06.05.1969
Efri deild: 86. fundur, 89. löggjafarþing.
Sjá dálk 1211 í B-deild Alþingistíðinda. (1280)

222. mál, ríkisreikningurinn 1967

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. mikið. Ég bið hv. 3. þm. Norðurl. v. afsökunar á því, ef ég hef notað ónákvæmt orðalag um till. yfirskoðunarmanna ríkisreiknings og talað um úrskurði þeirra. Ég held, að við höfum báðir rétt fyrir okkur í því efni. Það hefur alltaf verið litið svo á, að aths. yfirskoðunarmanna við svörum rn. væru úrskurðir af þeirra hálfu. Með því er að sjálfsögðu ekki sagt, að þeir séu að úrskurða fyrir Alþ., heldur eru þeir að úrskurða samkvæmt sínum eigin skoðunum um það, hvað viðhlítandi sé, og þess vegna eru þeir með ákveðnar ábendingar, annaðhvort tala þeir um, að þetta sé fullnægjandi svar eða þá að það sé ekki fullnægjandi og því beri að haga þessu með þessum eða öðrum tilteknum hætti, en hins vegar hefur mér auðvitað aldrei hugkvæmzt að halda því fram, að aths. þeirra væru þess eðlis, að Alþ. væri ekki yfir þær sett og kvæði að lokum upp sinn endanlega hæstaréttardóm, ef svo má segja, um þessa úrskurði.

Það sem hv. 3. þm. Norðurl. v. gerði aðalathugasemdir sinar við var, hvað hægt miðaði hinni umboðslegu endurskoðun ríkisreiknings, og þess vegna væri í rauninni ekki hægt að fá það öryggi, sem yfirskoðunarmenn þyrftu að hafa aðstöðu til að geta veitt með endurskoðun sinni. Ég held nú ekki, að það út af fyrir sig hafi nein áhrif á yfirendurskoðunina, þó að allir reikningar séu ekki tilbúnir, af þeirri einföldu ástæðu, að þeir auðvitað fá þá reikninga til meðferðar strax og þeir hafa verið endurskoðaðir, og það er hægt að koma við aths. við þá reikninga í næsta reikningi, ef yfirskoðunarmönnum sýnist svo, þannig að það skapast ekkert öryggisleysi af þeirri ástæðu. Hitt er annað mál, að ég er hv. þm. algjörlega sammála um það, að æskilegast væri, að reikningsskil öll væru endurskoðuð í lok næsta árs, áður en ríkisreikningur er lagður fram, þ.e.a.s. endurskoðun væri lokið að fullu, þegar reikningurinn er til meðferðar hér á Alþ. Hitt veit ég, að allir hv. þdm. vita, að þetta hefur aldrei gerzt, og þetta hefur verið með miklu lakari hætti, og var hér áður fyrr, en það er nú og hefur verið um margra ára bil. Ríkisreikningur er þó lagður fyrir Alþ. ári eftir að honum er lokið nú, en áður beið þetta stundum ein tvö til þrjú ár, og var þó ekki alltaf lokið endurskoðun hinna einstöku reikninga. Ég er ekki með þessu að deila á einn eða neinn. heldur aðeins að segja frá staðreynd um málið. Á undanförnum árum hefur starfsemi ríkisendurskoðunar verið efld mjög verulega. Hitt er allt annað mál, og það er rétt, að ríkisendurskoðunin hefur ekki fengið nægilegt starfslið til þess að sinna þessu verkefni, og það má segja að hér, sem í mörgum greinum ríkiskerfisins, sé sýnd íhaldssemi, og kannske á þessu sviði og fleirum of mikil íhaldssemi, með því að reyna að þvinga þetta takmarkaða starfslið til að leysa verkefni af hendi, sem það í rauninni kemst ekki yfir að leysa af hendi. Hv. þm. las hér upp úr svörum ríkisendurskoðunarinnar. Hann las hins vegar ekki eina klausu úr því svari, sem þannig hljóðar, með leyfi hæstv. forseta:

„Fjmrh. er kunnugt um þessa klemmu, sem ríkisendurskoðunin er í,“ þ.e.a.s. varðandi það að ráða hæfa starfsmenn, „og hann mun vera að reyna að leysa málið í sambandi við starfsmat það, sem staðið hefur yfir, en rótgróinn misskilningur á því, hvaða hæfni endurskoðendur og eftirlitsmenn í ríkisendurskoðuninni þurfi að hafa til þess að störf þeirra komi að nokkrum notum, mun lengi hafa villt þeim sýn, sem endanlega ákvörðun hafa haft um flokkun ríkisstarfsmanna í launaflokka.“

Það, sem ríkisendurskoðandi hefur sem sagt lagt áherzlu á, er ekki það að fá heilan hóp af starfsmönnum, það telur hann ekki að leysi endilega þá erfiðleika, sem við er að glíma, hann hefur lagt áherzlu á að fá meira af lærðum endurskoðendum. Það er ekki hægt að fá þessa menn miðað við þau launakjör, sem úrskurðuð eru starfsmönnum stjórnardeildanna, og þetta er mikið vandamál og á ekki eingöngu við hér, heldur í fleiri greinum í ríkiskerfinu. Ég get tekið sem dæmi t.d. aðra stofnun, sem er embætti ríkisskattstjóra og þá fyrst og fremst skattarannsóknirnar, þar sem óumflýjanlegt er að hafa lærða endurskoðendur. Það hefur orðið að ráða menn með ýmsum hætti, en það er hið sama við að glíma og ríkisendurskoðandi bendir á, vanur endurskoðandi getur afkastað helmingi meira verki en óvant fólk, sem ekki kann sín verk, og því er þetta ekki eins einfalt og menn vilja vera láta. Það er hins vegar rétt, sem ríkisendurskoðandi segir, að við höfum sameiginlega verið að athuga það að undanförnu í samráði við launamálanefnd ríkisins, hvaða hugsanlegar leiðir er hægt að finna til að launa betur endurskoðendur, án þess að það skapi stór vandræði í stjórnarráðinu yfir höfuð, þannig að hér er ekki um neinn illvilja eða slóðahátt að ræða, heldur erfiðleika á að leysa visst vandamál.

Hvað sem öllu þessu líður, sem ég er hv. þm. algjörlega sammála um að þarf að leggja kapp á að koma í lag, þá vil ég vekja athygli á því, sem er í niðurlagi á svörum ríkisendurskoðunar, en þar segir svo, að endurskoðun á tekjum hjá innheimtumönnum ríkissjóðs sé mun betur á veg komin nú en undanfarin ár. Enn fremur er sagt um tollendurskoðunina, að með sameiginlegu átaki ríkisendurskoðunarinnar og fjmrn. hafi innheimta aðflutningsgjalda færzt í fastari skorður og eftirstöðvar minnkað mjög, þannig að sem betur fer sé nú svo komið, að tollvanskil mega heita algjör undantekning.

Um vanskil einstakra sýslumanna, sem hv. þm. vék að, þá er það ósköp eðlilegt að það skapi tortryggni, og kannske ómaklega tortryggni. Hann minntist á einn sýslumann t.d., mér er að vísu ekki nákvæmlega ljóst hvaða sýslumann hann á við, en ég vék samt að einum sýslumanni, sem er sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu, sem er talað um, að hafi ekki skilað fyrr en komið var langt fram á ár. En þetta er ekki hans sök, heldur alveg eins sök rn., vegna þess að ástæðan til þess að hann hafði ekki skilað, — þetta var tiltölulega lítið fé, um 2–3 millj. kr., sem stafaði af greiðslum, sem hann hafði innt af hendi fyrir ýmis rn. vegna endurgreiðslu, sem menn í hans umdæmi áttu rétt á samkv. l. að fá í sambandi við ýmsa hluti, — þessum endurgreiðslum frá rn. eða uppgjöri þeirra hafði seinkað, svo að það var í rauninni frekar þess sök, og fyrst og fremst þess sök, en ekki embættismannsins, að hann hafði ekki getað gert þetta upp. Þetta tel ég sjálfsagt, að komi hér fram. En eins og ég gat um áðan, þá endurgreiddist þrjá fyrstu mánuði ársins meginhlutinn af öllu því fé, sem útistandandi var hjá sýslumönnunum í árslok og stafaði af þeim ástæðum, sem ég vék að áðan, að þeir höfðu lagt áherzlu á sem sagt að halda opnu, syndgað upp á náðina, ef svo má segja, dálítið fram yfir áramót til þess að geta komið inn meiri skilum og geta sýnt minni eftirstöðvar, sem að sjálfsögðu er ekki í samræmi við þær ströngu bókhaldsreglur, sem við viljum láta fylgja.

Varðandi embætti húsameistara skal ég ekki ræða neitt hér. Það er vikið að því í aths. og svörum rn. í því efni, og það verður lögð áherzla á að kippa í lag því, sem þar hefur farið aflaga. Ég er alls ekki að fullyrða að þar hafi ýmislegt verið verra en kannske er einhvers staðar annars staðar, en mér er þó ekki kunnugt um, að það hafi komið upp á þessu tímabili víðtækari fjármálaóreiða hjá einu embætti, og er þar að sjálfsögðu um meira en bílastyrki að ræða. Hverjum það er að kenna skal ég heldur ekkert um segja. Það er efni, sem verður tekið til fullkominnar rannsóknar og því framfylgt, að því verði öllu kippt í lag, eins og að sjálfsögðu ber að gera, og þó eitthvað annað kunni að fara aflaga, þá breytir það nú ekki því, að það sé kannske einnig rétt að vekja athygli á þessu, enda hafa yfirskoðunarmenn ríkisreiknings gert það.

Mér er hins vegar mjög ljúft að svara því, sem hv. þm. minntist á um bílastyrkina, og ég get svarað honum því, að ég er ekki ánægður með, að því hefur ekki þokað meira áleiðis en raun ber vitni um. Ég skýrði hér frá því síðast, þegar við áttum orðræður um þetta, en það eru allmargir mánuðir síðan, að mig minnir, að það hefði verið gert uppkast að ákveðnum till. um þetta sem hefðu verið afhentar fjvn. til nánari athugunar. Fjvn. hefur tilnefnt sérstaka undirnefnd til þess að rannsaka þetta mál og vera hagsýslustjóra og fjmrh. til ráðuneytis um ýmis sparnaðar- og endurskipulagningarmál, en niðurstaða hefur ekki enn þá fengizt í þessu bifreiðastyrkjamáli. Ég get þó sagt, að það er mjög langt komið að meta bifreiðastyrki allra þeirra, sem bifreiðastyrki eiga að hafa, þannig að það má segja, að það sé búið að fullnægja reglum varðandi flest eða öll rn. Það hefur þótt hagkvæmt og verður ekki hjá því komizt að greiða svo og svo mikla bifreiðastyrki, það má auðvitað alltaf um það deila, eins og annað, en það hefur þó verið reynt að meta það raunhæft og setja um það fastar reglur. Þá hef ég einnig gefið fyrirmæli um það að hefja undirbúning að merkingu allra ríkisbifreiða, og það mál er nú í athugun. Þar á ég við þær bifreiðar, sem ríkið á, og ætlazt er til, að séu eingöngu notaðar sem vinnubifreiðar, og alls ekki heimilt að starfsmenn ríkisins noti til eigin þarfa. Þá er eftir þriðji liðurinn, sem eru hinar svokölluðu forstjórabifreiðar, sem eru 50–60 talsins og er að minni hyggju, og ég veit, að það er einnig skoðun hv. þm., mesta vandamálið í þessu efni, hvernig með eigi að fara. Og það er þetta atriði, sem ég tel að sé brýn nauðsyn að setja um fastar reglur. Mér er það fullkomlega ljóst, að það eru ýmsir, sem hafa bifreiðar, sem ættu síður að hafa þær en aðrir, sem ekki hafa slík hlunnindi. Hins vegar veit ég, að öllum er ljóst, að hér er um stór hlunnindi að ræða, sem hafa tíðkazt í mörgum embættum um langan tíma, og ýmsir embættismenn hafa jafnvel tekið embætti, svo að vitað sé, vegna þess að slík hlunnindi hafa fylgt þeim. Hér er því ekki um einfalt mál að ræða. Það er núna í athugun, hvaða embættismenn aðrir ættu þá eðlilega rétt á að fá slíka styrki, ef þessu yrði öllu breytt í bifreiðastyrki, því að það verður þá einnig að skoðast þannig, að málið liggi fyrir í heild.

Það má vafalaust saka mig um slappleika í því, þá ekki síður en mína fyrirrennara um áratugabil, að hafa ekki komið þessu í lag. Ég er ekki að koma neinni sök yfir á hendur minna góðu vina í fjvn. og undirnefndum hennar, þó að ég segi, að það hafi ekki komið endanleg till. frá þeim um þetta mál, en ég held, að allt þetta og þeir mörgu aðilar, sem hér hafa komið nærri og það menn úr öllum flokkum, sýni það ljóslega, að hér er um töluvert erfitt vandamál að ræða, ekki vandamál, sem á að gefast upp fyrir, það er ég hv. þm. sammála um, en er þess eðlis, að það er ekki einfalt til úrlausnar. Á þessu stigi get ég ekki sagt annað en það, að það mun verða lögð áherzla á að láta þetta mál ekki gufa upp, heldur reyna að fá um það endanlega niðurstöðu, hvað sem mönnum kann svo að lokum að þykja um þá niðurstöðu, hvort hún sé sanngjörn og réttmæt eða ekki.