29.04.1969
Neðri deild: 83. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1194 í B-deild Alþingistíðinda. (1260)

222. mál, ríkisreikningurinn 1967

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Eins og menn muna þá urðu hér nokkrar umr. við 1. umr. um embætti húsameistara ríkisins, og var rætt um það bæði af hv. 3. þm. Vesturl. og hv..fjmrh., að uppvíst hefði orðið um ýmsa óreiðu í sambandi við það embætti. Það hefði meðal annars komið í ljós, að yfir- og aukavinna væri óeðlilega mikil, að bifreiðastyrkir væru óeðlilega háir, óeðlilega mikil risna hefði átt sér stað, ferðakostnaður o.s.frv. Ég hefði ekki haft tilefni til þess að rifja umr. upp að þessu sinni, ef ekki hefðu síðan orðið nokkur blaðaskrif um þetta, m.a. hefur forstjórinn átt viðtal við eitt af blöðum bæjarins og sagt, að þessu máli væri lokið. Í dag skrifar hv. fjmrh. í blöðin, og lýsir því m.a. yfir, að í sambandi við óreiðuna hjá húsameistaraembættinu muni dómsrh. hafa ákveðið að víkja frá störfum þeim, er meginábyrgð hefur haft á fjárstjórn stofnunarinnar. Ég vildi gjarnan fá það upplýst í þessu sambandi, hvernig þetta mál hefur verið til lykta leitt, þar sem húsameistari lýsir því yfir í blaðaviðtali, að því sé með öllu lokið. Ennfremur vildi ég vita, hver eða hverjir það séu hjá húsameistaraembættinu, sem samkv. þessari yfirlýsingu ráðh. í dag hafa verið látnir víkja frá störfum og bera meginábyrgð á því, hvernig fjárstjórn stofnunarinnar hefur verið að hans dómi. Ég álít, að slík mál eins og þessi eigi ekki að liggja neitt í þagnargildi og það eigi að vera fullkomlega upplýst, ef einhverjum er refsað, sem sekur kann að reynast, og að það sé þá sannanlega sá seki og sá, sem meginábyrgðina hefur borið. Ég vil sem sagt æskja þess, að hv. ráðh., ef hann treystir sér til þess, upplýsí þingheim um það, hvernig þessar málalyktir hjá húsameistaraembættinu eru og hver eða hverjir það eru, sem hafi verið látnir hætta störfum vegna fjármálaóreiðu.