02.05.1969
Neðri deild: 87. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1202 í B-deild Alþingistíðinda. (1269)

222. mál, ríkisreikningurinn 1967

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara að þreyta hér umr. um þetta, en vil þakka hv. 5. þm. Vesturl. fyrir að hafa gengizt í það að fá þessar upplýsingar, sem ég hélt nú, að Ríkisútvarpið hefði átt frumkvæðið að, því að frá mínum bæjardyrum séð þá skýrir það málið verulega, að þarna var um sérstaka innheimtu að ræða. Hins vegar útskýrir það ekki, hvers vegna þurfti að ganga eins langt og raunverulega var gert, sem ég álít að hafi verið allt of mikið, að afskrifa 12% af ársinnheimtunni er allt of mikið frá mínum bæjardyrum séð. Ég vil svo taka undir það, að ég tel æskilegast að þarna sé eðlilegt og gott samstarf á milli og það komi fram í skýringu, sem misskilningi geti valdið og ég lít svo á, að miðað við eðlilega álagningu, sem ég hélt að væri nú yfirleitt með útvarpsgjaldið, séu þessar eftirstöðvar innheimtu of miklar. Við erum að deila á ríkissjóð, sem innheimtir þó yfir 90% af sinni ársálagningu, og það er þess vegna of mikið, þegar útvarpið innheimtir ekki nema kannske rúmlega 80%. Það verður að koma eðlileg skýring á því, hvers vegna svo mikið skortir á.