29.04.1969
Neðri deild: 83. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (1262)

222. mál, ríkisreikningurinn 1967

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég sé nú ekki ástæðu til þess að við séum í neinu karpi ég og hv. 1. þm. Norðurl. v. Okkur greinir ekki, held ég, ákaflega mikið á efnislega um þetta atriði. Ég er hins vegar ekki orðinn sannfærður um það enn, að málið sé eins einfalt og hann virðist vera láta, en nóg um það. Það er kannske vegna þess, að við erum of slappir í fjmrn., ég skal ekki segja um það, en málið er nú töluvert flóknara. Ég held hins vegar, að það liggi alveg í augum uppi. að auðvitað hlýtur það að vera okkar kappsmál, ekki síður en þeirra, sem á þetta hafa bent hér, að sem allra mest af þessu innheimta fé komi í ríkissjóðinn í tæka tíð. Það gefur auga leið, að það hefur hver fjmrh. áhuga á því, að staða ríkissjóðs í árslok sé sem bezt, þannig að ég held, að það þurfi ekki að óttast neinn slappleika í því, vegna þess að það er ekki nema þá hrein eigingirni, sem hlýtur að ráða því, þó við sleppum öðru, að það sé reynt að ná inn þessum peningum, sem mest má verða. Það getur vel verið að það sé mjög hæpið bókhald hjá sýslumönnum að færa inn á liðið ár það, sem þeir innheimta eftir áramótin, en því miður hefur þetta verið gert í allstórum stíl, og það er ekki hægt að segja, að þetta sé nein óreiða út af fyrir sig, þetta kemur fram annað hvort árið, en ég er sammála hv. þm. um það, að rétt skal vera rétt og eðlilega koma þá fram auknar eftirstöðvar um árslok, það er hárrétt.

Hv. 4. þm. Reykv. beindi til mín nokkrum fsp. varðandi embætti húsameistara ríkisins og þær athugasemdir, sem við það hafa verið gerðar vegna skrifa, sem um það hafa orðið og vegna grg., sem ég hef birt um það efni. Ástæðan fyrir grg. minni var ekki sú að vefengja neitt af því, sem yfirskoðunarmenn ríkisreikninga hefðu um það sagt, heldur aðeins að láta það koma skýrt fram, sem ekki hafði komið fram í skrifum eða tali manna um þetta mál, að ríkisendurskoðunin hafði haft fullkomlega augun opin fyrir þessu máli. Það komu fyrir viss atvik, sem ollu því snemma á s.l. ári, að það þótti sjálfsagt að taka ýmis atriði í þessu embætti til heildarrannsóknar og leiddi það hvað af öðru. Þetta stafaði ekki af því, að það væru ekki fylgiskjöl fyrir greiðslum, heldur vegna þess, að það sýndi sig, að þessi fylgiskjöl voru ekki með eðlilegum hætti, þannig að það höfðu átt sér stað greiðslur, sem ekki hefðu átt að eiga sér stað.

Hv. 3. þm. Vesturl. skýrði frá nokkrum þessara atriða hér í ræðu sinni, er hann ræddi ríkisreikninginn við 1. umr., og ég hef ekkert við hans athugasemdir þar að athuga. Hann skýrði frá því, að ríkisendurskoðunin hefði haft þetta mál lengi til meðferðar og gert ýmsum skoðunarmönnum ljóst, hvað hefði gerzt í því. Það var í fullu samráði við mig að það var gert. Ég tel það sjálfsagt að ríkisendurskoðunin veki athygli yfirskoðunarmanna á því, þegar misfellur eru við embætti. Eins og við vitum þá er starf yfirskoðunarmanna unnið í hjáverkum og þess engin von, að þeir geti krufið til mergjar rekstur einstakra ríkisstofnana, þannig að það ber brýna nauðsyn til þess, að þarna sé góð samvinna á milli. Yfirskoðunarmenn hafa í athugasemdum sínum við ríkisreikninginn tilgreint í tölulegum atriðum fsp., sem þeir hafa beint til rn., sem húsameistaraembættið heyrir undir til þess að fá úr því skorið, hver sé skoðun þessa rn. á þeim atriðum, sem þar eiga sér stað bæði um umframgreiðslur, bifreiðastyrki og annað. Dómsmrn. hefur eftir ósk fjmrn. svarað þessum athugasemdum. Rn. hafði áður fengið til meðferðar ítarlegar skýrslur ríkisendurskoðunar, sem ríkisendurskoðunin lét í té til þess að rannsaka til hlítar öll einstök atriði í þessu máli.

Hv. þm. sagði, að húsameistari ríkisins hefði í grein í blaði í gær gefið í skyn að þessu máli væri lokið. Ég vil ekki gera neitt að umtalsefni þessa grein og hvorki lýsa hana rétta né ranga, en ég verð hins vegar að segja það, að málinu er ekki lokið, enda er það tekið fram í svörum dómsmrn., að það sé verið að framkvæma nauðsynlegar ráðstafanir í þessu embætti með hliðsjón af úrskurðum ríkisendurskoðunarinnar. Ég hef enga ástæðu til að halda annað en að dómsmrn. muni fullkomlega taka til greina allar athugasemdir ríkisendurskoðunarinnar varðandi þetta embætti. Það tel ég rétt og skylt, og tel það engum efa bundið. Ég gerði grein fyrir því í grg. minni, sem ég hef sent blöðunum, að það sé ekki á valdi fjmrh. að ákveða um það, þegar misferli verður í embættum, hvort viðkomandi embættismenn eru látnir víkja úr starfi eða ekki. Þetta gerist með þeim hætti, að ríkisendurskoðunin kemur sínum athugasemdum á framfæri við viðkomandi embætti og síðan er til þess ætlazt, að viðkomandi rn. taki ákvörðun um það eftir efni málsins, hvað beri að gera til þess að uppræta það, sem miður hefur farið.

Það er hlutverk fjmrn., og því mun verða fylgt eftir, að greiddar verði að fullu allar þær fjárhæðir, sem aðilar við embætti húsameistara hafa tekið sér með óeðlilegum hætti, hvort sem það er húsameistari ríkisins sjálfur eða aðrir, sem hafa fengið slíkar fjárhæðir, og eftir því mun verða gengið af fjmrn. Hvort ráðh. sá, sem þetta mál heyrir undir, telur málið það alvarlegt, að það beri að gera frekari ráðstafanir, t.d. að láta tiltekna embættismenn víkja og þá hverja, er mál þessa ráðh. Það er föst venja í öllum rn. og fjmrh. getur ekki ákveðið um það og hefur ekki til þess stjórnskipulegan rétt.

Ég sagði í grein minni, að ráðh. mundi hafa ákveðið að víkja frá starfi þeim manni, sem talinn væri hafa borið mesta ábyrgð á þeim misferlum, sem þarna hafa orðið, og ég veit, að ríkisendurskoðunin hefur vakið athygli á því, að hún teldi, að það væri ekki hægt, miðað við þá óreiðu, sem þarna hefði orðið, að treysta þessu embætti fyrir fjárreiðum, nema því aðeins, að sá maður, sem ætti að sjá um fjárhagslega stjórn þessa fyrirtækis, sem hefur mikið fé undir höndum, væri látinn víkja. Þetta hygg ég, að dómsmrh. hafi gert. Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til og tel ekki viðeigandi að greina frá því, hvaða tiltekinn starfsmaður á að víkja þarna eða ekki. Ég tel rétt, að sá ráðh., sem þetta heyrir undir, upplýsi það, eftir því sem hann telur efni standa til. Hvað mig varðar lýsi ég því yfir, að varðandi það fjárhagslega misferli, sem þarna hefur átt sér stað, þá mun ekki verða við annað unað en að því verði fullkomlega kippt í lag, hver svo sem þar á sökina.