02.05.1969
Neðri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1199 í B-deild Alþingistíðinda. (1265)

222. mál, ríkisreikningurinn 1967

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég verð að biðja hæstv. forseta að reyna að ná í hæstv. fjmrh. hingað á fundinn, því að ég þarf að bera fram fsp. til hans út af þessu máli. (Forseti: Hæstv. fjmrh. er því miður ekki staddur í húsinu. Ég vil biðja hv. þm. að halda áfram ræðu sinni. Fsp. hans skal komið á framfæri.) Ég þarf að fá svar við henni, og ég vil helzt hafa það milliliðalaust, er þá ekki hægt að fresta málinu til næsta fundar og ráðh. yrði þá við, það verður nú sennilega fljótlega afgr. þetta mál, héðan af og ætti ekki að gera til? Ég þarf endilega að fá svar við þessu, sem ég ætla að spyrja um, og vil nú þess vegna fara fram á það við hæstv. forseta, að hann taki málið út af dagskrá núna ef ekki er hægt að ná í ráðh. áður en fundi verður slitið, annars mætti bara fresta því um sinn, ef von er um að hann verði hér á ferð innan skamms eða áður en dagur þessi er liðinn. (Forseti: Ég vil vekja athygli hv. þm. á því, að það eru fleiri hv. þm. á mælendaskrá um málið, sem kynnu að geta talað að hæstv. fjmrh. fjarstöddum. Á meðan hugleiðir forseti, hvort unnt muni vera að fresta málinu, ef hv. þm. vildi þá rýma ræðustólinn.) Ég vil halda mínum ræðumannsrétti að sjálfsögðu, en ég hef ekkert á móti því, að aðrir tali á meðan, ef hæstv. ráðh. kynni að koma.