veiðum með botnvörpu og flotvörpu

Frsm. meiri hl. (Pétur Benediktsson):

Herra forseti. Hér er stórt og merkilegt mál á ferðum, og þótt nál. frá sjútvn. sé fáort og ég muni ekki segja mörg orð hér um frv., þá er þetta eitt af merkari frv., sem lagt hefur verið fyrir þessa hv. samkomu að þessu sinni. Það fjallar um skynsamlega nýtingu fiskveiðilandhelginnar, og bak við samningu þess liggur ótrúlega mikil og ég vil segja merkileg og góð vinna frá þeirri n., sem falið var að athuga þetta mál og ferðazt hefur um landið og átt tal við þá aðila hvarvetna kringum strendur landsins, sem mestra hagsmuna eiga hér að gæta og líklegastir eru til að hafa till. fram að bera í því efni. Enginn gerir svo að öllum líki, og það hefur að sjálfsögðu heldur ekki tekizt í þessu tilfelli, en samt tókst að sigla frv. gegnum hv. Nd., og nú liggur það hér fyrir hjá okkur.

Sjútvn. hefur að 6/7 hlutum viljað gera eina ákveðna breytingu, sem í raun og veru er þó aðeins staðfesting á annarri afgreiðslu, sem hér hefur farið fram, sem sagt að þar sem rætt er um dragnótaveiði í 3. gr. frv., þá bætist þar við nýr málsl. í fullu samræmi við það frv., sem við höfum þegar samþ. hér í hv. d. og segir: Þó skal bönnuð dragnótaveiði í Faxaflóa, en með því er átt við svæðið innan línu, sem dregin er frá punkti réttvísandi vestur 4 mílur frá Garðskaga og þaðan beint í Malarrif. Um þessa breytingu varð öll n. sammála nema hv. 5. landsk. þm., sem er einn þeirra, sem ötullegast hafa starfað í landhelgisnefndinni svokölluðu, og ég skil hans afstöðu ósköp vel, að hann kjósi heldur að hrófla ekki við ákvæðum frv. í þeirri von, að auðveldara verði að koma því fram með því móti. En hins vegar fæ ég nú ekki séð annað en að hv. Ed. verði um þetta sérstaka atriði að vera sjálfri sér samkvæm og endurtaka óskir sínar í þessu efni.

Ég má kannske nota tækifærið til að nefna brtt. tvær, sem ég ásamt 4 öðrum dm. er flm. að. Hin fyrri þeirra er við 2. gr. frv., að liðurinn E 6 falli niður. Það er hin svokallaða „svunta“ á Faxaflóasvæðinu, þar sem gert er ráð fyrir vissum undantekningum hluta ársins fyrir hin smærri veiðiskip. Okkur flm. þeirrar till. fyndist, að hér ætti að hafa samræmi við till. í dragnótamálinu og því fella þennan lið niður.

Við 8. gr. berum við einnig fram brtt., sem felur það í sér, að 2. og 3. gr. frv. eigi að gilda til ársloka 1970 í stað 1971. Vissir nm. eiga auðveldara með að sætta sig við ákvæði frv., þó að vissar breytingar, sem þeir hafa hug á, verði ekki gerðar, ef gildistími þess er ekki lengri en þetta. En ef góð reynsla fæst af frv. um eina vetrarvertíð og tvær sumarvertíðir, þá er hægurinn hjá að framlengja gildi þess, þegar þar að kemur, og þess vegna höfum við, þessir 5 þm., orðið sammála um að fylgja brtt. í von um að auðvelda þannig framgang málsins.

Ég held ekki, að ég þurfi að hafa þessi orð lengri að sinni. Málið er öllum þingheimi þaulkunnugt, og það, sem á ríður, er að koma því nú fram, enda erum við á síðasta degi með gildi bráðabirgðaákvæðanna um takmarkað leyfi til veiða með botnvörpu hér í flóanum og á ýmsum öðrum stöðum.